Líf þitt verður herfang þitt af því þú treystir mér sagði Guð. Jer. 39.18. Prédikun 16. maí 2010

Sagan sem við höfum heyrt í kvöld er úr sögu þjóðarinnar sem Guð kallaði til að varðveita orðið sitt. Hún endaði með því að þjóðin komst heim eftir hrunið og fékk aftur húsin sín heima í Gyðingalandi. Loksins gat fólkið gengið aftur um góðu göturnar sínar og sest niður og drukkið kaffi og smákökur og talað saman. Líklega þekkjum við allar þá undursamlegu tilfinningu að fá að koma aftur þangað sem okkur leið svo vel einhvern tíma áður.

Einn morguninn í vikunni buðum við Yrsa systir mín nokkrum konum í morgunkaffi. Við eigum enn húsakynnin í Þingholtsstræti þar sem Kvennakirkjan hóf námskeiðin sín og við buðum þeim þangað. Þær bjuggu í næstu götu þegar þær ólust upp og við töluðum saman um hverfið okkar. Þessi góða morgunstund gaf okkur sömu góðu tilfinninguna og samvera okkar hérna í kvöld og dag gefur okkur öllum. Það er svo gott að vera með góðum manneskjum. Ég vitna aftur og aftur til þess sem sálfræðingurinn góði, Karen Horney, sagði. Hún sagði að það væri mikil gjöf að fá að vinna með góðum manneskjum. Og bara það að fá að vera nálægt verulega góðum manneskjum.
Við ætlum að tala um það í kvöld hvernig við getum öðlast aftur trúna á þjóðfélagið. Við höfum núna í messunni farið yfir margvíslegar sorgir og hrun í þjóðfélagi þjóðarinnar sem Guð kallaði til að varðveita trúna. Við töluðum um Jeremía spámann sem bar þjóðinni skilaboð frá Guði og um Ebed Melek sem var útlendingur í Júda og hafði hugrekki til að fara til kóngsins til að bjarga Jeremía. Þá sagði Guð Jeremía að bera Ebed Melek þessi undursamlegu boð: Líf þitt verður herfang þitt af því að þú treystir mér.

Herfang er það sem við eignumst. Það […]

Föstum á hugarvíl. Prédikun 14. mars 2010

Nú er fastan. Hún er haldin níu vikur fyrir páskana til að gefa okkur tækifæri til að undirbúa okkur undir gleði páskanna. Föstutíminn hefur oft verið heldur dapurlegur í kirkjunni með þungri tónlist og banni á margt sem gerir okkur lífið þægilegt og skemmtilegt. Við erum ekki skyldug til að hafa föstuna svona dapurlega og við getum valið hvort við höldum hana eða ekki. Jesús talaði um föstuna sem var fastur siður í helgihaldi í Gyðingalandi. Fastan var mikil dygð og þegar fólk fastaði málaði það sig með ösku í framan svo hitt fólkið sæi hvað það lifði góðu trúarlífi. Jesús sagði að það skyldu þau alls ekki gera. Hann sagði alltaf að trúin væri ekki reglur heldur vinátta við sig. Ég er tréið, sagði hann. Þið eruð greinarnar. Þið iðkið trú ykkar með því að vera í mér, hafa trú ykkar í hjarta ykkar og vinna með mér. Fólkið hans sem var með honum daglega fastaði ekki. Þau voru harðlega gagnrýnd fyrir að bregða svona út af reglunum og Jesús sagði að þau gætu bara alls ekki fastað meðan þau ættu gleðina yfir því að hann væri hjá þeim. En seinna myndu þau fasta. Þegar þau þyrftu. Fastan var ekki sýning og ekki sjálfspynting. Hún var leið til að dýpka vináttuna við Guð sem frelsar og gleður og huggar og uppörvar og gefur máttinn til að gera það sem er gott og yndislegt. Og það er hægt að fasta á fleira en mat eða svefn eða skemmtanir þótt það sé líka hægt að sleppa einhverju af þessu um tíma ef okkur finnst það verða okkur til góðs.

Í kvöld ætlum við að tala um möguleika okkar til að fasta á hugarvíl. Við ætlum að stinga […]

17. ára með bílpróf. Prédikun 14. febrúar 2010

Yfirskrift messunnar er að nú fáum við bílpróf og við skrifuðum það í Fréttabréfið. Og svo spurðum við: Hvert keyrum við og hvaða orku keyrum við á og hvaða reglur mæta okkur í umferðinni? Það er við hæfi að koma með afmælisgjafir. Þær eru komnar og Ásdís vinkona okkar er búin að leggja þær fram á kirkjugólfið. Þær eru eins og lækur sem liðast um fullur af gjöfum. Eplum og appelsínum og appelsíni og malti.

Yfirskrift messunnar er að nú fáum við bílpróf og við skrifuðum það í Fréttabréfið. Og svo Þetta hefur allt sína hyldjúpu þýðingu. Appelsínið og maltið er sett í lækinn til að hjala við okkur um þá frábæru blöndu sem Guð gefur okkur til að nota í trú okkar í hversdeginum.

Líf okkar liðast um hversdagana, einn eftir annan. Bláa og rauða og gula og gráa og svarta. Og líka græna og alla vega blæbrigði af öllum þessum og enn fleiri litum. Það er þar, í öllum litum sem birtast, sem Guð gefur okkur trú okkar. Trúna á sig. Sem gefur okkur trúna á sjálfar okkur, annað fólk og lífið. Ég ætla að blanda gjöfunum, hella appelsíni og malti saman, til að spjalla um samtakamátt okkar og Guðs. Það er með því að taka boði hennar um vináttu hennar og vináttu okkar sem dagarnir verða góðir. Við megum blanda okkur í stórkostleg verk hennar, með því að þiggja það að hún blandi sér inn í okkar verk. Það er þess vegna sem við stofnuðum Kvennakirkjuna og höfum alið hana upp og elskað hana í 17 ár.

Kvennakirkjan hefur líka alið okkur upp og elskað okkur. Við segjum hver annarri og hvert öðru það aftur og aftur. Við komum með það sem býr okkur í […]

Jólamessa í Háteigskirkju 2009

Við erum komin til Betlehem. Við berumst með straumnum á götunum sem eru yfirfullar af gestum frá öllum landinu og höfum ekki hugmynd um að í einu húsi í borginni er Guð komin sjálf til að taka þátt í lífi okkar. Hún er smábarnið yndislega sem var lagt í jötuna og ekki nokkur manneskja veit af nema María og Jósef og hirðarnir frá Betlehemsvöllum og vitringarnir frá Austurlöndum.

