Prédikun í Háteigskirkju 28. desember 2014 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
Gleðileg jól kæru vinkonur og vinir
Í upphafi var Guð
Í upphafi var uppspretta alls, sem er
Í upphafi var Guð sem þráði
Guð sem andvarpaði
Guð sem hafði fæðingarhríðar
Guð sem fæddi
Guð sem fagnaði
Og Guð elskaði það sem hún hafði gert
Og Guð sagði ,,Það er gott „
Carter Heyward
Þannig hljómar upphafið að altarisgöngubæn guðfræðingsins Carter Heyward þar sem hún vísar til upphafs heimsins, sköpunarsögunnar sem líst er í upphafi Gamla testamentisins, þar sem ítrekað er bent á að Guð leit á allt sem hún hafði skapað og sá að það var harla gott.
Einhverjum árþúsundum síðar var Guði ljóst að fólkinu sem hún hafði skapað gekk misvel og meiri segja nokkuð illa að horfa til þess góða í sköpuninni og í hvert öðru.
Guð sá að hún yrði að gera eitthvað róttækt í málinu – grípa inní – taka málin í sínar hendur til að endurnýja tengsl mannkynsins við ást sína, góðvild og sköpunarkraft. Til að færa mannkyninu frelsun og von.
Á jólum komum við saman til að fagna þessu inngripi Guðs. Við fögnum því að Guð kom sem Jesú og leitaðist við að finna kærleika sínum farveg og kenna fólkinu í heiminum að elska hvert annað eins og hún elskaði þau.
Og Guð fæddist sem Jesú Kristur frelsari heimsins og vissi að það var harla gott.
Við þekkjum sögu Jesú, frá jötu til grafar. Þrátt fyrir alla dýrðina sem sagan hefur sveipast gegnum árhundruðin var hún í upphafi ekki saga dýrðar, heldur miklu frekar saga um von í vonlitlum aðstæðum.
Það var sannast sagna vonlítið að vera úthýst og fæðast í fjárhúsi.
Og þegar Jesús hóf að boða ríki Guðs mætti hann háði og spotti bæði guðfræðinga og samtímamanna sinna, þeirra sem töldu sig vita og höndla […]