Það var seinnipart vetrar árið 1993, fyrir 13 árum, að Guðný vinkona mín sagði mér að búið væri að stofna Kvennakirkju og hún hefði fengið það hlutverk að finna konur til að leiða safnaðarsöng í messum.„Heldurðu að þú getir kannski sungið eitthvað?“ spurði hún. Mér fannst auðvitað bráðfyndið að Guðný væri söngmálastjóri Kvennakirkjunnar og féllst umsvifalaust á að mæta á æfingu kvöldið eftir úti í Mýrarhúsaskóla – það skemmdi ekki fyrir að ég bjó þá og bý enn örstutt þar frá.
Ég man nú ekki sérlega mikið eftir þessum fyrstu söngæfingum og alls ekki hvaða sálma við æfðum en svo var allt í einu komið að messu. Ég mætti samviskusamlega í kirkjuna klukkutíma áður en messan átti að hefjast eins og okkur var uppálagt og þá fyrst fóru að renna á mig tvær grímur. „Í hvað er ég nú búin að koma mér? Hefði hreint ekki verið skynsamlegra að koma fyrst í eina messu og sjá hvernig mér líkaði? Ætli ég sé búin að koma mér í einhvern sértrúarsöfnuð?“ Þessar hugsanir flugu mér í hug þegar ég fylgdist með undirbúningi messunnar. Þarna voru ótal konur á ferð og flugi – það þurfti að leggja á borð í safnaðarheimilinu og koma kaffinu af stað, ein var beðin að bjóða kirkjugesti velkomna, önnur fékk það hlutverk að flytja kveðjuorð og það var einhvern veginn svo mikið um að vera að ég varð hálfringluð á þessu öllu. „Best að sjá hvað setur,“ hugsaði ég. „Ef mér líst ekki á þetta er ég ekkert að koma aftur.“ En svo hófst sjálf messan. Presturinn, séra Auður Eir, flutti predikun og ég tók að leggja við hlustir. Ég man ekki einu sinni hvert umfjöllunarefnið var í þetta skipti, en ég man að […]