Guð vinkona. Já, Guð vinkona, vinkona mín sem er með mér allan daginn, gengur við hlið mér og er til alltaf til staðar. Það virtist ekki erfitt að segja frá þessari frábæru vinkonu, ekki í fyrstu, en til að þið trúið mér þarf ég fyrst að trúa og mér hefur gengið erfiðlega að tileinka mér þessa nýju lífssýn að Guð sé kvenkyns.
Ungum er að allra best að óttast Guð sinn herra, lærði ég í barnæsku og það að Guð væri strangur, fylgdist með mér allan daginn og allar mínar yfirsjónir voru skráðar í stóra bók sem ég myndi þurfa að svara fyrir þegar ég berði að dyrum að himnaríki. Ef syndalistinn yrði langur beið mín vist í helvíti og þar voru ekki neinir sæludagar um alla eilífð. Það var eldri systir mín sem sá um þessa uppfræðslu og efa laus verið langþreytt á að reyna að hafa hemil á púkunum mér og yngri systkinum okkar og því reynt að nýta sér guðsóttann. Svo fluttum við að vestan og hættum að vera púkar og það eru ekki ýkja mörg ár síðan mér varð ljóst að við vorum ekki svona óskaplega erfið viðureignar að eiga þetta púkatal skilið eða hún svona ósanngjörn í okkar garð, enn í dag eru börn á Vestfjörðum allavega Ísafirði kölluð púkar. Þetta voru fyrstu kynnin af Guði, ríki hans og réttlæti. Um fermingu var Guð frekar orðin sem faðir: Vertu Guð faðir, faðir minn þuldi ég á fermingardaginn og mundi síðan ekki eftir Guði nema þegar eitthvað bjátaði á og vonaði að hann myndi eftir mér þó ég myndi nú ekki alltaf eftir honum. Á ákveðnum tímapunkti varð ég síðan mjög ósátt við ákvarðanir hans og var sem minnst að ónáða hann […]