Ég get ekkert án þín vinan mín
og veit þú skilur það
og veist að ekkert gerist nema allt sé sameinað.
Verkin þín og verkin mín
og viskan sem að nær í mark
og vináttan sem gefur okkur
frelsi, gleði og kjark.
Þannig talar Guð til okkar í sálminum sem Auður Eir orti á upphafsárum Kvennakirkjunnar og er í takti við þann anda sem ríkt hefur hjá okkur.
Sá andi byggist á persónulegu sambandi við Guð sem er vinkona okkar og stendur með okkur alltaf, í öllu sem við gerum. Við erum vinkonur hennar og hún þarfnast okkar til að vinna að því að gera heiminn betri. Vináttan við hana gefur okkur gleði og kjark, hverri og einni þar sem hún er stödd í lífi sínu og hún streymir á milli okkar í messum Kvennakirkjunnar. „Það ert þú, elskan mín, sem ert að halda þessa messu,” er setning sem Auður hefur sagt marg oft og smátt og smátt fórum við að trúa því að við værum ekki bara að þiggja heldur líka að gefa. Ég held að þessi afstaða prestsins okkar hafi skipt sköpum um það hvernig Kvennakirkjan hefur þróast og dafnað þau þrettán ár sem hún hefur nú starfað. Hún leysti úr læðingi einhvern galdur sem felst í jafnræðinu, því að deila trú okkar, vonum og væntingum í bænum, söng og nærveru og finna að við erum allar jafn mikilvægar, bæði í augum Guðs og hver annarrar. Og það er eimitt þetta atriði sem ég tel mikilvægast að við höldum í heiðri og hlúum að þegar við horfum fram á veginn á þrettán ára afmælinu okkar – að við séum allar jafnar, að hver rödd fái að njóta sín og að messan sé sameiginleg lofgjörð okkar allra. Við þurfum til dæmis að […]