Hvers vegna komu hún? Hún sem átti alla veröldina og hefði getað gert við hana hvað sem henni sýndist. Hún hefði einfaldlega getað fleygt henni þegar hún sá hvað hún var orðin ómöguleg og langt frá því sem hún var sköpuð til að vera. Svo hefði hún geta skapað allt upp á nýtt. Af því að hún gat allt og átti allt og réði öllu. Veistu hvers vegna hún kom? Veistu af hverju Guð kom og varð Jesús? Já, þú veist það og hefur alltaf vitað það. Alveg síðan þér var sagt það þegar þú varst lítið barn sjálf og hirðar og vitringar í ýmsum myndum fólksins í kringum þig gáfu þér gjafir og sögðu þér þann einfalda og yndislega sannleika að þú værir yndisleg manneskja. Þau vissu að þú varst stundum óþekktarormur en þau elskuðu þig samt, elskuðu þig innilega. Það var þess vegna sem Guð kom. Af því að allt fólkið hennar sem gerði svo ýmislegtsem það átti ekki að gera var samt yndislegt. Og hún elskaði það innilega og það hvarflaði ekki að henni að gera það að engu og búa til allt upp á nýtt. Það verður seinna. Það að hún búi allt til upp á nýtt. En þá verðum við öll með í því. Og hún gerir það ekki af því að hún […]

Gildin í Kvennspæjarastofu nr. 1. Préidkun 11. október 2009

Góða fólk. Takk fyrir samveruna í kvöld sem við höldum áfram með því að halda áfram að láta fara vel um okkur í þessum góðu sætum kirkjunnar. Ég ætla að segja okkur sögu. Eina langa sögu. Það er sagan af Madam Ramotswe í Kvenspæjarastofu númer eitt suður í Bostvana í Afríku og þeim gildum sem hún og hennar fólk höfðu í lífi sínu.

Madam Ramotswe er persóna í nokkrum leynilögrelgusögum eftir Alexander McCall Smith. Hann er lagaprófessor í Edinborg en fæddist í Afríku og það er ekki langt síðan sjónvarpið sýndi þátt um hann. Það er Helga Soffía Einarsdóttir sem hefur þýtt bækurnar á íslensku. Madam Ramotswe stofnaði Kvenspæjarastofu númer eitt fyrir arfinn frá pabba sínum, herra Obed Ramotswe sem fæddist árið 1930. Hann vann í demantsnámunum í Botswana en missti konu sína þegar Precious var lítil og ól hana upp með aðstoð ættingja í þorpinu Mochudi. Herra Obed Ramotswe, sem Precious kallaði pápa, féll frá þegar hún var orðin fullorðin kona. Þá hafði hann keypti nautgripi fyrir ævilaun sín og fyrir andvirði þeirra gat Madam Ramotswe keypt hús við Zebra Drive í Gaborone og líka komið á fót Kvenspæjarastofu númer eitt. Hún hafði þá verið í stuttu og vondu hjónabandi með glaumgosa og eignast barn þeirra sem dó við fæðingu. En hún trúlofaðist seinna og giftist herra J.L.B. Matekoni sem var bifvélavirki og eigandi Tlokweng spíttmótora og andstæða fyrri manns hennar í einu og öllu. Ef J.L.B. Matekoni sagði viðskiptavinum sínum að bíllinn þeirra yrði tilbúinn klukkan fimm á fimmtudegi var hann tilbúinn klukkan fimm á fimmtudegi. Og ef hann hafði nefnt verðið stóð það, þótt viðgerðin hefði verið meiri en hann hélt.

Madam Ramotswe var eini kvenspæjarinn í Botswana og það fóru brátt sögur af […]

Við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2009

Ég ætla að segja okkur tvær sögur. Það eru sögur sem ég er alltaf að segja aftur og aftur og aftur, og ég veit það. Ef þú værir að tala myndir þú líka segja þær . Af því að þær eru mestu sögur allra tíma og staða.
Fyrri sagan er um göngu Ísraelsfólksins yfir eyðimörkina fyrir rúmum þrjú þúsund árum, svona þrjú þúsund og þrjú hundruð árum. Hún er um fólkið sem Guð hafði kallað til að vera frjálst og boða öðrum þjóðum orð sitt. En nú var það orðið að þrælum í Egyptalandi. Þá hrópaði það til Guðs og hún heyrði hrópið. Hún brást strax við til að frelsa þau. Hún sendi Móse til að leiða þau gegnum Rauðahafið og gegnum eyðimörkina í fjörutíu ár og inn í landið sem hún gaf þeim. Fólkið möglað og Móse og Guð töluðu saman og loksins komst fólkið til fyrirheitna landsins. Þetta er hin mesta frelsunarsaga Gamla testamentisins. Hin sagan er framhald þessarar sögu í Nýja testamentinu. Hún er um það þegar allt fólk Guðs var orðið þrælar í sínum eigin hugsunum og þess vegna í sínu eigin lífi. Guð sá þetta allt. En hún sendi enga. Hún kom sjálf. Hún var Jesús. Og Jesús talaði og gerði kraftaverk og dó og reis upp frá dauðum í raunverulegum líkama og braut bönd dauðans og hélt áfram að vera í hjörtum þeirra sem tóku á móti honum. Hann frelsaði þau frá hugsunum sem bundu þau. Aftur og aftur á hverjum nýjum degi. Ég held að munurinn á fyrri sögunni og seinni sé sá að í fyrri sögunni talaði Guð við foringja sem talaði við fólkið. En í seinni sögunni talaði hún beint við hverja einustu manneskju. Jesús lagði hún […]

Brauð og rósir. Prédikun 18. apríl 2009

Nú höfum við séð og heyrt þennan sterka og litríka boðskap um konurnar sem urðu þess valdandi að ljóðið okkar góða Brauð og rósir var samið. Ég þakka Siggu vinkonu okkar og Öllu sem fann lagið og allri Kvennakirkjunni enn og aftur fyrir að færa mér þetta ljóð sem við eigum allar og syngjum svo oft.
Eigum við að reyna að setja okkur inn í það sem þær horfuðust í augu við? Ég skrifaði um það í bókinni Gleði Guðs hvernig því hefur verið lýst. Þær unnu langa vinnudaga og komu heim til að vinna sín eigin húsverk og annast börnin sín. Þær fengu lág laun og tóku áhættuna af að fara í verkfall og verkfallið stóð lengi. Iðnbyltingin varð þeim bæði til góðs og ills. Hún varð þeim til góðs af því að þær fengu vinnu sem var launuð og sumar gátu gert ýmsa góða hluti sem þær höfðu ekki geta áður. Hún varð þeim til ills af því að vinnan í verksmiðjunum var þrúgandi og heilsuspillandi og kom niður á börnunum þeirra. Sumar tóku börnin með sér í byrjun áður en það var bannað og þau og þær og aðrar konur minnast þess hver þau grétu í rykinu. Börnin minnast þess að þau voru vakin klukkan hálf sex alla virka daga og skilin eftir hjá ömmu þeirra eða eldri systur eða öðrum konum. Mamma þeirra kom heim um hádegið og gaf þeim að borða og fór svo aftur. Konur fundu leiðir til að bjarga sér og börnunum. Það voru sömu leiðirnar og við finnum núna. Við hjálpumst að, sumar gæta barna fyrir hinar, sumar elda svo að aðrar geta keypt mat til að hafa með heim, sumar þvo og strauja fyrir hinar. Þær hafa […]

