Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Nú þegar þið hefjið vegferð á nýrri leið í lífi ykkar kæru vígsluþegar koma til mín orð úr Orðskviðunum í Gamla-testamentinu. „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar“.
Með vígslu ykkar eruð þið ekki aðeins að feta nýjar leiðir, heldur er kirkjan líka að feta nýjar leiðir. Líklegt er að aldrei fyrr hér á landi hafi biskupsvígð kona vígt tvo vígsluþega í sömu athöfn sem báðar eru konur. Og aldrei fyrr hefur kona verið vígð til að þjóna fyrst og fremst konum í kirkjunni. Með vígslu prests til kvennakirkjunnar er bent á nauðsyn þess að halda áfram þeirri þjónustu sem kvennakirkjan hefur veitt á tuttugu ára ferli sínum.
Sameining prestakalla í Vestur-Barðastrandasýslu, þar sem fleiri en einn prestur þjónar, er líka tímanna tákn því nútíminn krefst nýrrar hugsunar í skipulagi og vinnubrögðum þar sem samvinna eykst og mismunandi hæfileikar og reynsla hinna prestvígðu þjóna njóta sín og bæta þjónustuna við sóknarbörnin.
Nú, eins og á öllum tímum ber að fara og skíra og kenna eins og Jesús fór fram á við lærisveina sína forðum. Það er heilög skylda Kirkjunnar að feta í þau spor og hlýða því kalli. Þið hafið fengið köllun til að fara og skíra og kenna, til að boða Orðið, boða trúna á Jesú Krist og lifa í þeirri trú og framganga í þeirri trú. Það er ekki alltaf auðvelt og í raun ekki á færi mannsins nema vera þess fullviss að það gerum við ekki í eigin mætti heldur erum við borin uppi af þeim er okkur lífið gaf og þeim er […]