Nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk. Prédikun í Garðakirkju 17. maí 2015

Við ætlum að tala um nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk.  Það er einfaldlega af því að við  tökum alltaf með okkur nesti úr öllum messum .  Ég var í Strassborg og fór í fínu kirkjubókabúðina og kom með þrjár bækur úr því nesti hingað í kvöld.  Sjáum nú til hvort við viljum eitthvað af því til að fara með heim.

Þessi bók heitir  Guð er ekki eins og þú hélst.  Það er mikið skrifað um það í guðfræði núna.  En ég held bara ekki að við setjum þetta í nestið.  Af því að ég held að Guð sé alveg eins og við héldum.  Við erum löngu búnar að sjá að Guð er vinkona okkar.  Við höldum ekkert um það.  Við höfum vitað það lengi.  Og það er alveg stórkostlegt.  Svo við setjum ekki þessa bók í nestið.

Þessi þykir mér svakaleg brandarabók og þess vegna gæti hún verið í nestinu.  Hún heitir Hvað ef Jesús er nú ekki Guð?  Ég hélt að höfundurinn yrði alveg dolfallinn yfir svoleiðis hugsunum en hann er það ekki.  Hann segir í fullri alvöru að Jesús sé alls ekki Guð.  Hann skrifar samtal milli sín og Jesú.  Heyrðu Jesú, þú ert sonur  Guðs er það ekki?  Og Jesús svarar:  Neineinei,  láttu þér ekki detta það í hug.  En þú gerðir kraftaverk?  Ekki eitt einasta.  En hvað um fiskinn og brauðið uppi í óbyggðinni?  Ekkert kraftaverk.  Fólkið var með nógan mat og ég bað það bara að gefa þeim sem höfðu ekkert.  En hvað með  lamaða fólkið sem þú læknaðir.  Ég læknaði það ekki.  Ég sá bara að þetta var fólk sem hafði engan viljastyrk og ég gaf því trú á sjálft sig svo að það gæti staðið upprétt gagnvart öðru […]

Gleðin í hversdeginum – Prédikun Auðar Eir í Friðrikskapellu 12. apríl 2015

Gleðin í hversdeginum

Við ætlum að tala um gleðina í hversdeginum.  Alveg eins og við gerum alltaf í hverri messu, bara frá ýmsum sjónarmiðum.  Einfaldlega af því að mest af lífi okkar er hversdagslegt og venjulegt.  Stundum verða stórviðburðir sem eru svo skemmtilegir.  Stundum verða atburðir sem eru svo erfiðir að okkur finnst allt snúast við og við vitum ekki hvernig við eigum að mæta þeim.  En líka það er hluti af venjulegu lífi okkar.  Það verður alltaf eitthvað óvænt sem gerist bæði gott og erfitt.  Ég held að einmitt þess vegna sé svo gott að eiga venjulegu dagana.  Það sem við gerum þá hjálpar okkur til að mæta því sem er erfitt og það sem er gott og óvenjulegt ljómar um hversdagana.  Eða hvað finnst þér?

Ég skrifaði í Fréttabréfið okkar um gömlu frönsku hjónin sem sátu úti á gangstéttinni fyrir framan húsið sitt í litlu þorpi í Elsass.  Þau höfðu tekið stólana sína út og lítið borð og sátu í síðdegissólinni og dreyptu á rauðvíni og horfðu á umferðina.  Það var skrifað um þau í kirkjublaðinu.  Komdu og sestu hérna hjá mér, sagði maðurinn við konuna sína, þú átt það alveg skilið.  Ljómandi boðskapur.  Við eigum líka alveg skilið að tylla okkur og horfa á lífið í kringum okkur til uppörvunar og skemmtunar.  Við eigum það skilið á hverjum einasta degi.  Og við skulum taka tilboðinu.

Það þarf oft svo lítið til að gleðja okkur.  Bara smáatriði, kaffibollann, símtal, tiltekt, eitthvað sem við komum í verk, í vinnunni eða heima.  Eitthvað sem við finnum að við getum glatt okkur yfir, frá fyrri tíma eða vikunni sem leið eða deginum í gær eða dag.  Það er svo margt að gleðjast yfir.  Gáum að því og njótum þess.

Textinn […]

Prédikun í Langholtskirkju 18. janúar 2015

Í fyrsta kafla Markúsarguðspjalls er sagt frá skírn Jesú í ánni Jórdan, og rödd Guðs hljómaði:  Þetta er maðurinn sem ég hef útvalið.

Verum þar sem er talað um Orðið – verum í okkar eigin Kvennakirkju

Gleðilegt ár góðu vinkonur og Guð geymir okkur á þessu ári sem öðrum.  Ég ætla bara að byrja á að segja okkur eina sögu.  Hún er svona:

Það voru amerísk hjón á ferð í Jerúsalem og konan varð bráðkvödd.  Yfirvöldin buðu manninum grafreit í borginni.  Það kostaði bara hundrað dollara.  En þúsund að flytja hana heim.  Nei, sagði maðurinn, ég ætla samt að flytja hana heim.  En af hverju? Það er svo dýrt og hér er heilög jörð, sögðu yfirvöldin.  Og maðurinn sagði:   Ég flyt hana samt heim.  Af því að ég hef heyrt að maður sem var  jarðaður hérna fyrir tvö þúsund árum hafi lifnað við aftur.

Nú máttu rétt spyrja hvaða erindi þessi saga eigi inn í þessa fyrstu predikun ársins sem er við hæfi að hafa ögn settlega.  Og það skal ég segja þér.  Hún á það aleina erindi að eiga ekkert erindi og vera alveg ópassandi og út í bláinn.  Það var nefnilega rétt fyrir jólin að ein af okkur sagði við mig þegar ég var að segja eitthvað í samtali sem við áttum nokkrar, hún sagði sisona:  Ég skil ekki hvaða húmor þetta á inn í samtalið.  Ég sá að þetta var alveg rétt hjá henni og ákvað á staðnum að steinhætta að koma inn með svona innslög sem eru út í bláinn.  Ég ákvað líka daginn eftir að hætta að leggja frá mér ýmsa hluti  hér og hvar og eiga svo í bagsi við að finna þá aftur.

Og þetta á það erindi í predikunina að spyrja þig […]

Prédikun í aðventumessu í Dómkirkjunni 7. desember 2014

Aðventumessa í Dómkirkjunni 7. desember 2014 – Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

Til hamingju með jólin.  Þetta er jólakveðja sem einn af ungum áhangendum Kvennakirkjunnar sendi á jólakortunum sínum.

Ég skila henni áfram.  Innilega til hamingju með jólin.  Það er stórkostlegt að eiga þau.  Þau eru til að halda það enn hátíðlegar enn aðra daga að Guð er komin og orðin ein af okkur – hún er Jesús, vinur okkar og frelsari.  Ekkert smá eins og sagt er.

Þetta er nú samt stórlega dregið í efa eins og við vitum allar.   Og ég fyrir mitt leyti hef velt því fyrir mér hvort Guð hefði ekki átt að velja aðra leið til að koma okkur til hjálpar.  Ef hún hefði spurt mig hefði ég sagt að hún skyldi ekkert vera að þessu.  Fólk ætti svo erfitt með að skilja það.  Það skautaði fram hjá því og talaði bara um hana sem eitthvað annað en Jesúm, svona eins Almættið eða Alla eða Búdda eða bara kærleikann ef ekki æðri mátt sem við skyldum endilega kalla hvað sem okkur sýndist.  Ég hefði sagt henni í fullri hreinskilni að fólk vildi ekki binda sig við eitthvað svona þröngt eins og bara Jesúm, það vildi hafa þetta víðara.

