“ Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þær í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það , sem ég hef boðið yður” Matteusarguðspjall, 28. 19-20.
Í kjölfar árásarinnar á tímaritið Charlie Hebdo í París heimsótti Hollande Frakklandsforseti hjálparsveitir hersins til að þakka þeim liðsinni.
Hann sagði efnislega eitthvað á þessa leið: “ Bæði hér heima og á erlendri grundu hafið þið unnið þrekvirki, með því að færa hungruðum fæðu, heimta slasaða úr hættum, stilla til friðar þar sem stríð geisar og leysa fanga úr haldi”. Hann sagði að sveitirnar ynnu að því að flytja anda mannúðar og frelsis og jafnréttis hvar sem þar færu.
Síðan sagði hann: “ Ég þakka ykkur það starf sem þið leggið fram af hollustu við ríkið. Það er mikilvægt. Og nú vil ég ennfremur bæta því við að hver einasti borgari, kona, karl og barn má vera opinber embættismaður, til að flytja anda mannúðar hvar sem þau eru. “
Lærisveinarnir ellefu fengu að fara til fundar við upprisinn frelsara og hann fól þeim mikilvægt erindi.
Við, hver og eitt, megum taka það til okkar. Við erum lærisveinar Guðs ríkis og embættismenn þess.
Við megum fara og kenna og segja frá og sýna hvers Guð er megnugur.
Hversu fagrir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans….
Með bestu kveðjum, Dalla Þórðardóttir