Málþing Samráðsvettvangs trúfélaga ,,Trú, skoðunarfrelsi og mannréttindi“ verður fimmtudaginn 27. febrúar í safnaðarheimili Háteigskirkju. Málþingið er haldið í samvinnu við Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Fundarstjóri er Margrét Steinardóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Öllum heimill ókeypis aðgangur meðan húsrúm leyfir.
Fyrirlesarar verða Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor við Háskólann á Bifröst og Arnfríður Guðmundsdóttir, guðfræðingur og prófessor við Guðfræði-og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Undanfarin ár hefur verið rætt um árekstra milli trúarhefða og mannréttinda. Ágreiningsefnin varða m.a. kvenréttindi, málefni samkynhneigðra, vígsluathafnir fyrir börn, menntun og tjáningarfrelsi. Markmiðið með málþinginu er að draga fram helstu árekstrana og vega þá og meta út frá lögfræðilegum, heimspekilegum og trúarbragðafræðilegum sjónarhóli.
Spurt verður: Hvað nær trúfrelsi langt? Hvernig er unnt að viðhalda jafnvægi á milli trúariðkunar og mannréttinda? Getur samfélagið samþykkt starfsemi trúfélaga eða trúarbragða sem hafa að geyma kenningar eða stefnur sem talist geta á skjön við almenn mannréttindi? Hvaða úrræði eru fyrir hendi þegar árekstrar eiga sér stað? Hversu langt nær tjáningarfrelsið? Hvað getur flokkast undir hatursorðræðu? Hvernig ber að bregðast við haturshreyfingum?
Aðgangur er ókeypis og allt fólk velkomið – og nú er gott tækifæri fyrir konur Kvennakirkjunnar til að víkka sjóndeildarhringinn. Komum sem getum !