Nú er talað um geðheilsuna og við fáum glaðlegar hvatningar til að gæta að henni. Alveg dásamlegt. Ég held að bæði kirkjan og heilbrigðiskerfið ættu að hvetja til þess að búðir verði aftur opnaðar í hverri götu eins og einu sinni. Það held ég að myndi styrkja geðið og gefa okkur öryggi með hinum. Við finnum þetta öryggi þegar við hittumst í Kvennakirkjunni og Sigríður Magnúsdóttir orti þessi vers sem við syngjum saman:
Í gleði Guðs geng ég nú glaðsinna inn,
ó, hve gott er að fagna með þér.
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
og ég finn að þú samgleðst með mér.
Og gott er að ganga hér inn
því gleði og vináttu finn.
Hérna finn ég þann frið sem oft fjarlægur er
og ég finn að þú samgleðst með mér.
Blíðar kveðjur, Auður Eir