Guð vonarinnar – Prédikun í Háteigskirkju 28. desember 2014

Prédikun í Háteigskirkju 28. desember 2014 – Arndís G. Bernhardsdóttir Linn

Gleðileg jól kæru vinkonur og vinir

Í upphafi var Guð
Í upphafi var uppspretta alls, sem er
Í upphafi var Guð sem þráði
Guð sem andvarpaði
Guð sem hafði fæðingarhríðar
Guð sem fæddi
Guð sem fagnaði
Og Guð elskaði það sem hún hafði gert
Og Guð sagði ,,Það er gott „
Carter Heyward

Þannig hljómar upphafið að altarisgöngubæn guðfræðingsins Carter Heyward þar sem hún vísar til upphafs heimsins, sköpunarsögunnar sem líst er í upphafi Gamla testamentisins, þar sem ítrekað er bent á að Guð leit á allt sem hún hafði skapað og sá að það var harla gott.

Einhverjum árþúsundum síðar var Guði ljóst að fólkinu sem hún hafði skapað gekk misvel og meiri segja nokkuð illa að horfa til þess góða í sköpuninni og í hvert öðru.

Guð sá að hún yrði að gera eitthvað róttækt í málinu – grípa inní – taka málin í sínar hendur til að endurnýja tengsl mannkynsins við ást sína, góðvild og sköpunarkraft. Til að færa mannkyninu frelsun og von.

Á jólum komum við saman til að fagna þessu inngripi Guðs. Við fögnum því að Guð kom sem Jesú og leitaðist við að finna kærleika sínum farveg og kenna fólkinu í heiminum að elska hvert annað eins og hún elskaði þau.

Og Guð fæddist sem Jesú Kristur frelsari heimsins og vissi að það var harla gott.

Við þekkjum sögu Jesú, frá jötu til grafar. Þrátt fyrir alla dýrðina sem sagan hefur sveipast gegnum árhundruðin var hún í upphafi ekki saga dýrðar, heldur miklu frekar saga um von í vonlitlum aðstæðum.

Það var sannast sagna vonlítið að vera úthýst og fæðast í fjárhúsi.

Og þegar Jesús hóf að boða ríki Guðs mætti hann háði og spotti bæði guðfræðinga og samtímamanna sinna, þeirra sem töldu sig vita og höndla […]

Prédikun í aðventumessu í Dómkirkjunni 7. desember 2014

Aðventumessa í Dómkirkjunni 7. desember 2014 – Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

Til hamingju með jólin.  Þetta er jólakveðja sem einn af ungum áhangendum Kvennakirkjunnar sendi á jólakortunum sínum.

Ég skila henni áfram.  Innilega til hamingju með jólin.  Það er stórkostlegt að eiga þau.  Þau eru til að halda það enn hátíðlegar enn aðra daga að Guð er komin og orðin ein af okkur – hún er Jesús, vinur okkar og frelsari.  Ekkert smá eins og sagt er.

Þetta er nú samt stórlega dregið í efa eins og við vitum allar.   Og ég fyrir mitt leyti hef velt því fyrir mér hvort Guð hefði ekki átt að velja aðra leið til að koma okkur til hjálpar.  Ef hún hefði spurt mig hefði ég sagt að hún skyldi ekkert vera að þessu.  Fólk ætti svo erfitt með að skilja það.  Það skautaði fram hjá því og talaði bara um hana sem eitthvað annað en Jesúm, svona eins Almættið eða Alla eða Búdda eða bara kærleikann ef ekki æðri mátt sem við skyldum endilega kalla hvað sem okkur sýndist.  Ég hefði sagt henni í fullri hreinskilni að fólk vildi ekki binda sig við eitthvað svona þröngt eins og bara Jesúm, það vildi hafa þetta víðara.

Ef hefði orðið úr þessu samtali okkar Guðs tel ég fullvíst að hún hefði sagt að hún hefði aldrei nokkurn tíma hugsað sér að velja aðra leið.  Og nú skyldi ég taka hennar ráðagerðir fram yfir mínar og treysta sér betur en mér.  Treysta því að hún væri víðsýnni en fólkið sem ég talaði um.   Og þá hefði ég sagt:  Já, takk, ég ætla bara að gera það.  Hvað hefðir þú sagt?  Ábyggilega það sama.

