Kærleikurinn
Predikun í Kvennakirkjunni – Grensáskirkju 17 mars 2019
I.Kor.13:1,13
Við skulum biðja:
Elsku Guð, við biðjum þig um að umfaðma okkur með kærleika þínum. Kom þú til okkar. Opna þú hjörtu okkar svo við séum fær að taka á móti lífgefandi afli kærleikans. Láttu kærleik þinn vinna sitt verk svo að vonin og trúin sé sterk. Í Jesú nafni. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði.
Ég ætla að íhuga um stund kærleikann og leitast við að kafa dýpra í merkingu hans og hvernig hann getur haft áhrif inn í líf okkar. Það er þörf á að efla kærleikann með því að taka hann til umfjöllunar og dýpka skilning okkar á honum. E.t.v. er einnig þörf á að spyrja sig hvort við séum á flótta frá kærleikanum þó við séum á sama tíma að leita að mennsku okkar. Kærleikann er hægt að nota sem hugmyndafræði. Kærleikur Guðs hefur áhrif á okkur og umfaðmar okkur og hefur heilsusamleg áhrif, því kærleikurinn og ástin er læknandi afl, opnandi og lækkar varnarmúrana,
Kærleikurinn er nefnilega afl. Komið frá Guði. Því uppspretta kærleikans er hjá Guði.
Eins og segir í I. Jóhannesarbréfi:
„Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ (I.Jóh.4:10)
Já Guð er miskunnsamur og elskar okkur, hvert og eitt (hverja og eina). Í því liggja gæði okkar.
En hvaða mynd höfum við af kærleikanum? Hann hefur stundum verið okkur konum fjötur um fót þar sem það hefur verið ætlast til þess að við værum svo góðar og kærleiksríkar. Og oftar en ekki höfuð við fengið skakka mynd af honum.
Ég veit ekki hvernig þú túlkar kærleikann en stundum hef ég á tilfinningunni að sumir túlki orðið þannig að það merki að […]