Páskagleði á hverjum degi – Prédikun í Friðrikskapellu 14. apríl 2013

I.
Takk fyrir þetta yndislega samfélag kæru vinkonur,  – samfélagið okkar við Guð sem kom til okkar sem Jesús og við hver aðra þar sem við tókum þátt í heilagri kvöldmáltíð og útdeildum brauði og víni okkar í milli. Eins og þið vitið var það Jesús sjálfur sem stofn¬setti heilaga kvöldmáltíð. Um það getum við lesið hjá guðspjalla¬¬-mönnunum, þeim Matteusi, Markúsi og Lúkasi, einnig hjá Páli postula.  Þeir greina allir frá síðastu kvöldmáltíðinni sem Jesús átti með lærisveinum sínum áður en hann gekk í gegnum þjáningu og dauða á krossi, – og reis upp frá dauðum á þriðja degi. Með kvöldmáltíðinni og fyrirheitinu henni tengdri gaf hann kirkjunni sinni, okkur öllum, tækifæri til að mæta sér á persónulegan og áþreifanlegan máta og taka við gjöfinni sem líf hans og fórnardauði er. Gjöf sem felur í sér fyrir¬gefn¬ingu misgerða okkar og endurnýjar og endurnærir samfélag okkar við Guð vinkonu okkar aftur og aftur.
Í guðfræðiumræðu fyrri tíma var tekist kröftuglega á um með hvaða hætti mætti skýra nálægð Jesú í heilagri kvöldmáltíð. Þau átök voru fyrirferðarmikil í tengslum við gagnrýni Lúthers á rómversk-kaþólsku kirkjuna á sínum tíma. Andstætt sjónarmiði hennar taldi Lúther það ekki þurfa mikilla skýringa við heldur ætti fyrst og síðast að treysta fyrirheiti Jesú um að vera nálægur, í brauðinu og víninu, eins og orð hans í ritningunni gefa skýrt til kynna. Þau voru fullnægjandi að mati Lúthers, enda Biblían mælisnúran er allt skyldi miðast við.
Það er við hæfi nú þegar páskahátíðin er ný yfirstaðin, að staldra aðeins við og hugleiða innhald og tilgang heilagrar kvöldmáltíðar, -altarissakramentisins, og samhengið sem hún sprettur úr. Í því kristallast merkingarþrungin saga Jesú. Saga kærleiksboðskapar og þjónustu, mótlætis og þjáningar, en um leið saga óumræðilegrar gleði sem við eigum […]

Á leið í návist guðs – sem breytir öllu – Guðsþjónusta í Fríkirkjunni í Hafnafirði 11. nóvember 2012

I.

Bandaríska konan Cheryl Strayed lagði upp í göngu á The Pacific Crest Trail, – 4.286 km leið sem liggur allt frá landamærum Kalforníu og Mexikó, yfir Sierra Nevada fjallgarðinn í suðri og Cascade fjallgarðinn (Fossafjöll) í norðri, að landamærum Washington fylkis og Kanada. Ástæðan fyrir því að hún, alls óvön fjallgöngum, ákvað að takast á við þessa áskorun, – að ganga einsömul í rúma þrjá mánuði þessa leið, lá fyrst og fremst í vanlíðan hennar vegna sorgar og missis og því róti sem það koma á líf hennar allt. Hún hafði ekki fundið leiðina til sjálfrar sín að nýju og eitthvað innra með henni hvíslaði að henni að þetta væri leiðin, að hana yrði hún að fara.

Í nýútkominni bók sinni Wild lýsir Cheryl glímunni sem hún átti í við sjálfa sig og lífið á göngunni, – allt það sem hver dagur færði henni í margbreytileika óbyggðanna. Átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum sem hún kunni ekki að pakka í og hún gaf nafnið Skrímsli og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Á göngunni mætti innri sársauki hennar ytri sársauka. ***

Í þessum töluðum orðum er íslensk kona Vilborg Arna Gissurardóttir að undirbúa göngu á Suðurpólinn en ætlun hennar er að fljúga á upphafsstað frá Punta Arenas í Chile einmitt í dag. Leiðin sem Vilborg Arna ætlar að ganga er 1140 km og mun taka hana 50 daga […]

Prédikun í Hvalsneskirkju 13. maí 2012

Vonarríkt sumar!

I.

Áhrifa sögunnar gætir hér í Hvalsneskirkju. Svipmyndir úr lífi sr. Hallgríms Péturssonar, sálmaskálds, sækja á. Það rifjast upp að hingað var hann vígður árið 1644 af sr. Brynjólfi Sveinssyni, biskupi í Skálholti. Þá var það líklega hér sem Hallgrími og Guðríði, konu hans, fæddist dóttirin Steinunn, litla stúlkan sem var eftirlæti föður síns og yndi. Og hér horfðu þau á bak henni er hún lést aðeins þriggja ára gömul. Hún var föður sínum mikill harmdauði, – eins og sorgarljóðin sem hann orti bera vitni um. Líka veðraður legsteinn hennar og grafskrift, en álitið er að Hallgrímur hafi sjálfur hafi unnið steininn úr grásteinshellu og ritað á hann nafn hennar og dánarár.

