Núna er tími eftirvæntingarinnar. Núna er líka tími uppgjörsins þar sem tími gefst til að hugleiða árið sem er að líða. Einnig er þessi tími, tími kvíðans og hræðslunnar. Aðventan er tilfinningaríkur tími sem snertir okkur öll á einhvern hátt. Flest okkar geta tekið þessum tíma opnum örmum og gert það besta úr honum fyrir okkur sjálf, vinkonur okkar og vini. Við kunnum að njóta og látum aulýsingar og annað skrum ekki trufla okkur. Við vitum að jólin byrja ekki í IKEA heldur kl.6 á aðfangadagskvöld. Við vitum líka að undirstaðan að hamingju heimilisins fæst ekki í Húsasmiðjunni heldur er hún undir heimilisfólkinu komin.
En það er alls ekki auðvelt að vera svona skynsöm. Svona óskaplega skynsöm þegar allsstaðar er kallað. Vertu bara eyðslukló. Kauptu núna – borgaðu seinna. Kauptu einmitt þetta, þetta sem er alveg nýtt og svo allt öðruvísi. Æ, mig langar svo í blikkandi seríur, samt fannst mér þær ljótar í fyrra, en allar vinkonur mínar eiga svona núna. Ég get ekki gert krökkunum þetta, þau fá auðvitað nóg af því að heyra að mamma þeirra sé alltaf öðruvísi. Jú auðvitað geri ég krökkunum það að fá ekki alltaf allt sem þau suða um. Fara ekki allt sem þau langar til að fara. Þá er ég skynsöm. Þá er ég að velja fyrir mig og fólkið mitt, velja það sem ég held að sé best og réttast og er sátt við. Er ekki bara ágætt að börnum leiðist af og til, ég held það, það verður svo gaman þegar þau finna sér sjálf viðfangsefni. En það er vont fyrir fullorðið fólk að kvíða og vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Kvíða því sem verður og kannski enn meira því sem verður […]