18. ára og sjálfráða. Prédikun 13. febrúar 2011
Prédikanir 2011
Til hamingju með afmælið. Kvennakirkjan er 18 ára og ræður sér sjálf. Þess vegna stígum við nýtt skref í kvöld. Nýtt fullræðisskref þessa merka afmælis. Við tölum um það á eftir. . Við fögnum því að vera sjálfráða og enn meira fögnum við því að hafa alltaf verið sjálfráða. Hvað höfum við nú gert í 18 ár í frelsi okkar og gleði? Við höfum verið saman og styrkt hver aðra í trú okkar. Það er trúin á Guð vinkonu okkar sem er ein af okkur, alltaf með okkur, tekur þátt í öllu starfi okkar og gefur okkur hugmyndir. Og ef sumar okkar vilja heldur kalla hana eitthvað annað en vinkonu okkar þá höfum við frelsið og gleðina til að una því prýðilega því engin okkar ræður yfir annarri.
Trúin á Guð vinkonu okkar er trúin á Guð sem kom og var Jesús Kristur sem lifði og dó og reis upp frá dauðum og er hjá okkur. Hann er hún sem kom og er og er alltaf. Og er vinkona okkar. Hvað höfum við gert í vináttu hennar? Við höfum búið til torg þar sem við megum allar vera og allar tala og vinna. Það er torg kvennaguðfræðinnar. Og kvennaguðfræðin tekur til alls sem við gerum, alls lífs okkar. Hún er hversdagsguðfræði um Guð og okkur, allar saman og eina og eina. Og í öllum dögum okkar. Heima og heiman, með öðrum og með sjálfum okkur innst í okkar eigin huga. Þess vegna höfum við haldið námskeið og ráðstefnur um hina margvíslegustu hluti, Biblíuna, gleðina, reiðina, þunglyndið, þjóðfélagið, framfarir, breytingarskeiðið og tískuna og svo miklu fleira. Við tölum sífellt sífellt um lífsgleðina. Og um lífsóttann. Við segjum hver annarri aftur og aftur að mótlætið mæti okkur öllum […]
Kletturinn undir fótum þér. Matt 7.21 – 29. Prédikun 16. janúar 2011
Prédikanir 2011
Þetta er fyrsta messa Kvennakirkjunnar á árinu 2011. Því langar mig að byrja á að óska ykkur gleði og gæfu á nýju ári og þakka fyrir allar samverustundirnar í Kvennakirkjunni á því ári sem liðið er. Áramót eru tímamót og á tímamótum hvarflar hugur okkar ósjaldan að því sem var og því sem verður.
• Hvað upptekur huga þinn í upphafi nýs árs?
• Hvað fer um hugann þegar þú lítur til baka? En þegar þú horfir fram á við?
• Hvar stöndum við, – þú og ég? Og hvert liggur leið okkar, – og leið Kvennakirkjunnar, héðan?
Það er hollt og gott að taka sér tíma reglulega til að hugleiða stöðu sína og stefnu og hvort og þá hvaða breytingar við myndum vilja gera á högum okkar svo við getum lifað lífinu eins og okkur innst inni dreymir um og teljum rétt. Og það er afar dýrmætt að hafa leiðbeiningar, – eða ramma, sem heldur utan um okkur í þeim hugleiðingum. Slíkan ramma er að finna í Fjallræðu Jesú eins og Auður skýrði svo skemmtilega út fyrir okkur í einni af prédikun sinni fyrr í vetur, en eins og þið kannski munið þá ákváðum við að beina sjónum okkar sérstaklega að textum Fjallræðunnar í vetur. Svo verður því einnig í kvöld.
II.
Margir fræðimenn hafa rýnt og rannsakað texta Fjallræðunnar í gegnum árin og aldirnar og sjá sumir þeirra sterk áhrif lögmáls Gyðinga á boðskap Jesú eins og hann birtist þar. Fjallræðan inniheldur enda skýrar leiðbeiningar fyrir lífið eins og lögmálið gerir. Og sjálfur segir Jesús í upphafskafla hennar: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.“ (Matt. 5:17) Jesús kom til að uppfylla lögmálið – með kærleika […]