Er Guð kona? Ég býð okkur til hugleiðinga um spurninguna í kvöld. Og þess vegna fór ég niður á Laugaveg til að spyrja nokkrar manneskjur sem gengu þar í gleði dagsins í dag.Svörin voru svona:
Útilokað. Jesús sagði að Guð væri faðir.
Óþarfi. Guð er andi og hvorki í kvenkyni né karlkyni.
Áreiðanlega. Og sem betur fer.
Og ég tek undir svar 3, áreiðanlega og sem betur fer.
Hvað segir þú? Hugsum um það hvað við eigum að segja við því að Jesús kenndi okkur að biðja Faðir vor og talaði um Guð sem föður. Við eigum að segja að Jesús talaði líka um Guð sem konu. Það er ekkert víst að hún hafi verið móðir, en hún var kona sem bakar brauð og sópar gólf.
Og hvað eigum við að segja um svar tvö, að það sé óþarfi að tala um Guð í kvenkyni af því að það sé ekki hægt að tala um Guð í kvenkyni eða karlkyn? Við eigum að spyrja þau sem gáfu svarið hvers vegna þau tali þá alltaf um Guð í karlkyni? Og ef það skiptir engu máli, hvers vegna er þá verið að mótmæla því að tala um Guð í kvenkyni?
Jesús talaði um Guð í kvenkyni, og þess vegna er það ókristilegt og á móti boðskap Jesú að tala ekki um Guð í kvenkyni. Þegar Guð skapaði heiminn sagði hún að hún skapaði bæði konur og menn í sinni mynd. Og talaði ekkert um mismunandi völd eða verkaskiptingu. Svo kom syndafallið og varð að feðraveldinu. En svo kom Jesús. Hann sagði það sem engin manneskja hafði sagt áður. Hann sagði að bæði konur og menn ættu að vera eins og Guð hafi skapað þau, jöfn hvert öðru, yndisleg og falleg. Hann sagði svo ótrúlega […]