Við komum Guð til þín og hlustum á þig svara. Prédikun 18. febrúar 2009

Við höfum ofið þessa messu inn í uppistöðu stefsins okkar: Við komum, Guð, til þín. Við höfum komið til hennar núna í messunni með áhyggjur, sorg og gleðina djúpu – og hlustað á hana svara. Við höfum heyrt svörin. Þau eru: Vertu hjá mér. Ég er alltaf hjá þér. Treystu því. Treystu mér. Treystu þér. Það er svo margt sem þú getur notið í lífinu. Gerðu það. Og notaðu kjark þinn og kraft til að gera það sem þú getur til að lifa lífinu í gleði og mætti. Og það er þá sem þú getur haft áhrif á fólkið í kringum þig.
Við höfum öll í landi okkar talað og talað og talað um kreppuna á undanförnum mánuðum og ekkert er skiljanlegra og eðlilegra, af því að kreppan hefur umturnað lífi okkar allra. Hún hefur gert sumt fólk févana ogsumt fólk atvinnulaust og sum okkar þurfa að gera hlé á námi sínu og gera eitthvað annað í bili en önnur fara til náms sem þau ætluðu sér ekki en gefur þeim nýja möguleika. Kreppan snertir okkur á mismunandi máta en hún hefur gert okkur öll að stórum spurningamerkjum. Við höfum heitið hver annarri hérna í Kvennakirkjunni að hjálpast að við að taka málið skynsamlegum tökum. Til að láta ekki hrekjast fyrir umræðu sem er löngu orðin eins og sífelldur þakleki í eyrum okkar. Til að finna hvar við stöndum og standa fastar í trú okkar, lifandi og sterkri Það er ekki á okkar færi að leysa efnahagsmálin en það er á okkar færi að styrkja sjálfar okkur og þau sem eru í kringum okkur. Ég held að við ættum að hugsa verulega rækilega um það. Við getum ekki ráðið bót á allri kreppunni en við getum […]

Jólamessa í Háteigskirkju 28. desember 2008

Gleðileg jól góða fólk. Guð blessar okkur. Ég vona að jólin hafi verið þér góð og þú hafir glaðst í trú þinni. Yfir jólaguðspjallinu sem barst okkur einu sinni enn með undursamlegan boðskap sinn. Einu sinni enn heyrum við jólaguðspjallið í kvöld og hugleiðum englasönginn á Betlehemsvöllum. Og ferð hirðanna inn í fjárhúsið þar sem þau sáu Jesúm. Guð var komin, frelsarinn var fæddur. Nú varð allt nýtt.

Ættum við að hugsa okkur að við stæðum hérna fyrir framan kirkjuna eða kannski úti á Klambratúni hérna rétt hjá eða uppi í Öskjuhlíð sem er líka svo nálægt? Allar saman í kvöldmyrkinu. Og þá heyrum við englana syngja. Fyrir okkur. Og bjóða okkur til að fara og sjá Jesúm. Og við förum niður í Þingholtsstræti þar sem við hittumst fyrr í Kvennakirkjunni. Það er svo einfalt að hugsa okkur að við göngum þar inn af götunni. Og þar eru þau, María og Jósef og þetta undursamlega litla barn. Eða gætirðu hugsað þér að það væri heima hjá þér? Að þú værir þar í grenndinni með öllu fólkinu þínu og allri stórfjölskyldunni og vinkonum og vinum. Og englarnir syngja og þið farið öll heim og þar er Jesús nýfæddur af því að þið gáfuð þeim Maríu og Jósef húsaskjól.
Það er svo gott að hafa leyfi til að flytja þennan mikla heimsviðburð inn í okkar eigið líf. Og njóta hans eins og allar aðrar manneskjur um alla veröldina fyrr og síðar mega gera og hafa gert, svo margar svo margar, og orðið öllum hinum til blessunar með trú sinni. Af því að viðburður jólaguðspjallsins hefur breytt allri veröldinni. Ekki höfðu hirðarnir hugmynd um það hvernig fagnaðarerindið sem þau heyrðu á völlunum og í fjárhúsinu átti eftir að fara um […]

Hún er vinkona mín – Prédikun 12. október 2008

Við ætlum að tala um vináttu Guðs í kvöld. Við ætlum að tala um Guð sem er vinkona okkar. Við tölum um þetta í hverri messu á einn og annan máta, um okkur og hana og okkur og hinar og annað fólk. Ég ætla að segja okkur sögur, eins og stundum, og þið skuluð láta fara vel um ykkur eins og alltaf þegar við hlustum á sögur.
Mér finnst það tilheyra á þessum tímum að segja sögur af ýmiskonar kreppum og kreppulausnum sem vinkona okkar Guð hefur tekið þátt í með fólki sínu fyrr og síðar. Hún tekur þátt í öllu með okkur og Biblían frá upphafi til enda er frásagan um það. Þess vegna fóru guðfræðingar á nítjándu og tuttugustu öldinni að tala um frelsunarsöguna í Biblíunni. Hún er sagan af hinum miklu og mörgu máttarverkum Guðs um alla sögu Gamla testamentisins sem heldur áfram í sögu Jesú og sögu kirkjunnar. Við lesum um kreppuna þegar Ísraelsfólkið var orðið að þrælum í Egyptalandi svona tæplega tvöþúsund árum fyrir Krist. Þau hrópuðu til Guðs og hún heyrði hróp þeirra og leysti þau úr kreppunni. Hún leiddi þau út úr þrældómnum inn í frelsið í landinu sem hún gaf þeim. Og sagan hélt áfram og þjóðin heimtaði konung eins og hinar þjóðirnar áttu. Og Guð gaf þeim konunga, Sál og svo Davíð og Salómon. Það var um þúsund árum fyrir Krist. Davíð sameinaði allar ættkvíslir Ísraels í eitt afar stórt konungdæmi og Salómon sonur hans sem var heimsfrægur fyrir gáfur sínar hóf konungdóm sinn með því að biðja Guð um leiðsögn. En hann endaði í gífurlegri kreppu og tómleika og svartsýni og eftir hann klofnaði ríkið í tvennt. Og sagan hélt áfram og um sjö hundruð árum […]

Fyrirgefningin – Prédikun 15. september 2008

Náð Guðs er með okkur. Og við höldum áfram að njóta nærveru hennar og næveru hinna sem komu líka í kvöld til að vera með henni og okkur. Þetta er fyrsta innandyra messa haustsins. Við héldum síðsumarmessu í Heiðmörk í ágúst og vorum tólf. Stóðum þétt í dynjandi rigningunni og sungum af öllu hjarta, og báðum fyrir öllum konum Kvennakirkjunnar hvar sem þær væru á þessari góðu síðdegisstundu. Við báðum fyrir Kvennakirkjunni okkar sem við elskum. Svo grilluðum við og sólin kom og stundin var yndisleg.
Okkur fannst við njóta sömu stemningarinnar og við hugsum að hafi ríkt í frumsöfnuðunum á fyrstu öldinni. Þegar litlir hópar hittust, sungu, báðu saman og borðuðu saman. Við njótum þessarar blessunar líka í kvöld. Við njótum alltaf þeirra sem gengu á undan okkur í trúnni sem við eigum líka. Við ætlum í kvöld að tala um fyrirgefninguna. Og heyra hvað fólkið í frumsöfnuðinum fékk að heyra um fyrirgefninguna. Það er alltaf það sama í gildi um hana þótt ýmislegt breytist í guðfræðinni í aldanna rás. Við tölum oft um fyrirgefninguna í Kvennakirkjunni og tölum um hana í kvöld í fyrstu innimessu haustsins af því að hún er grundvöllur lífs okkar. Hversdags okkar, sem er okkar sífellda viðfangsefni. Við segjum það aftur og aftur að fyrirgefning Guðs er undirstaða þess að okkur megi líða vel og að okkur auðnist að nota dagana til góðs. Hvernig er þetta með fyrirgefninguna? Við lesum í Biblíunni um Guð vinkonu okkar sem skapaði himin og jörð og fólkið sem hún elskaði. Við lesum um það að allt fór úr skorðum og ógurleg vond öfl gagntóku allan heiminn. Öll kristin kirkja játar að eftir þessa miklu ógæfu séum við ófær um að lifa lífinu eins og […]