Ef hefði orðið úr þessu samtali okkar Guðs tel ég fullvíst að hún hefði sagt að hún hefði aldrei nokkurn tíma hugsað sér að velja aðra leið.  Og nú skyldi ég taka hennar ráðagerðir fram yfir mínar og treysta sér betur en mér.  Treysta því að hún væri víðsýnni en fólkið sem ég talaði um.   Og þá hefði ég sagt:  Já, takk, ég ætla bara að gera það.  Hvað hefðir þú sagt?  Ábyggilega það sama.

Hugsum nú um þetta – af því að þetta er áreiðanlega satt:  Líf allrar […]

Frelsið sem við fáum í fyrirgefningunni. Prédikun í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 19. október 2014

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 19. október 2014
Í predikuninni í dag ætlum við að tala um fyrirgefningu og frelsi. Þess vegna skulum við heyra um þessi vers úr Matteusarguðspjalli og Jóhannesarguðspjalli
Jesús sagði aftur og aftur : Syndir þínar eru fyrirgefnar. Hann sagði það við fólk sem hann hitti á förnum vegi og barðist við vanda sinn og hann sagði það við sinn eigin hóp sem fylgdi honum. Heyrðu nú, sagði þá fólk í kring, hvað heldur hann að hann sé. Heldur hann að hann sé Guð, Það er bara Guð sem getur fyrirgefið syndir.
Og Jesús sagði: Já, ég er nefnilega Guð og þess vegna hef ég vald til að fyrirgefa syndir,.
Hann sagði: Ég er kominn til að leita að hinum týndu og frelsa þau.
Og hann sagði: Ef ég geri ykkur frjáls þá verðið þið frjáls.
Þess vegna skrifaði Páll í Galatabréfinu: Jesús frelsaði okkur til að gera okkur frjáls.
Þess vegna skulum við standa við það og láta ekki aftur eins og við eigum að bera ok og ánauð.
Amen
Takk fyrir  góði Fríkirkjusöfnuður að halda þessa guðþjónustu með okkur i Kvennakirkjunni.  Það er alltaf jafn gott að vera með ykkur.  Og takk fyrir, séra Einar, fyrir góðu orðin þín í upphafi um samstarfið við Kvennakirkjuna og 40 ára vígsluafmæli mitt.  Við sem héldum afmælið saman erum svo glaðar að okkur finnst að fólk ætti að halda afmæli við og við til að rifja upp gleði áranna og tala um hin góðu verkefni sem bíða okkar.

Við getum litið á hverja einustu guðþjónustu og allar samverustundir safnaða okkar sem afmælishátíð.  Það er ólýsanleg hamingja að vera í hópi sem hittist hjá Guði og talar um hana og við hana og hlustar á hana og syngur með henni.  […]

Prédikun í Messu í Laugardalnum 19. júní – Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Nú eigum við afmæli, sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Lýðveldi er að eiga valdið saman og valda valdinu. Það er stórkostlegt að búa í lýðveldi þótt við vitum og sjáum svo mætavel að ekki auðnast okkur alltaf að ráða við valdið.
Hvers vegna heldur þú að það sé? ÉG held að það sé af því að við ráðum ekki alltaf við sjálf okkur.
Það ganga margskonur sögur um spillinguna í lýðveldinu og okkur grunar oft að það sé bara eðlilega að ekki nokkur manneskja geti ráðið við sjálfa sig í svona þjóðfélagi. En þetta er auðvitað mesta vitleysa. Tign, frelsi og fögnuður lýðveldisins gnæfir himinhátt yfir alla vitleysu.
Það er samt margskonar vitleysa í gangi og ég ætla að nefna þetta: Það er samkeppnin, samanburðurinn og eineltið. Ég þarf ekki að tala meira um það því við þekkjum þetta öll. Og við þekkjum sektarkenndina sem ofsækir okkur af því að þetta skuli vera svona án þess að við ráðum við það. Og við þekkjum kvíðann sem sest að okkur af því að við munum ekki ná tökum á þessu – þessu og ýmsu öðru sem ætti ekki að viðgangast í lýðveldinu.
Það var sagt í lok síðustu aldar að þessi öld yrði öld kvíðans. Og hún er öld kvíðans. Hérna, í okkar eigin frjálsa og góða lýðveldi, er svo mikið af kvíða að því verður ekki með orðum lýst. Úr því að kvíðinn er svona víða og svona umfangsmikill og djúpur – og af því að hann er meira að segja yfirþyrmandi hjá börnum, þá hljótum við að vera að gera eitthvað vitlaust í lýðveldinu. Hvað heldur þú?
Ég nefni aftur það sem ég sagði áðan: Eineltið, samanburðinn og samkeppnina. Hvað nefnir þú?
Og ef við gætum minnkað það sem við sjáum […]

Feginleiki léttisins – Prédikun í Garðakirkju 18. maí 2014

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Garðakirkju 18. maí 2014
Komið til mín öll sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld. Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér, því ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þið finna sálum ykkar hvíld. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt. 11. 28-30
Í kvöld ætlum við að tala um feginleika léttisins. Það er gott umræðuefni í vorinu þegar brúnin léttist á veðrinu og sjálfum okkur og öllu í kringum okkur. Hvað er feginleiki léttisins? Það er það þegar við verðum svo fegnar yfir því að sleppa undan einhverju sem hefur íþyngt okkur. Þú veist hvernig það er, af því að þú hefur áreiðanlega fundið það margsinnis í venjulegum og sérstökum dögunum. Þegar þú slappst. Þegar hugur þinn léttist. Þú þekkir tilfinninguna. Ég þarf ekki að lýsa henni. En það er gott að rifja hana upp því hún er yndisleg.

Þú átt það skilið að láta þér líða vel. Þú átt það alltaf skilið, en það er ekki alltaf hægt, eins og þú veist. Stundum verðum við að þola það að láta okkur líða illa, hafa áhyggjur, kvíða fyrir, sjá eftir, skammast okkar og hver veit hvað. Það er hluti af lífinu, stundum nauðsynlegt, svo nauðsynlegt að við megum ekki skorast undan því, því þá gerist ekki það sem þarf að gerast okkur og öðrum til góðs. En það er stundum alveg ónauðsynlegt, mesta vitleysa, ekkert nema vitleysan í sjálfum okkur. Við sjáum eftir á að við enn höfum við ekki lært að láta smámunina vera smámuni en látum þá verða að ógn og yfirþyrmingu. Ætli við lærum ekki smátt og smátt að hætta að láta smámunina þjaka […]

Föstudagurinn langi á Skólavörðuholti – Prédikun í Dómkirkjunni 2014

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Lesum um föstudaginn langa í frásögu MarkúsarHermennirnir fóru með Jesú inn í höllina,  kölluðu saman alla hersveitina, færðu Jesú í purpurakápu  og fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð hans.  Þeir tóku að hæða hann og segja:  Heill sér þér, konungur Gyðinga,  og slógu hann í höfuðið og hræktu á hann.   Þeir leiddu hann út til að krossfesta hann.Þeir fóru með hann til Golgata og krossfestu hann.  Tveir ræningjar voru krossfestir með honum.  Þau sem gengu fram hjá hæddu hann, eins gerðu æðstu prestarnir og fræðimennirnir gys að honum og þeir sem voru krossfestir með honum smánuðu hann líka.  Á hádegi varð myrkur um allt landið.  Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.  Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt.Þannig hljóðar hið heilaga orð Guðs sem blessar okkur.  Amen
Í dag ætlum við að tala um föstudaginn langa.  Þá hékk Jesús á krossinum í sólarbreyskjunni með glæpamönnum, sárþyrstur og einmana og öllu svo lokið að honum fannst meira að segja að Guð hefði yfirgefið sig.

