Bæn Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gerðu beina brautina þína fyrir mér og gef mér ljós þitt svo ég sjái hvert ég á að stefna. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Sendu mér áfram englana þína. Því að þú ert vinkona mín og vinur sem gengur með mér í gleði og sorg. Amen
Eins og fram kemur í fréttabréfi kvennakirkjunnar starfa ég sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla. Ég fæ því oft nemendur til mín í ýmsum erindagjörðum og oftar en ekki sem þurfa að fá hvatningu og ráð. Einn slíkur nemandi kom til mín nýlega og var frekar langt niðri, ég beitti samræðutækni og ýmsu uppbyggilegu til að veita henni sem besta þjónustu og hressa hana við, og smám saman sá ég að á henni lyftist brúnin. Ég hugsaði með mér að það sem ég hefði sagt hlyti að vera býsna snjallt. Spurði hana því, hvort að henni liði betur, en þá svaraði stúlkan og brosti einlæglega: „Ó, já, mér líður svo miklu, miklu betur AF ÞVÍ þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig.“ …. Ég ætla nú samt sem áður ekki að láta duga að brosa bara framan í ykkur í kvöld.
Svona sendir Guð okkur engla sína til að kenna okkur. Nemandinn var þarna að kenna kennaranum. Englarnir birtast í nemendum okkar, samferðafólki okkar – fjölskyldu, samstarfsfólki, vinum, fólki sem við mætum á förnum vegi og göngum samferða á lífsleiðinni. Á lífsleiðinni sem er gangan frá fæðingu til dauða er svo mikilvægt að vera vel vakandi, eða hafa olíu á sínum lampa eins og hún Gunnbjörg Óladóttir ræddi um í síðustu messu […]