Það smáa og það stóra – Prédikun í messu 20. apríl 2008

Veturinn er að verða búinn og næst þegar við hittumst í messu verður sumarið komið. Það er ætlunin að við hjálpuðumst að við það í kvöld að huga ögn að þessum vetri, eins og við lítum oft um öxl á tímamótum. Við ætlum í kvöld að huga að því stóra og smáa í dögunum, bæði í vetur og yfirleitt í lífi okkar. Hvað er það stóra í lífinu? Hvað finnst þér?
Ég get látið mér detta í hug að segja að það sé heilsa okkar, námið, vinnan, fjölskyldan, vinkonurnar og vinir. Ég held það bara. Og hvað gætum við nefnt sem hið smáa? Mér finnst það væru daglegir atburðir eins og máltíðirnar, samtölin, gönguferðir og afþreyingin og góður svefninn á nóttunni. Þegar við teljum þetta upp hvoru tveggja sjáum við hvað þetta er allt stór merkilegt. Hvað við eigum mikið af fjársjóðum í lífi okkar og hvað þeir gefa okkur mikla möguleika. Eða hvað finnst þér? Við ætlum að velta þessu fyrir okkur. Ég ætlaði að sjá hvort þér þætti nýtilegt að hugleiða hvort það væru stóru atriðin eða litlu atriðin sem skiptu meira máli. Af því að ég held að það skipti máli að við hugleiðum það. Af því að ég held að þær stundir komi einatt aftur og aftur að við sjáum ástæðu til að gæta að okkar eigin viðhorfi til lífsins. Og ég held að þær stundir komi í lífi okkar allra að okkur finnist stóru atburðirnir ekki nógu góðir eða smáatriðin heldur dýrðarlaus. Og þá verður það okkur gáta hvernig þetta vinnur saman. Er það skynsamlegt af okkur hinum að segja við þig ef þér finnst orðið leiðinlegt í vinnunni eða heldur að þú sért að missa vinnuna að þú skuli njóta […]

15. ára afmæli Kvennakirkjunnar – 17. febrúar 2008

Guð er hjá okkur með náð sína og blessun. Við finnum það. Við erum hver hjá annarri með vináttu okkar og njótum þess. Það er eins í hverri messu. Við komum til að hittast hjá Guði. Og í kvöld eigum við afmæli og óskum hver annarri til hamingju, með okkur sjálfar og alla Kvennakirkjuna.
Ég ætla að segja ykkur sögur. Það eru dagsannar sögur og fyrsta er um konuna með hattinn. Ég fór í hátíðlega samverustund þar sem konur og menn mættu prúðbúin og hógværleg og settust hljóðlega og biðu dagskrárinnar. Svo kom konan með hattinn. Hún var líka prúðbúin og hógvær og settist hljóðlega og beið, alveg eins og hin, nema bara það að hún skar sig alveg úr með því að vera með þennan hatt. Hann var eldrauður með litlum uppbrettum börðum og ljósrauðu bandi og rauðu blómi og grænu laufi. Sérðu hana fyrir þér? Og hvað finnst þér? Þetta er bara ekki gert. Fólk kemur bara á svona samkomur og er eins og hitt fólkið. Ég veit eiginlega ekki hvað hún var að hugsa. Var hún að vekja athygli á sér, eða fannst henni bara svona gaman að eiga þennan rauða hatt að hún varð að koma með hann þar sem ekkert annað fólk var með hatta? Ég segi okkur þessa sögu í afmælismessunni okkar af því að mér finnst við geta verið konan með rauða hattinn. Við komum fyrir fimmtán árumn prúðbúnar og hógværar inn til hinna í kirkjunni og tókum þátt í öllu eins og þau gerðu. Nema bara það að við vorum öðru vísi. Við höfðum messurnar í okkar stíl og svo fórum við að tala um Guð í kvenkyni og tala mál beggja kynja og leggja það þéttingsfast til […]

Jólamessa í Dómkirkjunni 2007

Náð Guðs er með okkur. Það er yndislegt að fá að hittast hérna í kvöld. Koma inn úr kuldanum inn í hlýja Dómkirkjuna og njóta jólaljósana í rökkrinu. Njóta nærveru hvert annars í nærveru Guðs, heyra jólaguðspjallið og tónlistina. Gleðileg jól. Ég ætla að segja ykkur þrjár jólasögur í kvöld.
Fyrsta jólasagan er svona: Fjóla og Finna voru litlar stelpur sem bjuggu hérna í grenndinni, uppi í Þingholtunum og gengu í Miðbæjarskólann. Þær voru alltaf saman, fóru í kellingaparís og kallaparís og stikk og sto og alla leikina sem krakkarnir fóru í. Svo leið tíminn og Finna fór til Ameríku en Fjóla bjó hér heima. Fjóla lenti í miklum erfiðleikum. Og Finna tók sér flugfar heim og kom til Fjólu til að bjóða henni alla þá hjálp og nærveru sem hún gat veitt henni. Og hún gat veitt henni mikið. Allar minningarnar og traustið og vináttuna frá góðu æskuárunum sem gátu huggað Fjólu og stappað í hana stálinu til að sýna henni hvað hún hafði verið dæmalaust flott stelpa og var það enn. Finna gat líka gefið henni ráð. Og hún gat gefið henni fjárráð, því Finna var rík og umsvifamikil og fræg í Ameríku. En Fjóla þáði ekkert af þessu. Hún tók Finnu kurteislega en afar fálega. Og þáði ekkert, hvorki fé né ráð né nærveru. Ég veit ekki meira um þessa sögu, veit ekki hvernig hún fór, hvernig það fór með Finnu og hvernig það fór með Fjólu. Finnst þér þetta furðuleg jólasaga? Gleðisnauð? Hversdagsleg og óhæfandi á jólunum? Ég myndi ekki hafa sagt þér hana í kvöld nema af því einu að hún stendur í jólaguðspjallinu. Samt ekki um Fjólu og Finnu heldur um Guð og allar manneskjur veraldarninnar. Þetta er ekki jólaguðspjallið […]

Dagur Orðsins í Gafarvogskirkju. Prédikun 11. nóvember 2007

Náð Guðs er með okkur og við finnum nálægð Guðs í nálægð hvert annars. Það er mikil vinátta sem þið góðu prestar og starfsfólk og safnaðarfólk Grafarvogskirkju sýnið mér í dag. Og þið sem tókuð til máls áðan. Og þið öll sem eruð komin. Ég þakka ykkur innilega og met það mikils. Við í Kvennakirkjunni höfum fundið vináttu safnaðarins hér í hvert skipti sem þið lánið okkur kirkjuna til að halda guðþjónustur og það vill svo fallega til að í haust, áður en við vissum af þessari guðþjónustu vorum við búnar að fá kirkjuna til að guðþjónustu í kvöld og við þökkum fyrir það eins og ævinlegar.
Við vitum öll af eigin hvað það er mikil uppörvun að eiga vináttu annarra. Hún gerir líf okkar svo traust og skemmtilegt. Við skulum öll láta vináttu hinna sem sitja hér í messunni með okkur umlykja okkur og ná inn í hjarta okkar. Það er þess vegna sem við erum komin og þess vegna sem kirkjan er til, til að kalla okkur saman til að hitta Guð og finna vináttu hennar og heiðurinn sem hún sýnir okkur. Og fara með þessar góðu tilfinningar heim með okkur og nota þær og njóta þeirra. Það er það sem Biblían segir okkur. Þegar ég fékk nýju rauðu flauelisklæddu Biblíuna í nýrri þýðingu ákvað ég að láta nú verða af því sem ég hef svo lengi hugsað mér. Það er að lesa hana eins og hún væri að gerast núna. Ég ætlaði að hugsa mér að Jesús byggi á Grettisgötu. En svo fannst mér betra að hugsa mér að hann byggi í Þingholtsstræti af því ég þekki Þingholtsstrætið meira. Og þegar ég var farin að lesa Markúsarguðspjall svona sá ég að ég gat […]

