Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Jólaguþjónusta í Háteigskirkju 27. desember 2015
Veljum að vera eins og Jesú á jólanóttina í Betlehem
Gleðileg jól. Tölum um Betlehem. Um hirðana í haganum sem heyrðu englana syngja og segja þeim að fara að sjá frelsarann. Og um vitringana og um Maríu og Jósef. Þau sem voru í fjárhúsinu á jólakvöldinu vissu öll hver Jesús var. Þau vissu að smábarnið í jötunni var Guð sem skapaði alla veröldina. Hún var komin til þeirra og alls heimsins.
Hugsum okkur að við séum einhver þeirra í fjárhúsinu. Hver viltu vera? Ég sting upp á því að við hugsum okkur að við séum Jesús, smábarnið í jötunni
Er það ekki of mikið fyrir okkur að þykjast vera Jesús? Er það ekki hrokafullt og alveg út í bláinn?
Nei, það er ekki hroki. Jesús sagði sjálfur að við gætum ekki tekið á móti öllu því stórkostlega og undursamlega sem hann vildi gefa okkur nema við yrðum eins og börn. Og hann sagði að við skyldum vera í sér og þá myndi hann fylla hjarta okkar og allt líf okkar myndi verða fyllt af vináttu hans.
Á jólanóttina hvíldi Jesús í umhyggju og ást fólksins sem Guð gaf honum. Svo hélt hann áfram og gekk inn í lífsstarf sitt. Við gerum það líka. Hann gekk út í flókna og hættulega veröld. Við gerum það líka. Hann samdi sér lífsstíl. Við gerum það líka.
Það skiptir mestu máli hvernig lífsstíl við semjum. Það eru margar aðferðir og þær fara eftir margvíslegum viðhorfum. Við veljum úr því sem við heyrum og lærum og því sem við hugsum sjálfar. Það skiptir mestu hvað við hugsum. Ég segi það aftur og aftur og líka að þess vegna skiptir það öllu hverju við trúum. Af því […]