Við skulum biðja: Guð minn og Guð þinn: Kenndu okkur að leita til þín í sorgum okkar og í gleði okkar. Hjálpaðu okkur að taka ávallt skref í þá átt að verða betri manneskjur. Kristur; gefðu að við munum boðskapinn sem þú færðir okkur; að elska hvert annað, að dæma ekki, að óttast ekki. Amen.
Kæru vinkonur og vinir. Gamall maður sem átt hafði í langri og strangri veikindabaráttu, sagði við mig fyrir skömmu. Væna mín, mundu mig um það, er þú verður prestur, að tileinka þér ekki væmni í orðum og atferli. Eitthvað fannst þessum aldna heiðursmanni að væri um það, að prestar kæmu sér upp slíku viðmóti. Ég, sem vil vera töff, lofaði að passa upp á þetta. Þegar ég var að semja þessa prédikun, leituðu þessi orð á mig. Afhverju? Er eitthvað í okkur sem finnst það vera væmið sem er okkur mikils virði og sem okkur finnst gott og yndislegt. Ég held að það eigi stundum við mig. Mig langar að tala um trú í kvöld og ætla þá bara að vera svolítið væmin. En ég held samt að það sé þannig, að ef talað er í einlægni og frá hjartanu verði það ekki þannig. Og ég ætla að tala frá hjartanu. Trúin hefur breytt svo miklu í mínu lífi. Í sorgum og áföllum get ég í dag leitað í hana og fundið huggun. Huggun og þar af leiðandi styrk sem ég vissi ekki um áður. Þessi uppgötvun verður til þess að það kviknar löngun til að verða þess megnug að hjálpa öðrum til að finna þetta líka. Fyrir nokkrum árum átti ég ekki trú. Í dag á ég hana og það hefur verið æfintýri lífs míns að fá trú á Guð, […]