Hann er hún sem kom og frelsar okkur – líka frá streitunni. Prédikun 14. október 2007

Það er eitt það allra besta sem við eigum að fá að vera með fólki sem vitnar um trú sína.  Segir frá henni.  Segir hvernig það treystir Guði bæði í meðbyr og mótlæti.  Eða það finnst mér.  Af því að það gefur okkur hinum í kringum þau ró og styrk sem við þurfum að eiga í daglegu stússinu – hvað þá heldur í kvíðanum, sorginni og æsingnum. Og í gleðinni, fagnandi og yndislegri sem við skulum alltaf þakka Guði fyrir og njóta og njóta.

Þú veist hvernig það er,  dagarnir eru alla vega eins og við segjum hver við aðra aftur og aftur.  Og það er gott að segja það.  Af því að við viljum alltaf láta hver aðra og hvert annað vita að við vitum það öll að lífið er alla vega og að við biðjum hvert fyrir öðru.  Og að gleðin kemur alltaf aftur þótt stundum syrti svo verulega að það er eins og það verði ómögulegt að gleðjast aftur.

Á hverjum degi alla vikuna hef ég hitt fólk sem hefur sagt okkur í kringum sig frá nærveru Guðs í lífi þess.   Það er ólýsanlega gott.  Á mánudaginn hittumst við hjá sjálfum okkur á Laugaveginum á námskeiðinu um Galatabréfið og á mikvikudaginn hittumst við í bænastundinni í hádeginu. Og hina dagana hitti ég líka fólk sem sagði frá rótfastri og fagnandi kristinni trú sinni.  Ég ætla að draga allar þessar frásögur saman í eina sem er um hana Guðrúnu í Guðrúnarsöfnuðinum.

Guðrún var þjóðkirkjukona sem stofnaði sinn eigin hóp í þjóðkirkjunni, alveg eins og við gerum í Kvennakirkjunni.  Hún hafði samkomur í Hörgshlíðinni en þar áður í Hafnarfirði og bjó þar skammt frá með Salbjörgu vinkonu sinni í litlu timburhúsi.  Þær buðu mér einu sinni í […]

Söfnumst saman til að gleðjast. Prédikun 9. september 2007

Nú hittumst við aftur eftir sumarið og söfnumst saman til að gleðjast. Alltaf þegar við hittumst er það í voninni og vissunni um að við förum allar ögn glaðari heim. Af því að við vitum af reynslunni fyrr og síðar að það er svo miklu betra að vera glaðar en að vera ekki glaðar. Ég er búin að hlakka til í marga, marga daga, hlakka til að hitta ykkur og sjá ykkur og heyra. Og svo tökum við upp nestið og grillum. Og förum héðan með stóra sneið af gleðinni sem við finnum hérna hver meða annarri og hvert með öðru. Og notum hana í kvöld og á morgun og í öllum hinum dögunum sem bíða okkar.
Ég ætla að tala um þrennt í dag. Af því að lúterskir guðfræðingar hafa óskaplega tilhneigingu til að tala alltaf um eitthvað þrennt, eins og trúarjátningin um þrenninguna talar í þremur greinum. Og við erum allar lúterskir guðfræðingar og tökum á móti þrennum skilaboðum þegar þau bjóðast. Í fyrsta lagi ætla ég að tala um markmiðið. Við Sigrún Gunnarsdóttir erum nefnilega af gefnu tilefni að lesa saman ýmsar bækur. Við lesum bækur hvor annarrar og í hennar bókum les ég að öll meiri háttar fyrirtæki verði alltaf að hafa markmið. Þá fer ég að hugsa um okkur sem meiri háttar fyrirtæki, ég hugsa nefnilega alltaf um okkur þegar eitthvað gott ber á góma. Og ég fór að hugsa hvaða markmiði ég gæti stungið upp á í dag þegar við hittumst hérna í yndislegri Heiðmörkinni eins og við gerðum í fyrrasumar. Það hefur ýmislegt gerst síðan þá og við höfum notið sameiginlegrar gleði sem er svo gott að hugsa um. Svo datt mér markmiðið í hug. Mér datt þetta í […]

Allt er orðið nýtt. 70 ára afmæli sr. Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Prédikun 21. apríl 2007

Við völdum okkur þessa yfirskrift yfir messuna: Allt er orðið nýtt. Samt kem ég ekki til með að segja neitt nýtt í þessari messu. Ég segi alveg það sama og við segjum í hverri einustu messu og hverju einasta námskeiði sem við höldum saman í Kvennakirkjunni. Við höldum margskonar námskeið og sum þeirra heita: Vertu flott. Mundu að þú ert yndisleg manneskja og vinkona Guðs.
Og á þessum námskeiðum um það hvað við erum yndislegar og frábærar manneskjur förum við að draga það fram sem okkur finnst gera okkur óyndislegar og ófrábærar. Við sækjum dimmar hugsanir okkar inn í hjarta okkar og leggjum þær á borðið, stundum í vetrarmyrkrinu, stundum í vorbirtunni eða sumarsólinni. Við hellum öllu sem við viljum úr huga okkar og biðjum hinar að líta á það með okkur. Þú veist hvernig það er, þótt þú komir aldrei nokkurn tíma á námskeið Kvennakirkjunnar, því hvar sem við erum og hver sem við tölum við erum við öll að einhverju leyti alveg nákvæmlega eins. Ég var hérna í kirkjunni í síðustu viku með þeim sem fylgdu henni Guðbjörgu mömmu hennar Ingibjargar okkar Guðmundsdóttur síðasta spölinn. Við sungum um trú okkar og ég hugsa að við höfum öll fundið að það er svo ótal margt sem við eigum saman í lífinu og dauðanum og upprisunni. Svo gekk ég niður í bæ og fór í bankann. Og þar átti ég það líka sameiginlegt með þeim sem voru þar að standa og bíða eftir gjaldkeranum og fara svo aftur út í miðbæinn sem beið eftir okkur öllum. Ég gekk upp Amtmannsstíginn, fram hjá gamla KFUM og K húsinu og gegnum göturnar þar sem ég ólst upp. Og fann einu sinni enn, eins og á hverjum einasta degi, […]