Hér steig Hallgrímur sín fyrstu spor í þjónustu kirkjunnar, – þjónustu sem átti eftir að bera mikinn ávöxt og móta trúaruppeldi flestra Íslendinga. Svo samofin eru sálmar hans – Passíusálmarnir, og öll bænaversin, trúararfi okkar og trúariðkan. Það er mjög við hæfi, á þessum 5. sunnudegi eftir páska, sem jafnframt er hinn almenni bænadagur kirkjunnar, að vera einmitt hér og minnast hans, sem gaf okkur svo óendanlega dýrmæt orð á tungu til að tjá með gleði okkar og sorg frammi fyrir Guði frelsara okkar.

II.

Í kringum borðið í Kvennakirkjunni eiga sér oft stað djúpar og einægar umræður um lífið og tilveruna og samskipti okkar við Guð, vinkonu okkar. Hvernig við finnum fyrir nálægð hennar, – og jafnvel stundum ekki, hvernig við tölum við hana um allt það sem hvílir á okkur og hvenær okkur reynist það svo erfitt. Við berum saman bækur okkar og miðlum af persónulegri reynslu. Hafi fluga verið á vegg í Þingholtsstræti þegar við síðast ræddum um bænina og bænarlífið hefur hún líklega heyrt eftirfarandi orðaskipti:„Hvernig er best að biðja og rækta […]

Kletturinn undir fótum þér. Matt 7.21 – 29. Prédikun 16. janúar 2011

Þetta er fyrsta messa Kvennakirkjunnar á árinu 2011. Því langar mig að byrja á að óska ykkur gleði og gæfu á nýju ári og þakka fyrir allar samverustundirnar í Kvennakirkjunni á því ári sem liðið er. Áramót eru tímamót og á tímamótum hvarflar hugur okkar ósjaldan að því sem var og því sem verður.

• Hvað upptekur huga þinn í upphafi nýs árs?

• Hvað fer um hugann þegar þú lítur til baka? En þegar þú horfir fram á við?

• Hvar stöndum við, – þú og ég? Og hvert liggur leið okkar, – og leið Kvennakirkjunnar, héðan?

Það er hollt og gott að taka sér tíma reglulega til að hugleiða stöðu sína og stefnu og hvort og þá hvaða breytingar við myndum vilja gera á högum okkar svo við getum lifað lífinu eins og okkur innst inni dreymir um og teljum rétt. Og það er afar dýrmætt að hafa leiðbeiningar, – eða ramma, sem heldur utan um okkur í þeim hugleiðingum. Slíkan ramma er að finna í Fjallræðu Jesú eins og Auður skýrði svo skemmtilega út fyrir okkur í einni af prédikun sinni fyrr í vetur, en eins og þið kannski munið þá ákváðum við að beina sjónum okkar sérstaklega að textum Fjallræðunnar í vetur. Svo verður því einnig í kvöld.

II.

Margir fræðimenn hafa rýnt og rannsakað texta Fjallræðunnar í gegnum árin og aldirnar og sjá sumir þeirra sterk áhrif lögmáls Gyðinga á boðskap Jesú eins og hann birtist þar. Fjallræðan inniheldur enda skýrar leiðbeiningar fyrir lífið eins og lögmálið gerir. Og sjálfur segir Jesús í upphafskafla hennar: „Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla.“ (Matt. 5:17) Jesús kom til að uppfylla lögmálið – með kærleika […]

Haustið og möguleikar þess. Prédikun 13. september 2009

Einhver hefur stráð flórsykri yfir Esjuna
Einhver hefur breytt grænu í gult og gulu í rautt
Einhver hefur losað límið af laufblöðunum sem límdi þau á sinn stað
Einhver hefur hnoðað ský og leyft þeim að lyfta sér á himninum
Einhver hefur hvíslað að fuglunum að færa sig úr stað og fara til heitari landa
Einhver hefur sagt flugunum að fara í háttinn
Einhver hefur komið Norðurljósunum í svo gott skap
að þau tjútta á himninum í laumi og vita ekki að ég sé þau alveg
Einhver hefur bakað haust úr sumri og hafið nýja tísku þar sem heitir litir eru inn
Einhver hefur gefið mér svo ótal margt að undrast yfir og þakka fyrir
Einhver er svo yndislegur að ég á erfitt með að hætta að dást að honum
Einhver hefur skapað og ég get bara þakkað

Ljóðið Haust eftir Ingunni Huld Sævarsdóttur, úr ljóðabókinni: „Úr hungr míns hjarta“, Reykjavík, 2005

Þannig lýsir ungt ljóðskáld, Ingunn Huld Sævarsdóttir, haustinu. Á skemmtilegan og myndrænan hátt dregur hún fram allar breytingarnar sem því fylgja og sköpunarkraftinn sem í þeim felast. Og hún þakkar Skaparanum. Já, það haustar enn einu sinni, – það fer ekki fram hjá okkur!
Allt frá því ég man eftir mér hefur haustið átt sérstakan stað í hjarta mínu, – verið uppáhaldsársstíðin mín, – ef hægt er að gera þar upp á milli, því svo sannarlega er ég alltaf tilbúin að taka á móti sérhverri þeirra þegar hún lætur sjá sig. Því við getum án efa öll verið sammála um hve ljúft er að finna fyrir hlýju vorsins, taka á móti tilbreytingu og hvíld sumarsins, sem aftur býr okkur undir eftirvæntinguna, sem fylgir haustinu, og sprennandi verkefni vetrar. Eftirvæntingin! Það er líklega eftirvæntingin, þessi kitlandi tilfinning, sem haustið hefur fram yfir aðrar árstíðir. Fyrir utan, oft óendanlega […]