Prédikun Arndísar Linn í jólaguðþjónustu Kvennakirkjunnar í desember 2017í Háteigskirkju.
Uppi á bláum boga, bjartar stjörnur glitra
Norðurljósin loga, leiftra, iða, titra
Jólaklukkur klingja, hvíta foldu yfir.
Hátíð inn þær hringja, hans sem dó en lifir. (AGJ)
Já jólahátíðinni hefur verið hringt inn. Steikinn er kólnuð, skrjáfið í umbúðapappírnum þagnað, kertin eru brunnin upp. Andrúmsloftið breytt. Eftir annasaman aðdraganda hefur helg og heilög kyrrð jólanna smám saman færst yfir. Henni fylgir ró, friðsæld, kannski tilfinning um að nú sé allt nokkurn veginn eins og það á að vera, eins og það ætti að vera – og hvert okkar vildi ekki halda í þessa tilfinningu eins lengi og við mögulega gætum – að allt yrði áfram svolítið fullkomið, afslappað, fyrirhafnarlaust, pínu himneskt.
En hvað er hún þessi upplifun sem við skynjum á jólum, upplifuna af að geta dregið djúp að sér andann og fundið ró, helgan frið og sanna gleði í hjartanu? Er hún kannski feginleiki yfir að aðdragandi jólanna sé loksins búin eða skynjum við að hún snúist um eitthvað meira og risti dýpra, snúist um einhvers konar leyndardóm – eitthvað sem er heilagt.
Hvað með þennan umtalaða dreng sem fæðist aftur og aftur og hefur breytt heiminu.
Komdu, Við skulum krjúpa saman við jötuna. Hvað sjáum við?
Það er eins og tíminn stöðvist eitt augnablik þegar nýr einstaklingur fæðist í heiminn. Því fylgir undrun og lotning yfir lífinu og skapara þess. Undrun og lotning yfir einhverju sem við náum ekki alveg utanum en skynjum að er mikilvægara en allt annað.
Og Þarna liggur hann, Jesús sjálfur og ilmar eins og ungabarn þrátt fyrir óþefinn í fjárhúsinu allt í kring. Það skín frá honum helg og hlý birtann þrátt fyrir myrkrið allt í kring.
Það var ekki pláss fyrir hann, ófæddann þetta fyrsta kvöld í gistihúsinu. […]