Við höldum áfram frá síðustu predikun þar sem við skildum við Jesúm þegar dyrnar lokuðust á eftir honum þegar hann var leiddur inn í dómssalinn við Lækjartorg.  Það var sama kvöldið sem hann hélt síðustu veisluna með fólkinu sínu og fór svo út í Alþingisgarðinn til að tala við Guð.  Og þar var hann handtekinn.

Og nú tölum við um föstudaginn langa og hugsum okkur að við séum komin upp á Skólavörðuholt.   En Jesús er ekki krossfestur.  Hann er ekki dæmdur í fangelsi.  En það á að taka hann í sundur.  Það á að eyðileggja mannorð hans, svo að það verði talað hroðalega um hann í fjölmiðlum og yfir kaffibollum um allt landið .  Fólk á að  fyrirlíta hann svo að  hann […]

Prédikun í Seltjarnarneskirkju 16. mars 2014

Við lesum í dag um síðustu daga Jesú eins og er skrifað í Matteusarguðspjalli.  Það er sagt frá óvild yfirmannanna og fastmælum þeirra um að ráða Jesú af dögum.  Við lesum um ferð hans til Jerúsalem með vinkonum sínum og vinum, kvöldmáltíðinni og handtökunni og dómi Pontíusar Pílaltusar.  Meðan Pílatus sat á dómstólnum komu boð frá konu hans:  Láttu þennan réttláta mann vera.  En Pílatus dæmdi Jesú til dauða.
Í dag ætla ég að segja ykkur sögu eins og stundum.  Það er sagan sem við heyrðum í ritningarlestrinum, sagan um síðustu daga Jesú.  Ég er að hugsa um að staðfæra hana eins og mér finnst ég geta.  Jesús fæddist og starfaði norður í landi svo við hugsum okkur að hann hafi fæðst hérna fyrir norðan, á Dalvík, og flust svo til Húsavíkur og safnað að sér hópnum fyrir norðan, Öllu sem er frá Húsavík og Stefaníu úr Eyjafirði Aðalheiði, Þórlaugu og Margréti, Auði Jónasar, Huldu, Döllu, Solveigu Láru og Sigríði Mundu, Bryndísi og Svanfríði og Sólrúnu.  Þær og fleiri, konur og menn, fara með Jesú um allt, halda samkomur, tala við fólk hvar sem er og eru í sjálf í sífelldum boðum.  Það er svo gaman og svo margt fólk flykkist að þeim þótt þau verði líka fyrir meira og meira aðkasti og ógnunum frá Klúbbnum.  Ég held við getum bara kallað faríseana og aðra yfirmenn Klúbbinn,  því við getum ekki hermt hugsanir þeirra og verk þeirra upp á nokkrar manneskjur hér.

Svo mitt í öllu þessu skemmtilega og undursamlega starfi fer Jesús að tala um að fara suður.  Það verða mínir síðustu dagar, sagði hann.  Hann sagði reyndar að hann yrði krossfestur, en það er ekki hægt að segja núna, nú eru engir krossfestir hér.  En […]

Það byrjar allt í sömu stöðunni – Prédikun Auðar Eir 19. janúar í Laugarneskirkju

Það byrjar allt í sömu stöðunni
Predikun í Laugarneskirkju 19. janúar 2014
Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Við heyrum í kvöld úr fyrstu köflum Markúsarguðspalls þar sem Jesús segir að hann sé kominn til að gera allt nýtt.  Ég er kominn til að stofna Guðsríkið, sagði hann, og til að bjóða ykkur til að vinna þar með mér:Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd.  Breytið hugsunum ykkar  og trúið fagnaðarerindinu.  En Guðsríkið er eins og sinnepskorn.  Þegar því er sáð í moldina er það smærra öllum öðrum sáðkornum.  Ef þegar því hefur verið sáð tekur það að spretta og verður öllum jurtum meira.  Það fær svo stórar greinar að fuglar himinsins geta hreiðrað um sig í skugga þess.Þessu sáðkorni er sáð í hjörtu ykkar.  Gætið nú að því.  Gætið þess að varðveita það.  Og næra það.  Og láta ekki áhyggjur og daglegt amstur bera það ofurliði.  Gætið þess, svo að það beri undursamlegan ávöxt í lífi ykkar.  Amen
Gleðilegt ár.  Nú byrjar allt upp á nýtt.  Eins og við flettum blaðsíðu eftir jólin og í upphafi meiri birtu.  Við erum samt svipaðar og það sem við segjum núna er svipað því sem við sögðum í desember.  Stundum þegar ég hlusta á mínar eigin predikanir finnst mér ég  alltaf segja það sama og ég verði að fara að finna eitthvað nýtt til að segja við okkur.  En samt þurfum við alltaf að segja það sama, aftur og aftur.  Við hittumst til að segja hver annarri að Guð elskar okkur og allt líf okkar byggist á því.
Arndís lét spegil ganga á milli okkar í síðustu messu og bað okkur að gá hvað við sæjum.  Við sjáum að við erum vinkonur Guðs, sagði hún.  Við sjáum í speglinum ást Guðs sem er með […]

Prédikun í Kirkju Óháða safnaðarins 1. desember 2013. Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Guðþjónusta í Kirkju Óháða safnaðarins á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember 2013

Stundum byrja ég á obbóstuttri sögustund með örfáum góðum sögum.  En núna byrjum við með örfáum vondum sögum, algjörum hryllingssögum.

Það er sagan um ægilega storminn á Filippseyjum.  Og flóðin í Þýskalandi og snjóstorminn í Ameríku.  Þetta er alveg nóg af sögum.  Þær verða að enn meiri hryllingssögum þegar það fréttist að það er ekkert gert með þær.  Fólkið á Filippseyjum hrópar að hamfarirnar séu  öllum heiminum að kenna.  En veröldin vill samt ekki hætta að breyta loftslaginu.  Hún vill bara halda áfram að hugsa um peninga.

Biblían segir urmul af svona hryllingssögum.  Um hamfarir í náttúrunni og um hamfarir í stríðum þar sem vondir kóngar réðust á þjóðir og einstaklinga.

Það  var af öllu þessu skelfilega sem gerðist og heldur áfram að gerast sem við sitjum hér í kvöld.   Það var af því að Guð brást við þessu.   Jesús kom af því að veröldin var vond.  Hún var svo vond að Guði leist ekki á blikuna og sá að hún verð að gera róttækar aðgerðir.  Hún varð að koma sjálf.  Hún kom og var Jesús.    Hún sagði að hún væri komin til að fá heiminn til að hlusta og finna jafnvægið og hamingjuna sem hann gæti átt.

Jesús sagði það í dæmisögunni um víngarðinn.  Hún stendur í 21. kafla Matteusarguðspjalls.  Hún segir frá landeigandanum sem plantaði víngarð og leigði hann vínræktarmönnum.  En þegar hann ætlaði að fá leiguna þverneituðu þeir að borga og drápu innheimtumennina.  Svo að vínyrkinn sendi son sinn, en leigendurnir drápu hann líka og sögðu að úr þessu gætu þeir rólegir slegið eign sinni á garðinn.

