Komið þið sæl. Í Orðskviðum, sem er eitt af ritum Gamla testamentisins, er að finna mörg mögnuð vers. En orðskviðir merkir málsháttur eða spakmæli. Eitt þessara spakmæla í Orðskviðum á vel við í kvöld og hljóðar svona: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu“ (15.15). Sem sagt, þau sem eru sífellt að kvarta og kveina eiga erfitt með að sjá gleðina og birtuna sem eru allt í kringum okkur. En þau sem láta gleðina og birtuna sem hvílir í hjarta þeirra streyma fram, uppskera veisluhöld. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að lífið sé ekkert annað en veisluhöld.
Ég tel að stundum sé hægt að líkja lífsgöngu okkar við árstíðirnar, það skiptast á skyn og skúrir. Ágæt kona sagði einu sinni að erfiðu stundirnar geti líka verið nauðsynlegar til þess að minna okkur á þær góðu. Ef allar stundir væru góðar myndu þær fljóta framhjá án þess að við tækjum eftir þeim. Lífsganga okkar flestra er með þeim hætti að alvara lífsins bankar upp á hjá okkur fyrr eða síðar. Það er jafnvel hægt að tala um að það sé í eðli lífsins að mæta erfiðleikum. Það sé hluti af lífinu sjálfu. Við getum þá sagt að skýjabakkar byrgi okkur sólarsýn en vonandi bara um stundar sakir. Einhvern veginn finnst manni stundum að aldrei skíni sólin skærar en einmitt eftir hellidembu. Það er nefnilega þannig að það skiptir miklu máli hvernig við tökum erfiðleikum. Því miður getum við verið í aðstæðum sem við völdum ekki og því síður stjórnað. En við getum engu að síður ráðið miklu um líf okkar og einnig líðan. Mörg okkar eru gædd þeim hæfileika að geta séð hið spaugilega, […]