Predikun á 50 ára vígsluafmæli í guðþjónustu í Háteigskirkju 29. september 2024
Elskulegu vinkonur og vinir. Við höldum það hátíðlegt að við konur höfum verið prestar í þjóðkirkjunni í 50 ár. Við brutum glerþakið og opnuðum dyrnar. Við gengum inn og kirkjan tók fagnandi á móti okkur með miklum gjöfum. Hún gaf okkur söfnuði, kirkjur, predikunarstóla, skírnarfonta og rándýrar svartar hempur og mjallhvíta prestakraga.
Við gáfum henni líka gjafir. Við sem gengum fyrstar gáfum henni kvennaguðfræðina. Við sögðum henni að Guð væri kona, að það ætti aldrei að tala niður til kvenna af því að Guð hefði aldrei gert það og Biblían sýndi það. Kvennakirkjan tók við af okkur fyrstu prestunum sem eru flestar í Kvennakirkjunni. Kvennakirkjan skrifaði biblíutexta á máli beggja kynja. Og þegar hún frétti að kirkjan ætlaði að gefa út nýja Biblíuþýðingu skrifaði hún kirkjunni og stakk upp á því að Biblían yrði gefin út á máli beggja kyngja. Alveg væri það stórkostlegt sagði kirkjan og gaf Nýja testamentið út á þessu kristilega málfari. Og þegar ný sálmabók átti að koma út var Alla, Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari Kvennakirkjunnar til ráðlegginga. Hún rétti kirkjunni sálma á máli beggja kynja og kirkan sagði takk innilega og setti sálmana í nýjui sálmabókina.
Við sögðum kirkjunni líka að Guð væri kona. En kirkjan sagðist hafa Maríu og Kvennakirkjan þagði kurteislega þótt hún væri hissa. Fólk hefur svo margar guðsmyndir. Guðrún biskup talaði um gullkálfinn í eyðimörkinni þegar hún talaði við setningu Alþingis. Hér lýkur tilvitnuninni og ég held áfram og segi að fólkið í eyðimörkinni hafi verið nýkomið úr þrældómnum og heiðindómnum og ekki áttað sig á því sem Guð var að segja. Svo liðu aldirnar og fólk varð stórlega menntað í margvíslegum greinum. […]