Kæru kvennakirkjuvinkonur mínar og aðrir kirkjugestir!
Ég heilsa ykkur öllum í Jesú nafni. Hún Auður Eir vinkona okkar bað mig um að flytja vitnisburð á þessum sunnudegi, 3. sunnudegi í aðventu þetta árið og ég sagði já, því ég vil bera Jesú Kristi frelsara mínum vitni hér og nú hverju sinni.
Sem barn minnist ég þess aldrei að hafa verið myrkfælin, ég var einhvern veginn svo örugg með lífið allt frá því ég man fyrst eftir mér. Bænir voru beðnar með mér af móður minni og kannski föður (hann er skipstjóri og var oft á sjó á þessum árum), einnig voru amma og afi á Skagaströnd trúað fólk og þau fóru örugglega með bænir með okkur systrum. Þegar móðir mín lézt í bílslysi aðeins 25 ára gömul og ég 6 ára þá skildi ég eitthvað djúpt innra með mér. Ég hafði meira að segja fundið að eitthvað sérstakt var í loftinu daginn sem hún dó, því mig langaði svo að hjálpa til við að þurrka hnífapörin eftir hádegismatinn og ég fékk að gera það, það var síðasta verkið sem ég vann með móður minni hér á jörð.
Eftir að amma hafði sagt mér að mamma væri dáin, hún kæmi ekki aftur þá gekk ég út úr húsinu til þess að horfa á sjóinn. Fór út fyrir Sólvang, hús ömmu og afa á Skagaströnd og horfði út á sjóndeildarhringinn. Dóra frænka, móðursystir mín sem hafði verið með mömmu og okkur systrunum í bílnum kom út á eftir mér og spurði :”Skildirðu það sem amma þín sagði þér?” Já , ég skildi það.
Fyrsta meðvitaða minning mín tengist einnig sjóndeildarhringnum. Þá stóð ég uppi á Höfðanum á Skagaströnd og horfði út á hafið. Síðan þá hefur sjóndeildarhringurinn, þar sem himinn og […]