Hugsum nú um þetta – af því að þetta er áreiðanlega satt:  Líf allrar […]

Ég fyrirgef þér – vilt þú ekki gera það líka? Prédikun í Laugarneskirkju 9. nóvember 2014

Prédikun Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn í guðþjónustu í Laugarneskirkju.

Ég fyrirgef þér – vilt þú ekki gera það líka?

Biblíutextinn sem ég ætla að tala út frá í dag er úr Lúkasarguðspjalli þar sem sagt er frá því að einn daginn var Jesús að kenna vinum sínum og vinkonum. Í hópnum var kona. Hún hafði verið veik í átján ár. Hún var öll kreppt og gat alls ekki rétt úr sér. Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: ,,Kona, þú ert laus við það sem hrjáir þig“ svo lagði Jesús hendurnar sínar ofurblítt yfir hana og um leið gat hún rétt algjörlega úr sér. Og hún upplifði frelsi og þreyttist ekki á að láta alla í kringum sig vita hvað Guð væri góð og hversu megnug hún væri. (Luk 13:10 – 13)

Fyrir nokkru heyrði ég örstutta sögu sem hefur setið í mér og mig langar að segja ykkur. Einu sinni voru nokkrir pínulitlir fuglsungar, nýkomnir úr eggjunum sínum sem fóru á námskeið til að læra að fljúga. Fyrstu dagana æfðu þeir sig í að hoppa um. Næsta dag byrjuðu þeir að teygja út vængina og blaka þeim hægt og rólega. Svona gekk þetta dag eftir dag þangað til þeir höfðu allir náð góðum tökum á fluginu og gátu brunað milli trjánna á fullri ferð. Þar sem þeir voru orðnir fullfleygir var námskeiðið búið og það var haldin útskrift. Foreldrum þeirra var boðið  og við hátíðlega athöfn fengu allir ungarnir viðurkenningarskjöl. Þegar útskriftin var búin stungu ungarnir viðurkenningarskjölunum undir vængina og löbbuðu heim.

Ég held við getum heimfært þessa sögu uppá svo margt í lífi okkar jafnvel  trúna okkar og traustið sem við berum til Guðs.  Lífið færir okkur ótalmörg verkefni, það er endalaus […]

Frelsið sem við fáum í fyrirgefningunni. Prédikun í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 19. október 2014

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði 19. október 2014
Í predikuninni í dag ætlum við að tala um fyrirgefningu og frelsi. Þess vegna skulum við heyra um þessi vers úr Matteusarguðspjalli og Jóhannesarguðspjalli
Jesús sagði aftur og aftur : Syndir þínar eru fyrirgefnar. Hann sagði það við fólk sem hann hitti á förnum vegi og barðist við vanda sinn og hann sagði það við sinn eigin hóp sem fylgdi honum. Heyrðu nú, sagði þá fólk í kring, hvað heldur hann að hann sé. Heldur hann að hann sé Guð, Það er bara Guð sem getur fyrirgefið syndir.
Og Jesús sagði: Já, ég er nefnilega Guð og þess vegna hef ég vald til að fyrirgefa syndir,.
Hann sagði: Ég er kominn til að leita að hinum týndu og frelsa þau.
Og hann sagði: Ef ég geri ykkur frjáls þá verðið þið frjáls.
Þess vegna skrifaði Páll í Galatabréfinu: Jesús frelsaði okkur til að gera okkur frjáls.
Þess vegna skulum við standa við það og láta ekki aftur eins og við eigum að bera ok og ánauð.
Amen
Takk fyrir  góði Fríkirkjusöfnuður að halda þessa guðþjónustu með okkur i Kvennakirkjunni.  Það er alltaf jafn gott að vera með ykkur.  Og takk fyrir, séra Einar, fyrir góðu orðin þín í upphafi um samstarfið við Kvennakirkjuna og 40 ára vígsluafmæli mitt.  Við sem héldum afmælið saman erum svo glaðar að okkur finnst að fólk ætti að halda afmæli við og við til að rifja upp gleði áranna og tala um hin góðu verkefni sem bíða okkar.