Þegar Guð kom í fermingartíma. Prédikun 11. mars 2007

Þessi messa eins og allar aðrar messur eru hið gullna tækifæri til að endurnýja hugsanir okkar. Við komum með áhyggjur okkar og tölum um þær við Guð meðan við syngjum og biðjum og hlustum í nærveru hinna. Og við komum með gleði okkar og þökkum Guði fyrir hana. Þú veist það áreiðanlega af reynslunni hvað það er óendanlega gott að hugsa um það sem gengur vel hjá okkur, hugsa til þess sem við höfum bara gert svo ljómandi þokkalega, og til gleðinnar sem við höfum haft af því.
Og hugsa um fólkið sem hefur verið vænt við okkur og við höfum heldur glatt en hitt. Það er fátt eins gott og að fá að vera með verulega góðu fólki, þótt það sé ekki nema að fá að vera nálægt því, hvað þá að vinna með því eða búa með því, sagði hún Karen Horney sem var ein af þeim sem stofnuðu til nútíma sálgreiningar. Hvernig líður þér í kvöld? Naustu dagsins eða glímdirðu við eitthvað erfitt eða dauflegt? Það er sem oftast sitthvað af ýmsum sortum í dögunum. Eða hvað finnst þér? Ég held að það verði aldrei öðru vísi. Og ég held það sé betra að sjá það. Við glímum alltaf við eitthvað Ég segi enn og aftur eins og maðurinn frá Húsavík. Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað. Ég held að það skipti mestu hvað við hugsum um þetta allt. Það skiptir alltaf mestu hvað við hugsum. Hvernig við tökum lífinu. Hvernig við mætum mótlætinu sem sneiðir ekki hjá einu einasta af okkur, og hvernig við njótum lífsins þegar það er svo gott að vakna og byrja daginn, og þakka fyrir hann þegar næsta […]

Jólamessa 29. desember 2006

Við heyrðum jólaguðspjallið og hugleiðum það í kvöld, í öllum sálmunum og allri samveru okkar. Við sjáum fyrir okkur fjárhúsið í Betlehem þar sem Jesús liggur í jötunni í öruggu skjóli Maríu og Jósefs og þau eru öll umlukin friði Guðs. Við hugsum með okkur að þau séu óendanlega fegin því að hafa komist í húsaskjól áður en hann fæddist. En við vitum ekki hvað þau hugsuðu og hvernig þeim varð við þegar fjárhirðarnir komu allt í einu inn um dyrnar og sögðu frá því að englarnir hafi sungið fyrir þau úti á völlunum og sagt þeim að frelsarann væri nýfæddur og þau mættu fara að sjá hann.
Og svo komu vitringarnir líka. En það stendur að María hafi hlustað með athygli á það sem þau sögðu og geymt það í hjarta sínu. Svo það leið ekki á löngu þar til eftirvæntingin fór að búa í friðinum. Og það leið heldur ekki á löngu þangað til skelfingin gerðist. Heródes kóngur óttaðist þetta þetta nýfædda barn sem hann þekkti þó ekki frá öðrum börnum en lét drepa alla þá nýfæddu drengi sem sendiboðar hans náðu til. Þegar miklir og góðir atburðir gerast gerast líka skelfilegar atburðir, skrifaði enn af hinum góðu dönsku prestum sem ég les stundum hvernig útskýra Biblíuna. En Jesús var þá kominn til Egyptalands og kom ekki aftur fyrr en Heródes var dáinn. Og eftir það óx hann upp í visku og ást. Við getum hugsað okkur að við séum þátttakendur í þessu öllu, einfaldega af því að við erum það. Hver einasta manneskja allrar veraldarinnar á hlut í jólanóttinni og hver einasta manneskja á frelsarann sem fæddist. Við ætlum að tala um það í kvöld. Eins og við gerum í hverri messu. Hugsum […]

Myrkur og hlýja. Fyrri ræða 12. nóvember 2006

Við höfum löngu komið okkur saman um að hjálpa hver annarri til að horfast í augu við veruleikann í skugga hans og ljósi. Það er best svoleiðis. Að sjá að lífið er bæði bjart og dimmt, til skiptis í lífi okkar allra. Svo að við erum allar stundum glaðar og stundum eitthvað annað, hryggar eða hræddar eða niðurbrotnar eða eitthvað sem við vildum eiginlega ekki vera. En svona er nú lífið. Og það er betra að vita það. Til þess að það komi okkur ekki á óvart þegar skyggir og til þess að við vitum að það birtir alltaf aftur. Og til þess að við vitum að það er óhætt að taka á móti gleðinni án þess að óttast að hún hverfi strax. Við höfum sagt hver annarri söguna um konuna á Hringbrautinni. Hana sem stoppaði á græna ljósinu og sagði löggunni að það hefði verið af því að það var búið að vera grænt ljós svo lengi að það hlaut að vera alveg að verða búið.
Við heyrðum í því sem þær Ásdís og Inga sögðu að það er gott að eiga vináttu hver annarrar. Og það er þessi vinátta sem er aðal markmið okkar. Það er það að geta hist og fundið að við eigum hver hjá annarri uppörvun til að fara með þangað sem við förum þegar við förum hver í sína átt. Okkur langar svo til að vera bæði griðastaður og uppspretta dugnaðar og dómgreindar hver fyrir aðra. Við erum stundum spurðar hvers vegna við gerum ekki miklu meira til að auglýsa okkur og svörum því að það sé kannski vegna þess að við nennum ekki að auglýsa okkur en miklu frekar vegna þess að við þurfum allra helst að vera griðastaður […]

Við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2006

Til hamingju með hátíðisdaginn. Það er yndislegt að eiga afmæli og stórkostlegt að halda upp á það góða sem gerðist. En það er eitthvað athugavert við baráttuna. Eða það held ég. Hvað finnst þér? Ég held að það sé annað hvort það að við erum ekkert að berjast af því að við erum eitthvað svo þreyttar, eða við erum svo þreyttar af því að við erum ekkert að berjast.
Konurnar sem börðust fyrir kosningarétti okkar fyrir 90 árum börðust ógurlega. Og það var voða erfitt – en voða gaman. Og það var af því að það var svo gaman sem þær gátu barist. Og það var af því að þær sáu að þær urðu að berjast. Þær urðu að fá kosningarétt. Menn höfðu kosningarétt. Menn fengu að fara í skóla, menn fengu embætti. Ekki konur. Ekki Ólafía Jóhannsdóttir. Ekki Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ekki Stína og Bína og Bóthildur og Lína og allar hinar sem eru ekki taldar nokkurs staðar upp. Engin þeirra fékk að fara í skóla. Ekki ein einasta. Engin þeirra fékk að kjósa, engin þeirra. Þess vegna börðust þær. Hvað sjáum við núna? Við sjáum að við förum í skóla, við fáum stjórnunarstöður, við kjósum og erum kosnar á þing og til embætta. Og þá gerist það sem er sagt frá í Biblíunni að geti gerst þegar við fáum það sem við vildum og hættum að berjast. Og hvað er það? Það er það að við missum ástina á lífinu sem við áttum þegar við sáum að við urðum að berjast. Það var ástin til Guðs, ástin sem hún gaf okkur til að teygja okkur eftir lífinu sem hún sagði okkur að við ættum skilið. Hvað sjáum við núna? Hvað segjum við núna? Við segjum: […]