En það varð ekki svoleiðis.  Þegar Guð kom og varð ein af okkur og varð Jesús frelsari okkar, […]

Réttum úr okkur – Prédikun í guðþjónustu í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 13. október 2013

Réttum úr okkur  – Prédikun í guðþjónustu í Fríkirkjunni í Hafnarfriði 13. október 2013 , Auður Eir Vilhjálmsdóttir
,,Ég hef augu mín til fjallanna.  Hvaðan kemur mér hjálp?  Hjálp mín kemur frá Guði sem skapaði heiminn og gefur okkur öruggt göngulag um daga okkar.“ Davíðssálmur 1.16.
Það er yndislegt fyrir okkur kvennakirkjukonur að vera hérna í kvöld með ykkur í fríkirkjunni.  Ég ætla að segja framhaldið af því sem ég sagði í síðustu predikun.  Þá sagði ég frá því þegar ég var átta ára og pabbi sendi mig í bankann með skjal sem átti að stimpla.  Stúlkan í afgreiðslunni sagðist alls ekki geta leyst málið en þá kom fröken Aðils sem sat bak við gler og tók málið að sér og ég fór heim með afgreitt erindi.  Ég sagði pabba þetta  þegar hann kom heim og við kvöldverðarborðið sagði hann öllu fólkinu að það væri nú fínt að afhenda mér flókin mál.  Ég hefði snúið mér beint til fröken Aðils og hún hefði tekið málið að sér.  Ég vissi að pabbi vissi að það var ekki svona og ég vissi að hann var bæði að senda mig í bankann og segja þetta til að uppörva mig.  Allt fólkið horfði líka á mig uppörvandi og fannst mikið til um mig.  Þetta er ein af mörgu góðu minningunum sem ég á frá því að vera átta ára.

Ég segi þér þetta til að stinga upp á því að þú takir þér tímakorn til að muna eftir góðum atburðum sem þú áttir.  Það er svo mikið talað um allt sem skaðar börn svo þau bera þess merki seinna.  En hugsum um allt sem gladdi okkur og varð okkur til ævilangrar gæfu.  Hugsaðu um það.  Þú átt áreiðanlega tonn af góðum minningum […]

Prédikun í guðþjónustu við Þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2013

Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

Guðþjónusta við Þvottalaugarnar í Laugardal 19. Júní 2013

Það er ólýsanlega gott að sjá ykkur öll sem eruð komin til að halda messuna.  Takk fyrir að koma,  það er vitnisburður fyrir okkur hin.   Mörg okkar hafa tekið þátt í hátíðahöldunum fyrr í dag, þegar blómsveigur var lagður á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og þegar Kvenréttindafélið og Kvenfélagasambandið buðu í hátíðakaffi á Hallveigarstöðum.  Það var yndislegt að finna vinsemdina og vináttuna sem sameinaði okkur.  Eins og vináttan sem umlykur okkur í kvöld.  Steinunn formaður Kvenréttindafélagsins las boðskap Bibliunnar um vináttuna og við ætlum að tala um þann boðskap í kvöld.

Ég ætla að byrja á sögu.  Það kom til mín kona um daginn og spurði hvort eg hefði gert ráðstafanir áður en ég fór á eftirlaun.  Ég sagði henni að ég hefði þá fyrir löngu tekið ákvörðun.  Ég ákvað að þegar ég hætti að vinna ætlaði ég að hafa lífið eins og það var þegar ég var 8 ára.  Þá var mér falið að gera ýmislegt en ekkert sem ég réði ekki við.

Það var samt innifalið að gera samt stundum það sem ég þurfti að takast á við.  Eins og þegar pabbi fól mér að fara í bankann.  Ég átti að fara í Landsbankann og afhenda skjal sem átti að stimpla og koma svo heim með það.  Ég skildi ekki hvers vegna pabbi var að fela mér þetta.  En ég fór niður í Landsbanka eftir hádegið og gekk inn í enda milli ábúðarmikilla málverkanna.  Ég afhenti konunni bak við borðið skjalið og bað hana að stimpla það.  Hún var ekki mjög gömul, þó dáldið, kannski 20 ára.  Hún las það vandlega og lengi og mig grunaði leikslokin.  Þau urðu sem ég óttaðist, hún rétti mér skjalið og […]

Afmælismessa í Neskirkju 17. febrúar 2013

Til hamingju með afmælið. Yndislega að sjá ykkur allar og öll. Nú syngjum við með Öllu og kórnum og Önnu Siggu og þökkum hver annarri og Guði hjartanlega fyrir þessi 20 ár sem við eigum saman. Mest þökkum við Guði vinkonu okkar fyrir að koma alltaf. Annars væri ekkert afmæli í kvöld og allt búið fyrir löngu. Það var hún sem gaf sem okkur hugmyndina og hefur brallað með okkur ár eftir ár, eins og Steinunnar okkar Pálsdóttur segir.

Það var yndislegt að heyra Elísabetu rifja upp árin okkar. Öll skrefin, hvert eftir annað, stigin smátt og smátt og alltaf örugg og alltaf glaðleg og valhoppandi. Fyrir 20 árum söfnuðumst við saman í Kópavogskirkju og Agnes prédikaði. Hún tengdi saman Kvennakirkjuna og Samstarfshóp um kvennaguðfræði sem gekk á undan okkur.

Samstarfshópurinn tók á móti kvennaguðfræðinni frá útlöndum og varð hluti af kvennaguðfræðinni sem breiddist þá um allan heiminn með mætti og gleði sem er ekki hægt að lýsa. Síðan hefur kvennaguðfræðin orðið að miklum atburðum – eins og Kvennakirkjunni okkar.

Hyggðu nú vel eftir, elskan mín. Hún er Kvennakirkjan okkar. Þín. Það skiptir öllu. Af því að þú skiptir öllu.  Enn og aftur skulum við segja það: Það ert þú sem ert aðalatriði Kvennakirkjunnar. Enn og aftur skulum við segja þér það: Nærvera þín er ómetanleg fyrir okkur hinar. Líka það að þú sem kemur bara stundum skulir alltaf vilja halda áfram að vera með. Þú heldur áfram að vera kvennakirkjukona, þú styður Kvennakirkjuna með því að tilheyra henni og senda henni árgjaldið þitt. Takk og aftur takk, frá okkur sem hittumst í Þingholtsstræti til að sjá um að alltaf sé hlýtt og ljómandi og ilmandi og alltaf eitthvað yndislegt um að vera.

Það er alltaf sama yfirskriftin yfir […]

Guð gerir allt nýtt – Guðsþjónusta í kirkju Óháða safnaðarins 17. janúar 2013

Guð gerir allt nýtt

Gleðilegt ár og takk fyrir öll árin sem við höfum átt saman. Yndislegt er að hittast í kvöld.

Þegar ég kom tók söngurinn á móti mér frá Öllu, kórnum og Önnu Siggu. Og Herdís og Sigrún voru komnar til að leggja á borðið fyrir kaffið. Svo streymduð þið allar að og ég held að friðurinn fylli hjarta okkar allra. Við ætlum að tala um það sem Biblían segir um að allt verði nýtt. Hvað vilt þú að verði nýtt í þínu lífi?

Ég hugsa að við viljum allar flikka ögn upp á samskiptin sem við eigum við aðra. Ekki að ég haldi að við séum ókurteisar, en það fer bara stundum ýmilsegt úrskeiðis og það er svo gott þegar við lærum betur að umgangast okkur og annað fólk. Það eru alltaf þessir sífelldu samhljómar milli samverunnar með hinum og samverunnar við okkur sjálfar. Eða finnst þér það ekki?

Biblían er full að dæmalaust góðum ráðum beint frá Guði. Ráðum um okkur og annað fólk. Þau berast frá öðrum og frá okkar eigin reynslu. Við skulum taka á móti öllu sem gerir líf okkar betra. Við skulum borða gulrætur og hreyfa okkur og halda okkur í skefjum og vera opnar og allt sem við teljum að sé gott. Það bætir allt samskiptin við hitt fólkið af því að það bætir samskiptin við sjálfar okkur. Við fáum fullt af ráðum í Fjallræðunni. Vertu hógvær en samt kjarkmikil.

