Við ætlum nú að hafa biblíulestra á dagskrá okkar til vors en kannski stinga einu og öðru inn á milli eins og við gerum oft. Allt eftir því sem við viljum.
Biblían er undirstaða kristinnar trúar og þess vegna allrar kirkjunnar fyrr og síðar um víða veröld. Biblían er alltaf prentuð og alltaf rifin út. Sjálfar höfum við sagt frá því að við höfum ævinlega fundið uppörvun okkar í Biblíunni, í stríði og friði. Við vitum að við erum í milljónahópi þegar við segjum það. Biblían er alltaf metsölubók.
Kirkjan hefur alltaf endurlífgast með því að safna sér saman til biblíulesturs. Hin mikla trúarvakning Lúters varð vegna rannsóknar Lúters á Biblíunni. Þar fann hann grundvöll lífs síns sem var sá að við finnum frið okkar í trúnni á Guð en ekki í okkar eigin hugmyndum og verkum. Við réttlætumst af náð, voru lausnarorðin. Af náð en ekki af verkum. Þess vegna, vegna náðarinnar skulum við leggja okkur í framkróka til að gera verk okkar vel. Sagði Lúter.
Þegar hin mikla vakning siðbótarinnar hafði endurlífgað sviðið í 100 ár kom afturkippur í starfið. Það er auðveldara að hefja verk en halda því við. Siðbóðtin var fallin í form og gleðin þornuð. Það þurfti að gera eitthvað. Hvað átti að gera? Það sem þurfti að gera og var gert var þetta: Siðbótarfólkið safnaðist saman til að lesa Biblíuna.
Hann hét Jakon Spener sem tók af skarið. Hann bjó í Strassborg. Og þegar siðbótarfólkið hélt áfram biblíulestri sínum og samkomum varð ný og öflug vakning sem barst með mikilli gleði um Evrópu og Ameríku.