Gunna, Gunna safnaður sjálfri þér saman. Prédikun í mars 2006

Þegar ég var í Verslunarskólanum las ég dönsku blöðin. Þau voru skruggugóð. Mér fannst Söndags BT best. Og líka fallegast. Einu sinni var skrifað í einni greininni sem birtist innan í ramma um konu sem kom til læknisins síns til að tala um sjálfa sig. Góða, sagði læknirinn, taktu þig nú saman. Og konan trylltist. Og eyðilagði eitt og annað hjá læknininum, kannski stóla og borð, kannski bara blómavasa, ég man það ekki. En niðurstaða greinarinnar var sú að hún kom einmitt af því að hún gat ekki tekið sig saman. Og það var einmitt það sem átti ekki að segja við hana að hún gæti tekið sig saman.
Það eru fimmtíu ár síðan ég las þessa grein. Ég hugsa að ég hugsi ekki um hana á hverju ári síðan, en ég hugsa samt oft til hennar. Af því að ég skildi aldrei hvað var verið að segja. Og ég skil það ekki enn. En kannski skil ég það seinna í kvöld, þegar ég er búin að spjalla um þetta við ykkur. Mér finnst ég skilja að hún var búin að fá nóg af einhverju sem hún réði ekki við og var komin til læknisins í von um að hann hjálpaði henni. Og ég hugsa mér ein og önnur skiptin sem ég stóð nálægt þessum sporum sem hún stóð í. Og það er ekkert gaman að rifja þau upp. Það var þegar ég sagði við dætur mínar NEMA HVAÐ þegar þær litlar og góðar helltu mjólkinni yfir allt kvöldmatarborðið og ég þreytt af erli dagsins megnaði ekki að segja neitt annað. Það var þegar ég gekk þrisvar kringum Tjörnina til að reyna að finna út hvað ég ætti að hugsa um ein og önnur mál í […]

Guð er vinkona okkar

Við skulum þakka hver annarri og hvert öðru fyrir að koma í messuna okkar í kvöld.
Þú heldur þessa messu með þeim sem sitja við hliðina á þér og fyrir framan þig og aftan þig. Það skiptir öllu máli í kvöld eins og alltaf að þú komst því þessi guðþjónusta væri ekki eins ef þú hefðir ekki komið.
Þessi messa eins og allar aðrar messur eru hið gullna tækifæri til að endurnýja hugsanir okkar. Við komum með áhyggjur okkar og tölum um þær við Guð meðan við syngjum og biðjum og hlustum í nærveru hinna. Og við komum með gleði okkar og þökkum Guði fyrir hana. Þú veist það áreiðanlega af reynslunni hvað það er óendanlega gott að hugsa um það sem gengur vel hjá okkur, hugsa til þess sem við höfum bara gert svo ljómandi þokkalega, og til gleðinnar sem við höfum haft af því. Og hugsa um fólkið sem hefur verið vænt við okkur og við höfum heldur glatt en hitt. Það er fátt eins gott og að fá að vera með verulega góðu fólki, þótt það sé ekki nema að fá að vera nálægt því, hvað þá að vinna með því eða búa með því, sagði hún Karen Horney sem var ein af þeim sem stofnuðu til nútíma sálgreiningar.

Hvernig líður þér í kvöld? Naustu dagsins eða glímdirðu við eitthvað
erfitt eða dauflegt? Það er sem oftast sitthvað af ýmsum sortum í
dögunum. Eða hvað finnst þér? Ég held að það verði aldrei öðru vísi. Og ég held það sé betra að sjá það. Við glímum alltaf við eitthvað Ég segi enn og aftur eins og maðurinn frá Húsavík. Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað.

Ég held að […]

Messa í Seltjarnarneskirkju 27. febrúar 2005

Við höldum áfram að óska hver annarri til hamingju með afmælið. Kvennakirkjan er tólf ára og þess vegna lásum við textann um það þegar Jesús var tólf ára í musterinu. Hann sagði foreldrum sínum að hann ætti að vera í húsi Guðs, og orðin geymdu það í sér að hans biði sérstakt hlutverk sem biði hans eins. Við eigum líka að vera í húsi Guðs.
Við höfum líka sérstakt hlutverk. En það er ekki einstakt fyrir okkur aleinar, eins og það var einstakt fyrir hann að verða frelsari heimsins, hann einn, hann sem var Guð sem kom. Við eigum hlutverk okkar með allri kirkjunni sem Jesús stofnaði og hefur annast alltaf síðan, hughreyst og leiðrétt og hvatt til að standa vörð um sannleikann, frelsið og gleðina. En við eigum það samt sérstaklega með öllum hópum kirkjunnar, fyrr og síðar, sem hafa staðið vörð um frelsi og gleði kvenna bæði hversdags og spari, eins og Jesús talaði um og breytti allri stöðu okkar. Jesús stofnaði kvennakirkjuna og alla kvennahreyfinguna. Og við sem skrifum og lifum kvennaguðfræði höfum það sérstaka hlutverk, mitt í margvíslegum viðfangsefnum og misjöfnum frá einni okkar til annarrar.

Við skulum rifja það upp á tólf ára afmælinu hvaða hlutverk Kvennakirkjan okkar hefur. Hvað finnst þér?

Nú ætla ég að segja hvað mér finnst. Og biðja þig að hugleiða hvort þú ert mér sammála. Því það skiptir svo miklu. Það skiptir alltaf svo miklu að við tölum saman og uppörvun hver aðra til að móta stefnur, finna leiðir og njóta göngunnar. Við höfum gert það í tólf ár. Þess vegna höfum við gert allt sem við höfum gert í gleði og friði Guðs.

Ég tel að við getum orðað hlutverk okkar með þremur setningum.

Í fyrsta lagi urðum við […]

Messa við Þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2004

Til hamingju með daginn og til hamingju með sextíu ára afmæli lýðveldisins í fyrradag. Og næsta ár verður nítíu ára afmæli kosningaréttar kvenna og þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins.

Lýðveldið og kvennabaráttan hefur gefið okkur nýtt líf og við höfum notið þess. Við höfum öll eignast miklu stærra svið til að lifa á.Það fer alltaf svo að það sem er mikið notað kuðlast ögn og krumpast í hnjaski daganna. Eins og dúkarnir sem brúkast og þvost og upplitast í sólinni á snúrunum og undir heitum straujárnunum. Þeir fölna með tímanum.

En þá gerum við alltaf eitthvað. Við kaupum til að byrja með nýjar og glaðlegar servéttur til að hressa upp á gamla dúkinn sem er alls ekki slitinn og alltaf fallegur þótt hann sé farinn að fölna. Við hugsum nýjar hugsanir. Við höfum hugsað margar nýjar hugsanir í kvennabaráttunni núna. Kvennahreyfingin hefur sent yfirvöldum mótmæli gegn mansali og vændi og nektardansstöðum. Það er vont að kynlífsþrælkun skuli flæða um heiminn. En það er gott að það skuli vera talað um það og það er gott að yfirvöld skuli hlusta og aðgæta og sjá og framkvæma.

Það er svona í ýmsum fleiri málum. Það er ýmislegt vont og gott í einu. Konur hafa komist langar leiðir í menntun og störfum og það er gott. Samt búum við enn undir glerþökum og undir þykkum múrveggjum og njótum ekki réttinda og möguleika. Það er gott að við skulum sjá að við þurfum að berjast. Það er vont að við skulum samt oft blunda og blekkjast og sjá ekki að við þurfum að berjast.

Og það er þess vegna, eða það held ég, sem við vitum ekki alveg núna hvað við þurfum að gera í kvennabaráttunni og hvernig við eigum að gera það. Við […]

Messa í Kópavogskirkju 16. maí 2004

Við skulum hafa örlitla hugleiðingu áður en við göngum út í vorkvöldið og förum saman, allar sem getum og höfum tímann til, í kaffið hjá Ásdísi og Olgu og Steinunni niðri á Urðarhól.

Við höfum gefið hver annarri ró og frið í umhugsun um möguleika léttleikans í fyrirgefningunni og vissunni um vænu skrefin sem Guð hjálpar okkur að ganga. Á morgun þegar við göngum út í fyrsta vinnudag vikunnar, hvaða vinnu sem við höfum, launaða eða ólaunaða, göngum við í vissu Guðs.