Berstu fyrir réttlætinu en sjáðu hvar þú getur barist. Annastu annað fólk og annastu þig sjálfa. Biblían segir okkur að þetta sé allt byggt á miklu dýpri vissu en þessari sem bætir svona hversdaga okkar og skiptir svo miklu. Það er hin djúpa vissa að Guð eigi allt. Hún á heiminn. […]

Prédikun í Háteigskirkju 2. desember 2012

Við erum að huga að sjálfum okkur eins og alltaf, huga að blessun okkar, svo að við verðum sjálfar til blessunar, fyrir sjálfar okkur að annað fólk.
Við hugum að ræðunum sem Bryndís og Sveinbjörg fluttu í síðustu messum.  Sveinbjörg talaði um lífið sem væri ferð og vitnaði í gönguferð Cheryl Strayed um langa vegu  Bandaríkjanna   og væntanlega gönguferð  Vilborgar Örnu á Suðurpólinn.  Cheryl gekk alein í þrjá mánuði til að huggast og komast aftur til sjálfrar sín.  Og Sveinbjörg sagði:  Cheryl lýsir  átökunum við að lyfta útroðnum bakpokanum og sárunum sem hann skyldi eftir sig á öxlum hennar og mjöðum. Hún lýsir ógninni sem leyndist svo víða og horfði stundum beint í augu hennar, og öllum ósigrunum. En hún lýsir líka gleðinni sem hún fann svo oft fyrir vegna alls þess sem hún sigraðist á, og vegna fegurðar náttúrunnar og vináttu þeirra sem hún hitti. Á göngunni hugleiddi hún lífið, reynslu sína og breytni. Innri sársauki hennar mætti ytri sársauka.
Bryndís talaði um einn dag í sinni lífsgöngu, daginn sem hún dreif sig í að raka laufin úr garðinum svo að þau kæfðu ekki grasið og taka burtu laufin  sem voru búin að stífla rennurnar.
Hvers vegna ógnar lífið okkur stundum og hvers vegna verður það kæfandi og stíflandi?  Það er sagt í texta kvöldsins í 1. Kafla Jóhannesarguðspjalls.  Guð kom sjálf til okkar.  Hún var Jesús.  Hún kom til eignar sinnar.  En fólkið sem hún skapaði og átti tók ekki á móti frelsara sínum.  Þess vegna eru ógnir og erfiðleikar í heiminum.  Og þess vegna verður lífið stundum erfitt mitt í gleði þess og vináttu.  Líka fyrir fólkið sem treystir Guði hverja stund.
Aðventan býður okkur að kveikja á kertum og hlusta á jólasálma og huga að […]

Sökkvum okkur niður í ást Guðs – Prédikun í Friðrikskapellu 16. september 2012

Þetta er hugleiðingarstund á undan predikuninni og ég ætla að biðja okkur að hugleiða það hvernig okkur líður þegar haustið byrjar. Ég ætla að segja okkur tvær sögur.

Einu sinni fór ég í boð. Þar var svo fínt fólk og talaði svo mörg tungumál að þótt mér fyndist ég prúðbúin og glaðbeitt þegar ég fór að heiman fannst mér lítið til um klæðnað minn og tilveru innan um þau. Ég varð fegin að komast heim.

Hin sagan er svona: Einu sinni fór ég í annað boð. Ég fór ekkert prúðbúin en samt fannst mér ég miklu fínni en hin. Þetta var smáundarlegt fólk af ýmum orsökum og sagan gæti verið svoleiðis að þau hafi verið svo góð og skemmtileg sem hin voru ekki. En það var ekki svoleiðis.

En mér fannst ég hins vegar bera ögn af þeim og strax á leiðinni út í fór ég að skammast mín afskaplega fyrir það. Ég fór líka að sjá að ég mátti taka þessu öllu rólega, þetta var bara alla vega fólk sem var ekkert að hugsa um það hvernig ég leit út eða hvað ég sagði. Það var ekkert að hugsa um mig og var alveg sama um mig og ég átti ekki að vera svona upptekin af sjálfri mér.

Ég sagði svona við Guð: Mikið ertu alltaf dásamleg að gefast ekki upp á mér. Þótt ég hugsi svona kolómögulegar hugsanir og sé svona upptekin af sjálfri mér og ætli aldrei að losna við það. Og mér þótti Guð segja við mig: Ég skil þig. Ég var oft í boðum þar sem fólki var alveg sama um mig. Og þá sagði ég við vinkonu okkar Guð: En þú varst samt alltaf með alla vega fólki og lést það ekki finna […]

Samvera á Bríetartorgi 28. ágúst 2012

Hérna á Bríetartorgi er minningarstaður um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem flutti fyrst kvenna í samtíð sinni opinbert erindi um kvenréttindi. Það var árið 1887. Hún bjó hérna í gula húsinu á móti sem fékk Reykjavíkurverðlaun um daginn. Seinna bjó hún í húsi sem stóð beint á móti gula húsinu okkar númer 17, hennar hús var númer 18 þar sem speglahúsið er núna. Við minnumst hennar í dag í þakklæti. Og líka Þórunnr KP sem bjó í okkar húsi og var með Bríeti í að stofna Kvenréttindafélagið árið 1907. Og minnumst þess með hógværð að okkar hús fékk líka verðlaun og Þuríður á 13 tvisvar.

Svo förum við að hugsa til sjálfra okkar. Við erum komnar hingað til að uppörva hver aðra í lífsins löngu göngu, alltaf alltaf reiðubúnar til að taka hver aðra að okkur á gönguferðinni. Það er alltaf þess vegna sem við hittumst og það er hvorki meira né minna en yndislegt og takk fyrir að koma. Það er svo gott fyrir okkur hinar að þú komst.

Við Elísabet vorum hérna líka í gær og kannski fleiri af okkur. Við hlustuðum á djass á Laugaveginum og horfðum á biðraðir eftir beikoni á beikonhátíðinni á Skólavörðustígnum og keyptum svo á heimleiðinni túmata og hnetur hérna upp í Bónus og töluðum við vinkonu okkar á kassanum, hana sem er frá Hong Kong og er svo skemmtileg. Göturnar eru líka fullar af fólki í dag og við erum hluti af öllu þessu lifandi lífi og það er svo dæmalaust gott.

Og hvernig líður þér nú í dag? Það er alltaf spurningin, alltaf sama spurningin: Hvernig líður þér?

Af því að við höldum hópinn með Guði til að hjálpast að við að láta okkur líða vel.

Ég ætla að segja þrennt um það […]

Guðþjónusta í Friðrikskapellu 15. apríl 2012

Er upprisan alþjóðasamningur ?

Messan er búin að vera predikun eins og alltaf. Við höfum haldið hana saman eins og við gerum alltaf. Og þessi predikun fellur inn í allt annað á þessu góða kvöldi. Það er yndislegt að mega huga að öllum messum okkar og hafa þær eins og við viljum allra helst. Við erum alltaf að vona að við segjum hver annarri eitthvað sem verður svo gott að fara með heim og nota í dögunum framundan.

Þess vegna ætlaði ég að byrja þennan hluta predikunarinnar á því að spyrja þig hvernig þú myndir byrja ef þú stæðir hérna í mínum sporum. En svo datt mér önnur spurning í hug og fannst hún svo ljómandi að ég ákvað að fara beint í hana. Hún er þessi:

Heldurðu að upprisan hafi verið alþjóðlegur samningur? Svona eins og samningar eru gerðir núna á vegum Sameinuðu þjóðanna um eitt og annað eins og barnaheill og heilbrigðismál?

