Biðjum með orðum séra Hallgríms Péturssonar:
Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá bestu,
blessuð hans orð sem boðast þér,
í brjósti og hjarta festu. Amen.
Náð sé með okkur og friður frá Guði skapara okkar og Jesú Kristi frelsara okkar. Amen.
Það var fjölmennt við morgunverðarborðið á prestssetrinu á Reykhólum í morgun. Þar sem morgnarnir byrja vanalega í kyrrð og ró var skemmtilegur erill. Það var ekki hellt upp á einn bolla af kaffi heldur fulla könnu og morgunverðardiskarnir voru 8 en ekki einn. Það varð fjölgun upp á 7 manneskjur af báðum kynjum og á öllum aldri. Við vorum öll að búa okkur undir ferðalag dagsins, stefnan var tekin á stefnuna, prestastefnuna á Ísafirði.
Og það er gott að vera komin hingað í dag,horfa yfir hér úr prédikunarstólnum og sjá öll þessi kunnuglegu andlit, við erum heppin að eiga hvert annað að.
Það er gott að vera prestur hér í Vestfjarðarprófastsdæmi þó erfitt sé fyrir okkur prestana hér að hittast til skrafs og ráðagerða. Fresta hefur þurft hérðasfundum fram á haust v.ófærðar að vori og hittingum ýmiss konar og við sem erum á sunnanverðum kjálkanum ,,skreppum“ ekkert til að hitta kollegana hér fyrir norðan. Það er gott að vera hér prestur m.a. v. sögunnar: Því það var fyrir rétt 40 árum að hjón nokkur komu í eitt prestakall prófastsdæmisins og vildu fá að skoða kirkjuna og prestssetrið.
Formaður sóknarnefndar,sem þá var úti að stússa í garðinum spurði karlinn hvort hann hefði hug á að sækja um prestsembættið. Nei, sagði karlinn, það er konan.
Ekki er það verra, sagði formaðurinn þá. Og varð konan fyrst kvenna til að hljóta prestsvígslu á Íslandi og eru 40 ár í ár, hinn 29. september frá því að sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð fyrst kvenna […]