Guð frelsar mig frá volæðinu og gefur skrefum mínum festu. Hún leiðir mig út á víðlendið. Það er skrifað um þetta í 23. Sálminum:

Þú leiðir mig út á grænar grundir
þar sem ég má hvílast við friðsæl vötnin.
Þegar ýmislegt gerist sem gæti vakið mér volæði
óttast ég samt ekki,
því þú ert hjá mér.
Þú gefur vellíðan og vissum um sjálfa mig
og þá undursamlegu gjöf að óttast ekki fólk.

Á morgun verða þessar grænu grundir og friðsælu vötnin það líf sem við vöknum til. Hvert ferð þú í fyrramálið? Hlakkarðu til – eða finnst þér það hversdagslegt – eða finnst þér það kvíðvænlegt?

Okkur langar svo til að uppörva þig. Eins og þú uppörvar okkur. Svo að þér finnist það bara heldur gott að vakna til þess lífs sem þú vaknar yfirleitt til. Það er ekki alltaf alveg eins, en það er oftast eins. Við förum í vinnuna úti í bæ, eða í vinnuna heima hjá okkur. Við hittum fólk, margt eða fátt, fyrr eða síðar í hverjum degi. Og það er alla vega, og við komum því alla vega fyrir sjónir og eigum misjafnlega auðvelt með að umgangast það eins og það á misjafnlega auðvelt með að umgangast okkur.

Þetta er allt innifalið í vissunni um vænu skrefin. Volæðið sem grípur […]

Að verða til, vera og vaxa. Prédikun í Laugarneskirkju 15. febrúar 2004

Það var á fimmtudaginn og klukkan hálf fimm og veðrið aftur orðið svo gott og vorlegt eftir bitra kuldann og hálkuna. Við reynum alltaf að hlaupa saman nokkrar frá Kvennagarði niður á Pósthús einu sinni á dag, til að hreyfa okkur og sjá fólk á Laugaveginum, og reka erindi okkar, og stundum förum við í banka og búðir og bakarí í leiðinni.
Á fimmtudaginn hlupum við Elísabet og efst í Bankastrætinu mættum við Siggu Victors sem lengi var í kórnum en á fimmtudaginn í eldrauðri kápu og jafn flott og alltaf. Ég ætla að fara að koma, sagði Sigga, það er bara eitthvað svo mikið um að vera með barnabörnin mín í bili, en það er alltaf svo gott að koma. Og svo hélt hún áfram upp Laugaveginn og við náðum í Pósthúsið af því það var ennþá opið þótt klukkan væri orðin hálf fimm. Og konurnar hlógu og við töluðum um góða veðrið og kuldann sem hefði verið vondur og vorið sem væri aftur komið á gangstéttarnar. Svo fórum við aftur upp í Kvennagarð og fengum okkur örlítið kaffitár sem hinar voru búnar að hella á könnuna. Og svo varð klukkan hálf sex og síðasti tíminn í námskeiðinu um líðan þeirra sem eiga langveika ættingja byrjaði. Það stóð þangað til við sem héldum þetta námskeið saman fórum í einkabílum og strætóum heim til okkar til að hafa kvöldmat og fara út eða slá okkur til rólegheita á eftir.

Manstu hvað þú varst að gera á fimmtudaginn? Þú hefur líka verið eitthvað að hlaupa og stússa og hitta fólk og fara heim og hafa kvöldmat og hver veit hvað? Svona líða dagarnir einn eftir annan og það er eins og við séum að skrifa bók um sjálfar […]

Messa í Hallgrímskirkju 11. janúar 2004

Hófleg vitleysa hversdagsins
Þetta var fyrsta messa ársins og yfirskriftin var eitt af V orðunum sem við höfðum valið sem yfirskrist nýja ársins. Við fluttum messunar í kaffisalnum en ekki inni í kirkjunni. Kaffilsalurinn er hluti af kirkjunni og hann gefur okkur tækifæri til að sitja þéttar í hópnum. Messan byggðist, eins og allar messur, á sameiningu í söngnum og orðunum, en núna líka á inngripum í ræðuna, bæði með orðum og atburðum. Atburðirnir voru að við komum inn með kassa og dökkgrænu leiktjöldin okkar, sem eru nokkrir metrar af grænu efni, og með grímur. Þær sem töluðu sátu með hinum í hópnum og töluðu þaðan.

Textarnir voru um léttleika hversdaganna eða hina hóflegu vitleysu hversdagsins, eins og yfirskriftin fjallar um og tvær okkar lásu þá með þessum orðum:

Jesús gerði svo margt sem var allt öðru vísi en fólkið hans þekkti. Hann gerði til dæmis konur að samstarfskonum og leiðtogum sem aðrir menn létu sér ekki detta í hug. Hann eldaði morgunmat á ströndinni fyrir vinafólkið sitt og sagði því að gera allt mögulegt sem það hafði ekki órað fyrir en gerði lífið miklu skemmtilegra. Og svo var hann alltaf í boðum.

Og svo sagði hann: Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfri sér og taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun bjarga því.

Þetta þýðir meðal annars að við skulum ekki fela okkur bak við uppgerð. Við skulum hafa okkar eigið andlit á hverjum degi. Við skulum fylgja Jesú eins og við erum og feta í fótspor hans. Og við munum sjá að við lærum að gera allt mögulegt eins og hann gerði það. Hann kemmir okkur að fara […]

Messa í Neskirkju 26. október 2003

Ávarp: Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Feministafélags Íslands

Predikun: Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Yndislegt að sjá ykkur í þessari sameiginlegu messu Kvennakirkjunnar og Femínistafélags Íslands. Látum nú fara vel um okkur því ég ætla að segja okkur sögur.

Fyrsta sagan er um Gunnu og Sunnu. Sunna er menntuð og reynd í skrifstofuvinnu og bankastörfum. Hún hefur góða vinnu og gleðst og fagnar, en hún man það enn þegar henni var sagt upp. Það eru tuttugu ár síðan og henni var sagt að það hefði ekkert með hana að gera, það væri bara verið að hagræða. Og þegar Sunna var ögn farin að ná sér fór hún að sækja um önnur störf, sem hún fékk aldrei. Og þótt hún reyndi að hugsa með sér að það hefði ekkert með hana að gera fór hana að gruna að það væri það nú samt. Það varð erfiðara og erfiðara að opna blöðin til að fara yfir auglýsingarnar, hringja í ráðningarstofuna og fara í þau örfáu viðtöl sem buðust. Og Sunna sá að bráðum myndi hún gefast upp. En þá fékk hún vinnu. Hún hefur tvisvar skipt um vinnu síðan og henni líður vel. En hún geymir inni í sér minninguna um þetta allt, og ætlar aldrei að gleyma henni.

Gunna er prestur í þjóðkirkjunni og hefur oft og tíðum sótt um ýmis embætti eins og er gert í kirkjunni. Því er hætt núna að láta þau sem sækja um prestembætti vinna í margar vikur við að heimsækja fólk fyrir kosningar í von um að persónulegur ljómi þeirra verði að atkvæðum á kjördegi. Nú ganga umsækjendur fyrir nefndir og bíða svo úrslita. Það er ekki lengur persónulegur ljómi sem veldur úrslitum heldur ríkja reglur til að vernda umsækjendur og kirkjuna fyrir áföllum. En Gunna naut […]