Messa í Langholtskirkju 18. apríl 2004

Við skulum biðja.
Guð, þú sem ert uppspretta alls sem lifir. Við þökkum þér fyrir lífið og fyrir hvern dag, sem þú gefur okkur. Takk fyrir að leiða okkur hingað í kvöld, til að hlusta á orðið þitt, biðja saman og njóta samvistanna hvert við annað. Viltu opna hjörtu okkar fyrir orði þínu, svo að það veki okkur og efli. Í Jesú nafni. Amen.
Ég er hamingjubarn, ég á himneskan arf,
þó að hörð reynist ævinnar braut.
Ó, hve gott er, að aldrei ég örvænta þarf.
Mína auðlegð með Jesú ég hlaut.

Þetta vers er úr einum af mínum uppáhaldssálmum. Sálmi, sem ég kynntist hér í Kvennakirkjunni. Í hvert skipti sem ég syng hann, finn ég fyrir mikilli gleði og fyllist undursamlegum friði. Lagið er fallegt og boðskapurinn einfaldur og skýr.

Ég get tekið undir með skáldkonunni, Hugrúnu, og sagt: Ég er hamingjubarn. Það getum við öll. Sérstaklega þegar við hugsum um páskana, hátíð upprisunnar. Við erum hamingjubörn, börn ljóss og vonar. Þrátt fyrir öll vonbrigði lífsins erum við hamingjubörn, vegna þess að við höfum fengið himneskan arf í upprisu Jesú. Við höfum hlotið auðlegð upprisu og lífs í sigri hans.

Vonin er þema þessarar messu. Vonin kristallast í boðskap páskanna. Hún byggir á trúnni á sigur Jesú. Sigur hans á dauðanum, myrkrinu og vonleysinu. Vonin er um upprisu og eilíft líf. Lífsins með Guði, hér og nú og alltaf.

II
María var hamingjubarn. Dag einn kynntist hún manni, sem breytti öllu í hennar lífi. Manni sem gaf lífinu tilgang og markmið. Jesús kom inn í líf hennar. Hann nefndi hana með nafni og sagði henni hver hún væri í raun og veru. Að hún væri einstök manneskja, góð og falleg sköpun Guðs. Jesús sagði að hún ætti að byggja líf sitt á honum og […]