Upprisan var alþjóðleg. Hún var orðsending Guðs til allra þjóða heimsins um frelsi og frið. Allar þjóðirnar máttu setjast við samningaborðið og skrifa undir.

Það gerðist seinna að heilu þjóðirnar undirrituðu. Við undirrituðum. Það var árið 1000 og skrifað niður að það er upphaf laga vorra að hver maður skal vera kristinn.

En nú skulum við hverfa aftur til baka að frásögunni af upprisunni sem Guðrún las úr Markúsarguðsjalli. Þann dag og næstu daga voru gerðir miklir samningar. Ekki alþjóðlegir og ekki þjóðlegir heldur milli Guðs annars vegar og einstaklinga hins vegar. Markúsarguðspjall segir frá því að tvær Maríur og ein Salóme hafi undirritað. Á næstu dögum undirrituðu líklega öll úr vinahópnum sem fylgdi Jesú. Og á næstu áratugum undirrituðu fleiri og fleiri úti um allan heiminn.

En það var líka mótmælt. Það var strax sagt að vinahópurinn […]

Messa í Seltjarnarneskirkju 11. mars 2012

Góða fólk.

Eins og glögg augu sjá er ég ekki Sveinbjörg. Sveinbjörg er veik og biður innilega að heilsa og saknar okkar og vonar að við björgum málunum þótt hún geti ekki flutt ræðuna sem hún ætlaði að gera í kvöld. Við björgum málunum eins og alltaf og biðjum Guð að lækna hana og þær aðrar vinkonur okkar sem eru veikar í kvöld.

Ég gæti alveg hugsað mér að vera Sveinbjörg. Ég held að það sé verulega gaman, svo mikla hæfileika sem sú góða kona hefur. Ég segi þetta í fullu trausti þess að Sveinbjörg gæti stundum hugsað sér að vera ég. Eða þú. Og ég segi þetta af því að það er innifalið í boðskap kvöldsins sem er eitt af kvöldum föstunnar. Það er sá yndislegi boðskapur að við skulum setja okkur í sport hver annarrar og vita mætavel að við erum allar hluti hver af annarri. Það er með því sem við finnum hverjar við erum sjálfar.

Það er skrifuð mektar guðfræði um það að við skulum bæði vera við sjálfar og við allar saman. Sveinbjörg ætlaði að predika um 13. kaflann í Jóhannesarguðspjalli og ég ætla þess vegna að gera það líka. 13. kaflinn í Jóhannesarguðspjalli er hluti af frásögunni um síðustu kvöldmáltíðina og það sem Jesús sagði þá við vinkonur sína og vini. Og við spyrjum nú strax hvað hann segi þar um það að við eigum bæði að vera það sem við erum sjálfar hver og ein og það sem við erum allar saman.

Það er auðvitað stórlega eftirsóknarvert að vita það. Einfaldlega af því að við erum alltaf að leita eftir því að vita hverjar við erum. Það er svo eftirsóknarvert að við förum á rándýr námskeið til að læra það og kaupum […]

Afmælismessa í Neskirkju 19. febrúar 2012

Elskulegu vinkonur. Það er yndislegt að hittast í afmælismessu og fagna yfir löngu og góðu starfi okkar. Yfir því að við fáum alltaf að hittast og gefa hver annarri gleði Guðs til daglegra starfa okkar, gleðina sem hún gefur okkur til að gefa hver annarri og hvert öðru.
Og samt byrja ég svo hátíðlega stund með gamalli sögu. Og segi svo tvær aðrar enn eldri á eftir. Fyrsta sagan er um eina af okkur sem fór í saumaklúbb. Hvað segirðu gott, sögðu vinkonurnar, og hún svaraði: Allt svo fínt, ég tók neðri skápana í gær. Ég hef oft sagt þér þessa sögu hennar. Af því að hún er svo dæmalaust góð. Vinkona okkar hlær að henni og segir að hún sýni andlega fátækt sína og þröngsýni sem nær ekkert út fyrir daglegt stússið. En það er hvorki satt né rétt. Enda er vinkona okkar stórmenntuð. En alveg óháð því er hún stórkostleg. Ég segi þessa sögu sem afmælissögu af því að við hittumst alltaf til að hjálpa hver annarri til að laga til í lífi okkar. Svo að við getum tekið út úr huga okkar það sem við viljum ekki að sé þar. Og hent því. Og sett nýjar hugsanir í staðinn. Þær þurfa alls ekki að vera nýjar. Þær geta verið gamlar, en nýjar í huga okkar núna, eitthvað sem við áttum en gleymdum. Til dæmis það hvað það var gott að vera til í hverfinu okkar þegar við vorum litlar, eða hvað það var gott núna rétt um daginn að fá að vera með góðum manneskjum eða setjast við kvöldmatinn. Það er svo margt sem er svo gott. Við hittumst til að segja hver annarri að það sé best að fylla hugann með því. […]

Jólamessa í Háteigskirkju 28. desember 2011

Gleðileg jól. Það er yndislegt að við skulum vera hér allar og öll saman í kvöld. Til að hittast og vera saman og óska hver annarri og hvert öðru gleðilegra jóla og syngja saman og biðja saman og heyra jólaguðspjallið og hlusta á Hallfríðí og Öllu.

Við hittumst til að finna friðinn sem jólaguðspjallið segir frá. Sem englarnir sungu um á Betlehemsvöllum í kyrrð jólanæturinnar: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu. Hann sem gaf friðinn tók á móti hirðunum í fjárhúsinu, Jesús Kristur, frelsari heimsins. Hann var þar með Maríu og Jósef. Ofurlítið nýfætt barn. Hann átti eftir að verða undrunarefni og deiluefni og fólk átti eftir að andmæla honum og afneita honum. En líka að elska hann og slást í för með honum.

En þau sem hittu hann með þeim Maríu og Jósef allra fyrst af öllum, hirðarnir og vitringarnir, trúðu umsvifalaust á hann. Það var ekkert hik, enginn efi, engar spurningar. Þau trúðu því að hann væri sá sem englarnir sögðu. Hann var Guð sem var komin til þeirra og alls fólks veraldarinnar.

Við trúum því líka. Það er gæfa okkar og gleði allra daga. Margar okkar hafa sagt frá því í messunum, sagt frá trú sinni sem styrkir og gleður alla daga þeirra. Við hinar þökkum þeim fyrir að eiga þessa sterku og blíðu trú og segja okkur frá henni. Við segjum hver við aðra hvað konur Kvennakirkjunnar eiga mikla trú í hjarta sínu og hvað það gerir okkur öllum gott. Hvað það er gott að fá að vinna saman og vera saman.

Eins og alltaf ætlum við að tala um það í kvöld hvað trúin gerir okkur glaðar og öruggar. En í kvöld tölum við sérstaklega um það að það er allt […]

Prédikun úr Messu í Kirkju óháða safnaðarins 13. nóvember 2011

Þess hefur verið óskað að við töluðum í kvöld um minni óró og meiri festu. Þess vegna tölum við í kvöld um minni óró og meiri festu. Ég veit þú veist að ég tala hvorki um landsmál né heimsmál af því ég skil þau svo illa. Samt gæti ég frekar talað um heimsmál en landsmál af því að heimsfólkið sem ég myndi trúlega hallmæla fyrir vitleysuna nær ekki til mín þótt það vildi hefna sín. En þótt ég talaði um landsmál og hallmælti öllum og þau fréttu af því myndu þau samt ekki hefna sín, held ég. Einfaldlega af því að það er alltaf verið að hallmæla þeim og þau geta ekki haft tíma til að hefna sín á öllum.

