Postulasagan segir frá nýjum möguleikum
Postulasagan er saga um fögnuð kristinnar trúar og boðun hennar og um átök um það sem var á seyði utan kirkjunnar og innan hennar. Boðberarnir voru fólkið sem hreifst af trúnni og gerði hana að grundvelli lífs síns. Það hélt hópinn í mikilli samheldni og þegar þau voru ofsótt dreifðust þau og stofnuðu söfnuði þar sem þau settust að. Þau héldu áfram að standa saman. Í upphafi voru þau flest Gyðingar og boðuðu fagnaðarerindið í samkomuhúsum þjóðar sinnar sem voru víðast hvar um alla veröldina. Margt fólk utan gyðingdómsins laðaðist að gyðingdómnum og hreifst svo af kristninni. Samkomuhúsin auðvelduðu útbreiðsluna og líka vegalagnir Rómverjanna um allt hið stóra rómverska ríki, rómversku lögin og friðargæslan, trúfrelsið og grísk tunga sem var töluð allsstaðar auk ýmissa tungumála.