Við getum litið á hverja einustu guðþjónustu og allar samverustundir safnaða okkar sem afmælishátíð.  Það er ólýsanleg hamingja að vera í hópi sem hittist hjá Guði og talar um hana og við hana og hlustar á hana og syngur með henni.  […]

Ávextir trúarinnar – Prédikun í Seltjarnarneskirkju 14. september 2014

Prédikun í Seltjarnarneskirkju 14. september 2014 Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
Markúsarguðspjall 4. 26 – 32 – að hætti Kvennakirkjunnar:

Jesús sagði okkur þessa dæmisögu: Guðríki er einsog kona sem sáir fræi í jörð. Og þegar hún hefur gert það heldur hún áfram sínu daglega vafstri, bæði sefur og vakir og sinnir verkefnum sínum. Á meðan dafnar fræið og vex – alveg án þess að hún skipti sér af því og hún skilur ekkert í hvers vegna það gerist. Það grær nefnilega allt sjálfkrafa í jörðin, fyrst spýrar fræið, svo læðist upp lítil planta sem að lokum verður stór og ber ávöxt. Og þegar ávöxturinn er orðinn fullþroska, hvort sem hann nú heitir bláber, jarðaber, sólber eða rifsber eða eitthvað allt annað þá setur konan á sig garðhanskana og fer út að safna uppskerunni.

Og Jesús sagði líka: Við hvað eigum við að líkja Guðsríkinu? Hvernig eigum við að lýsa því? Jú Guðsríki er í raun eins og eitthvert smæsta fræ í heimi, svo lítið að þegar því er sáð er það litlu minna en rykkorn. En þegar búið er að sá því í mold, vex það og dafnar og verður stærra en allar aðrar jurtir og fær svo stórar greinar að fuglar himinsins geta hreiðrað um sig í skuggum þeirra. 
 

Haustið er að koma og við í Kvennakirkjunni söfnumst saman til að fanga með Guði og fagna hver annarri . Við fögnum uppskeru haustsins, gleðjumst yfir því  sem hefur vaxið og dafnað þetta sumarið hvort sem það nú er í garðinum okkar, í blómapottunum á svölunum eða í hjarta okkar.

Uppskera og ávextir, Fræ og sáning eru stór þemu í Biblíun, hvort sem við lítum til gamla testamentisins eða þess nýja. Þar er talað um  fræ sem skrælna, fræ sem […]

Prédikun í Messu í Laugardalnum 19. júní – Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Nú eigum við afmæli, sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Lýðveldi er að eiga valdið saman og valda valdinu. Það er stórkostlegt að búa í lýðveldi þótt við vitum og sjáum svo mætavel að ekki auðnast okkur alltaf að ráða við valdið.
Hvers vegna heldur þú að það sé? ÉG held að það sé af því að við ráðum ekki alltaf við sjálf okkur.
Það ganga margskonur sögur um spillinguna í lýðveldinu og okkur grunar oft að það sé bara eðlilega að ekki nokkur manneskja geti ráðið við sjálfa sig í svona þjóðfélagi. En þetta er auðvitað mesta vitleysa. Tign, frelsi og fögnuður lýðveldisins gnæfir himinhátt yfir alla vitleysu.
Það er samt margskonar vitleysa í gangi og ég ætla að nefna þetta: Það er samkeppnin, samanburðurinn og eineltið. Ég þarf ekki að tala meira um það því við þekkjum þetta öll. Og við þekkjum sektarkenndina sem ofsækir okkur af því að þetta skuli vera svona án þess að við ráðum við það. Og við þekkjum kvíðann sem sest að okkur af því að við munum ekki ná tökum á þessu – þessu og ýmsu öðru sem ætti ekki að viðgangast í lýðveldinu.
Það var sagt í lok síðustu aldar að þessi öld yrði öld kvíðans. Og hún er öld kvíðans. Hérna, í okkar eigin frjálsa og góða lýðveldi, er svo mikið af kvíða að því verður ekki með orðum lýst. Úr því að kvíðinn er svona víða og svona umfangsmikill og djúpur – og af því að hann er meira að segja yfirþyrmandi hjá börnum, þá hljótum við að vera að gera eitthvað vitlaust í lýðveldinu. Hvað heldur þú?
Ég nefni aftur það sem ég sagði áðan: Eineltið, samanburðinn og samkeppnina. Hvað nefnir þú?
Og ef við gætum minnkað það sem við sjáum […]

Elína Hrund prédikaði við upphaf prestastefnu

Biðjum með orðum séra Hallgríms Péturssonar:

Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá bestu,
blessuð hans orð sem boðast þér,
í brjósti og hjarta festu. Amen.