Ég get hins vegar, þegar ég gái að, sagt nokkur flott orð um heimsmálin, og geri það bara í byrjum: Það er allt að breytast í veröldinni. Þau eru um það að allt er að breytast í veröldinni. Auðmagnið og fátæktin skiptast ekki lengur milli norðurs og suðurs heldur skiptast þau í öllum löndum. Völdin skiptast líka í öllum löndum og alls staðar er barist um þau. Fólk flyst um heiminn og milli starfa og fjölskyldur breytast. Þetta ýtir allt undir fjarlægð frá kirkjunni og kristinni trú og önnur trúarbrögð sem flytjast nær verða kristnu fólki aðlaðandi. En þetta verður líka til að hvetja kirkjuna til að láta til sín taka við að boða sínu eigin fólki djúpa og þróttmikla kristna trú og til að verða til þjónustu í samfélögunum.

En þá sný ég mér að þér. Við hinar ætlum að hugsa um þig í kvöld. Eins og alltaf. Við ætlum að hugsa um það hvað þér finnist órólegt og hvaða festu þú vildir þiggja. Við getum […]

Sultan og kartöflurnar og tauið af snúrunum – Prédikun í Árbæjarkirkju 18. september 2011

Það er svo gott að hittast aftur eftir sumarið. Það er yndislegt að sjá ykkur allar. Nú söfnumst við saman eftir sumarið eftir að hver okkar hefur gert eitt og annað skemmtilegt.

Ég fór að huga að textum sem töluðu um að safna okkur saman. Það eru margir miklir textar í Biblíunni sem segja frá eilífri ást Guðs sem alltaf alltaf safnað fólki sínum saman. Til sín. Heim til sín. Sigga las stuttar greinar úr frásögunni um heimkomuna frá Egyptalandi um 1300 fyrir Krist. Þegar Guð safnaði fólkinu úr þrældómnum og úr 40 ára eyðimerkurgöngunni og gaf því land til að búa í. Og þegar Guð safnaði fólkinu úr herleiðingunni í Babýlon 800 árum seinna eða um 500 fyrir Krist. Ég bað hana ekki að lesa textann úr Opinberunarbókinni en vitna í hann núna, um það að Guð safnar fólki sínu á efstu dögum eftir þrenginguna miklu og gerir allt nýtt, nýjan himin og nýja jörð..

Þetta er allt frásögur um heimkomu eftir þrengingar. En ég ætlaði að finna frásögu af því þegar Guð safnaði fólki sínu saman eftir góðan tíma til að gefa því gleðina af að hittast með alla þessa hamingju í huganum. Það er frásagan úr Markúsarguðspjalli sem Sigga las síðast. Um það þegar vinkonur og vinir Jesú komu aftur eftir að hafa verið úti um hvippinn og hvappinn við að boða fagnaðarerindið og hittust nú aftur til að segja frá og gleðjast.

En eins og við segjum alltaf hver við aðra: Við skulum alltaf minnast erfiðleika okkar um leið og við þökkum fyrir gleði okkar. Af því að erfiðleikarnir koma til okkar allra og við hittumst í Kvennakirkjunni okkar til að hjálpa hver annarri til að komast í gegnum þá. Til að komast aftur […]

Prédikun við Þvottalaugarnar 19. júní 2011

Góðu konur, góða fólk. Það er yndislegt að sjást og heyrast á þessu góða kvöldi 19. júní.
Það er vel til fallið að tala um boð í kvöld, eins og Helga Guðrún las fyrir okkur úr Biblíunni um boð Guðs. Það er mikil hátíð í dag, endurómurinn af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar í fyrradag og 100 ára afmæli Háskóla Íslands, og svo okkar sameiginlegu hátíðahöld í allan dag. Ég byrjaði á að lesa kvenfrelsismoggann með morgunkaffinu og svo hlustaði ég á Erlu Huldu og svo kvennamessuna í Grafarvogskirkju. Og núna erum við hér allar saman til að halda hátíð.

Það er miklu skemmtilegra að vinna saman. Kvenfélagasambandið og kvenréttindafélalgið og Kvennakirkjan hafa haldið 19. júní messu í Laugardal í fjölmörg ár og þær byrjuðu undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur á lýðveldisafmælinu 1994.
Við skulum líka minnast Steinunnar Ingimundardóttur, sem nú er nýlátin. Hún var í undirbúningshópi þessa guðþjónustuhalds í byrjun sem fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands. Hún var framúrskarandi, röggsöm og hógvær og alúðleg og það var gott að vera með henni. Hún var húsmæðrakennari og tók sér margt fyrir hendur og var meðal annars skólastjóri húsmæðraskólans á Varmalandi og starfaði síðar á Leiðbeiningartöð heimilanna hjá Kvenfélagasambandi Íslands.

Við skulum halda áfram hugleiðingum um góðar konur sem við höfum þekkt og hafa styrkt okkur og glatt. Það er fátt jafn gott og að þekkja verulega góðar manneskjur og yndislegt að fá að vinna með þeim. Ég hef margoft, og þú líklega líka, verið í kvennahópum þar sem einhver fór að lýsa einhverri góðri konu og hinar tóku við. Þær sögðu kannski frá henni Sigríði frænku sinni vestur í bæ sem fluttist ung austan af fjörðum og vann fyrir sér í fiski eða við uppþvott á Hressó hérna í Reykjaví, eða […]

Hjarta þitt er þar sem fjársjóður þinn er. Prédikun 13. mars 2011

Við skulum leiða hugann að tveimur orðum í kvöld. Annars vegar orðinu föstutíminn og hins vegar orðinu fjársjóður. Þetta gerum við af því að nú er föstutíminn rétt hafinn og af því að vers kvöldsins er um fjársjóð hjarta okkar. Byrjum á fjársjóðnum. Hjarta þitt er þar sem fjársjóður þinn er, sagði Jesús í Fjallaræðunni. Ég veit að engri okkar dettur í hug að bera það upp á sjálfa sig eða aðrar hér í kvöld að fjársjóður nokkurrar okkur sé þar sem miklir peningar eru eða mikið vald eða mikil frægð. Það er þetta þrennt sem er stimplað og vottað að vera þykkur þáttur í undirrót óhamingjunnar í eigin lífi hverrar manneskju og renna svo ákaflega út í samfélagið að það spilli því eins og annað eitur. Eða kannski byrjar eitrið í samfélaginu og rennur inn til okkar. Alla vega, við ætlum ekki að ætla okkur að fjársjóður okkar sé þar. Bara alls ekki.

En gætum nú samt í eins og tvo fjársjóðskassa og gáum hvað við sjáum. Því vondir fjársjóðir eru til og það er jafn líklegt fyrir okkur eins og aðrar manneskjur að slysast til að gægjast í þá og verða hugfangnar af innihaldinu. Það gæti hent okkur eins og annað fólk að heillast af því að verða ofslega ríkar, ofsalega frægar og ofsalega valdamiklar. Við skulum passa hver aðra svo vel að hver passi sjálfa sig. Það er afar heillaríkt. Svo að við njótum þess að eiga peninga, hafa völd yfir okkar málum og eiga góða frægð í hópum sem við elskum. Það er svo gott. Og það er nóg. Alveg nóg. Sjáum nú hvað leynist í þessum fjársjóðskassa. Hér er valdið, hér er frægðin, hér eru peningarnir, alveg eins og okkur mátti […]

18. ára og sjálfráða. Prédikun 13. febrúar 2011

Til hamingju með afmælið. Kvennakirkjan er 18 ára og ræður sér sjálf. Þess vegna stígum við nýtt skref í kvöld. Nýtt fullræðisskref þessa merka afmælis. Við tölum um það á eftir. . Við fögnum því að vera sjálfráða og enn meira fögnum við því að hafa alltaf verið sjálfráða. Hvað höfum við nú gert í 18 ár í frelsi okkar og gleði? Við höfum verið saman og styrkt hver aðra í trú okkar. Það er trúin á Guð vinkonu okkar sem er ein af okkur, alltaf með okkur, tekur þátt í öllu starfi okkar og gefur okkur hugmyndir. Og ef sumar okkar vilja heldur kalla hana eitthvað annað en vinkonu okkar þá höfum við frelsið og gleðina til að una því prýðilega því engin okkar ræður yfir annarri.

