Við ætlum að tala um nesti fyrir gesti en einkum fyrir heimafólk. Það er einfaldlega af því að við tökum alltaf með okkur nesti úr öllum messum . Ég var í Strassborg og fór í fínu kirkjubókabúðina og kom með þrjár bækur úr því nesti hingað í kvöld. Sjáum nú til hvort við viljum eitthvað af því til að fara með heim.
Þessi bók heitir Guð er ekki eins og þú hélst. Það er mikið skrifað um það í guðfræði núna. En ég held bara ekki að við setjum þetta í nestið. Af því að ég held að Guð sé alveg eins og við héldum. Við erum löngu búnar að sjá að Guð er vinkona okkar. Við höldum ekkert um það. Við höfum vitað það lengi. Og það er alveg stórkostlegt. Svo við setjum ekki þessa bók í nestið.
Þessi þykir mér svakaleg brandarabók og þess vegna gæti hún verið í nestinu. Hún heitir Hvað ef Jesús er nú ekki Guð? Ég hélt að höfundurinn yrði alveg dolfallinn yfir svoleiðis hugsunum en hann er það ekki. Hann segir í fullri alvöru að Jesús sé alls ekki Guð. Hann skrifar samtal milli sín og Jesú. Heyrðu Jesú, þú ert sonur Guðs er það ekki? Og Jesús svarar: Neineinei, láttu þér ekki detta það í hug. En þú gerðir kraftaverk? Ekki eitt einasta. En hvað um fiskinn og brauðið uppi í óbyggðinni? Ekkert kraftaverk. Fólkið var með nógan mat og ég bað það bara að gefa þeim sem höfðu ekkert. En hvað með lamaða fólkið sem þú læknaðir. Ég læknaði það ekki. Ég sá bara að þetta var fólk sem hafði engan viljastyrk og ég gaf því trú á sjálft sig svo að það gæti staðið upprétt gagnvart öðru […]