Prédikun Auðar Eir í Neskirkju í 30 ára afmælismessu Kvennakirkjunnar.
Við erum búnar að fara yfir söguna. Hún heldur áfram og hvað skyldi bíða okkar?
Það hefur margt breyst í heiminum á 30 árum og líka hjá okkur. En sumt er eins í verlöldinni og líka hjá okkur. Við höldum áfram að vera margar. Við höldum áfram að tilheyra hver annarri af því að við tilheyrum Guði. Við biðjum hver fyrir annarri, bjóðum hver annarri í messu og samverustundir. Við höldum áfram að lesa Biblíuna og syngja og tala saman og finna að vinátta okkar gefur okkur öryggi og gleði með öðru fólki.
Við höldum áfram að tilheyra menningunni í kringum okkur, margvíslegri góðri menningu sem á rætur í styrk og gleði kristinnar trúar . Eitthvað í i menningunni er farið að fara aðra vegi og kærir sig minna og minna um kristna trú og meira og meira um ræktina og hollustuna, jóga og hugleiðslu og hópana og listina, allt eftir þeim hugmyndum að það sé einmitt í þessu sem við finnum það besta í sjálfum okkur.
Það er margt í þessum sem styrkir okkur og gleður. En ég býst ekki við að neinar okkar hafi nokkuð af þessu sem grundvöll lífsins. Við höfum auðvitað allar okkar eigin hugmyndir um þetta eins og allt annað. Við ráðum allar hvað við hugsum, segjum við. Við hugsum allar það sem við viljum. En við vitum um leið og við segjum það að það gerum við reyndar ekki alveg. Við hugsum meira og minna það sem berst að okkur. Við sjáum af sögu aldanna að það var alltaf svona. Það komu alltaf bylgjur nýrra hugmynda sem mótuðu nýjar kynslóðir. Með vondum og góðum hugmyndum.
Kvennaguðfræðin […]