Trúin á Guð vinkonu okkar er trúin á Guð sem kom og var Jesús Kristur sem lifði og dó og reis upp frá dauðum og er hjá okkur. Hann er hún sem kom og er og er alltaf. Og er vinkona okkar. Hvað höfum við gert í vináttu hennar? Við höfum búið til torg þar sem við megum allar vera og allar tala og vinna. Það er torg kvennaguðfræðinnar. Og kvennaguðfræðin tekur til alls sem við gerum, alls lífs okkar. Hún er hversdagsguðfræði um Guð og okkur, allar saman og eina og eina. Og í öllum dögum okkar. Heima og heiman, með öðrum og með sjálfum okkur innst í okkar eigin huga. Þess vegna höfum við haldið námskeið og ráðstefnur um hina margvíslegustu hluti, Biblíuna, gleðina, reiðina, þunglyndið, þjóðfélagið, framfarir, breytingarskeiðið og tískuna og svo miklu fleira. Við tölum sífellt sífellt um lífsgleðina. Og um lífsóttann. Við segjum hver annarri aftur og aftur að mótlætið mæti okkur öllum […]

Getur verið að fjallaræðan sé rammi um þig? Prédikun 14. nóvember 2010

Spurning kvöldsins er hvort það sé hugsanlegt að Fjallræðan sé rammi utan um þig?

Ég veit ekki hvort þú kærir þig yfirleitt um ramma utan um líf þitt. Kannski hugsarðu með þér að þú viljir alls ekki vera að ramma þig inn heldur vera rammalaus og frjáls og hafa alveg rammalausa möguleika. Hvað heldurðu? Ég held nú samt fyrir mitt leyti að hvað sem við hugsum um það þá séum við allar innrammaðar í hina og þessa ramma. Við erum rammaðar í genin sem við erfðum og menninguna í landinu og okkar eigin venjur.

Það er hægt að breyta sumum römmunum en sumum ekki. Ekki breytum við genunum. Og það er ekkert víst að við viljum það því við höfum auðvitað erft býsn og hrúgur af góðum genum. Og við höfum tekið við góðri menningu og búið okkur til góðar venjur. Samt viljum við breyta sumu. Til að nota það minna eða alls ekki eða þá meira og betur. Eða hvað finnst þér?

Fjallræðan er um rammana. Hún er um rammann utan um þig. Hún er um blessunina sem þú hefur af því að hafa hana sem rammann um líf þitt. Og nú skulum við halda áfram frá síðustu messu og næst síðustu. Þú manst að við ætlum að tala um Fjallræðuna í allan vetur. Í síðustu messu talaði Jóhanna um liljur vallarins og í næstu messu, aðventumessunni, talar Ninna Sif um ljós heimsin.

Hugsaðu þér bara. Þú ert svo flott að þú ert eins og liljur vallarins. Þú ert yndisleg manneskja. Þú ert falleg og litrík manneskja sem ilmar af öllu því góða sem þú ert. Svo ekki bugast af áhyggjum. Guð er vinkona þín og hún er alltaf hjá þér.

Í kvöld tölum við um þrjár myndir í […]

Hvað þýðir: Sæl eru fátæk í anda. Prédikun 12. september 2010

Gleðilegt haust, góðu vinkonur, yndislegt að hittast aftur og leiða hver aðra inn í haustið. Ég talaði við eina okkar sem sagði að hún byggist við að veturinn yrði að mörgu leyti góður. Ekki áreiðanlega stórgóður að öllu leyti. Við vitum það alltaf, eins og við segjum líka alltaf. Við skipumst á að mæta gleði og erfiðleikum, það eru margskonar kaflar í lífi okkar allra. Okkur dettur ekki í hug að afneita því eða gleyma því því það er okkur svo hollt og gott að vita það. Okkur býðst ekki sífellt sumar og það er gagnlegt að vita það. Og Guð er alltaf hjá okkur og þess vegna hefur flest tilhneigingu til að fara heldur vel.

Einu sinni enn rifjum við saman upp þennan augljósa sannleika að það sem gerist í kringum okkur hefur áhrif á okkur og það sem við gerum og segjum og hugsum hefur áhrif á það sem gerist í kringum okkur. Er það ekki öldungis yndislegt og stórkostlegt að við skulum geta haft hönd í bagga með sjálfum okkur?

Við ætlum að tala um það í kvöld. Við ætlum að gefa hver annarri nestispakka í ferðina inn í haustið.

Nú þykir mér ráðlegt að við hugsum hver um sig um innstu gerð sjálfra okkar í stutta stund. Ég held nefnilega að það sé prýðilegt að gá að mestu kostum okkar. Af því að það er svo upplagt að nota þá í vetur, þessa undursamlegu kosti okkar. Hefurðu það á hreinu hverjir eru bestu kostir þínir? Ég held við rétt byrjum á verkefninu og svo verði það heimaverkefni. Og við bætum því við hverjir við höldum að séu mestu ókostir okkar. Það er nefnilega afar hugsanlegt, bara áreiðanlegt, að við getum með góðri umönnun umvafið […]

Messa í Laugardal 19. júní 2010

Elskulega fólk. Verum öll innilega velkomin í Laugardalinn í kvöld. Ég segi það aftur þótt það sé búið að segja það. Af því það er svo gaman að hittast og vera saman í kvöld eins í öllum hinum guðþjónustunum okkar hérna í Laugardalnum á 19. júní. Ég segi það enn sem alltaf fyrr, það væri ekki nærri eins gott að vera hér ef þú hefðir ekki komið. Svo takk fyrir að koma. Það liggur í augum uppi að við tölum um hrunið og uppbygginguna í kvöld. Katrín og Unnur og Auður dönsuðu fyrir okkur dans sem þær hafa sjálfar samið og er um frumöflin. Eins og alla list getum við túlkað dansinn eins og okkur sýnist. Ég les út úr honum afl eldsins og íssins sem tekst og verða að himinbláu vatninu.

Við skulum hafa dansinn sem upphaf þessara orða og hugsana um það hvað er að gerast. Við höfum tekið þátt í miklum átökum. Þau hafa brennt okkur. Og þau hafa brætt okkur. Við. Við höfum séð hugmyndir bráðna og hverfa af því að þær voru falskar og stóðust ekki eldinn. Við vonum að við eignumst nýjar hugmyndir. Himinbláar. Og að eldur og ís okkar eigin lands og okkar eigin huga verði uppistaðan í framhaldinu. Svo himinbláminn umlyki okkur í frelsi og gleði íss og elds sem er styrkur skapgerðar okkar hér á norðurslóðum. Eða svona get ég hugsað mér dans Uppsteytarstúlknanna sem heiðra okkur með list sinni í kvöld.

Hvar finnst þér við standa á veginum til framtíðar? Ég held við séum á uppleið. Ég held við finnum ennþá öll til allra mögulegra tilfinninga og hrunið snerti okkur öll og við séum sjálf slegin eða eigum fólk sem hrunið hefur slegið. Ég hef hugsað mér […]