Sjá, ég hef róað og sefað sál mína. Eins og lítið barn við brjóst móður sinnar, svo er sál mín í mér. (Davíðssálmur 131.2)
Okkur er svo oft sagt að kyn skipti ekki máli, ég álít það blekkingu af hálfu þeirra sem vilja halda í valdið yfir kynjunum. Kynið skiptir víst máli, kannski mismiklu máli en jafnréttistbarátta snýst ekki um að núlla út það sem aðgreinir kynin. Það skiptir mig máli að ég er kona og það skiptir mig máli að eiga margar ólíkar fyrirmyndir sem eru konur, það skiptir mig máli að þegar ég tjái tilfinningar hafi ég möguleika á mismunandi myndlíkingum. Það skiptir mig öllu máli að þegar ég hugsa um Guð á ég margar myndir í huganum af Guði. Ég vann með fermingarbörnunum mínum um daginn leirmyndir sem tengdust sögunni af Davíð, Batsebu og atburðum í þeirra lífi. Eitt ákvað að túlka risann Golíat, hinar myndirnar voru m.a. blóðið sem Davíð lét úthella, blóði drifinn hnífur, harpa, barnið sem fæddist þeim Davíð og Batsebu, Batsebu að baða sig og ein stúlkan vildi fá að gera brjóst. Ég var fljót að reyna að draga úr því, fannst það kannski ekki alveg nógu sniðugt. En ég hugsaði bara meira og meira um hvað það var samt táknrænt. Það var lostinn sem kviknaði hjá Davíð við að sjá þetta brjóst og allt sem það hafði í för með sér, þetta sama brjóst fæddi barnið sem lést og sorgina fann móðirin í brjóstinu sem framleiddi áfram mjólk eftir andlát barnsins. Þetta sama brjóst fæddi síðar hinn mikla og virta dómara Salómon sem var augasteinn móður sinnar. Víst skipti þetta brjóst máli, kynin skipta máli og það skiptir öllu máli að ójafnvægi milli kynjanna verði leiðrétt. Það skiptir öllu máli að við hættum að láta börnin okkur heyra þegar við tölum niður til ákveðins kyns, kynhneigðar eða annarrar manneskju. Það skiptir mig öllu máli að ég geti stundum séð Guð koma til mín eins og orkumikila húsmóður sem skundar mér til hjálpar. Að Guð komi til mín og vefji mig inn í vængina sína þar sem ég leita eftir skjóli að Guð leggi mig á brjóst og gefi mér lífsnauðsynlega næringu.