Náð sé með okkur og friður frá Guði skapara okkar og Jesú Kristi frelsara okkar. Amen.

Það var fjölmennt við morgunverðarborðið á prestssetrinu á Reykhólum í morgun. Þar sem morgnarnir byrja vanalega í kyrrð og ró var skemmtilegur erill. Það var ekki hellt  upp á einn bolla af kaffi heldur fulla könnu og morgunverðardiskarnir voru 8 en ekki einn. Það varð fjölgun upp á 7 manneskjur af báðum kynjum og á öllum aldri.  Við vorum öll að búa okkur undir ferðalag dagsins, stefnan var tekin á stefnuna, prestastefnuna á Ísafirði.

Og það er gott að vera komin hingað í dag,horfa yfir hér úr prédikunarstólnum og sjá öll þessi kunnuglegu andlit, við erum heppin að eiga hvert annað að.

Það er gott að vera prestur hér í Vestfjarðarprófastsdæmi þó erfitt sé fyrir okkur prestana hér að hittast til skrafs og ráðagerða. Fresta hefur þurft hérðasfundum fram á haust v.ófærðar að vori og hittingum ýmiss konar og  við sem erum á sunnanverðum kjálkanum ,,skreppum“ ekkert til að hitta kollegana hér fyrir norðan. Það er gott að vera hér prestur m.a. v. sögunnar: Því það var fyrir rétt 40 árum að hjón nokkur komu í eitt prestakall prófastsdæmisins og vildu fá að skoða kirkjuna og prestssetrið.
Formaður sóknarnefndar,sem þá var úti að stússa í garðinum spurði karlinn hvort hann hefði hug á að sækja um prestsembættið. Nei, sagði karlinn, það er konan.
Ekki er það verra, sagði formaðurinn þá. Og varð konan fyrst kvenna til að hljóta prestsvígslu á Íslandi og eru 40 ár í ár, hinn 29. september frá því að sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð fyrst kvenna […]

Feginleiki léttisins – Prédikun í Garðakirkju 18. maí 2014

Prédikun Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Garðakirkju 18. maí 2014
Komið til mín öll sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld. Takið á ykkur mitt ok og lærið af mér, því ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þið finna sálum ykkar hvíld. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt. 11. 28-30
Í kvöld ætlum við að tala um feginleika léttisins. Það er gott umræðuefni í vorinu þegar brúnin léttist á veðrinu og sjálfum okkur og öllu í kringum okkur. Hvað er feginleiki léttisins? Það er það þegar við verðum svo fegnar yfir því að sleppa undan einhverju sem hefur íþyngt okkur. Þú veist hvernig það er, af því að þú hefur áreiðanlega fundið það margsinnis í venjulegum og sérstökum dögunum. Þegar þú slappst. Þegar hugur þinn léttist. Þú þekkir tilfinninguna. Ég þarf ekki að lýsa henni. En það er gott að rifja hana upp því hún er yndisleg.

Þú átt það skilið að láta þér líða vel. Þú átt það alltaf skilið, en það er ekki alltaf hægt, eins og þú veist. Stundum verðum við að þola það að láta okkur líða illa, hafa áhyggjur, kvíða fyrir, sjá eftir, skammast okkar og hver veit hvað. Það er hluti af lífinu, stundum nauðsynlegt, svo nauðsynlegt að við megum ekki skorast undan því, því þá gerist ekki það sem þarf að gerast okkur og öðrum til góðs. En það er stundum alveg ónauðsynlegt, mesta vitleysa, ekkert nema vitleysan í sjálfum okkur. Við sjáum eftir á að við enn höfum við ekki lært að láta smámunina vera smámuni en látum þá verða að ógn og yfirþyrmingu. Ætli við lærum ekki smátt og smátt að hætta að láta smámunina þjaka […]

Föstudagurinn langi á Skólavörðuholti – Prédikun í Dómkirkjunni 2014

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Lesum um föstudaginn langa í frásögu MarkúsarHermennirnir fóru með Jesú inn í höllina,  kölluðu saman alla hersveitina, færðu Jesú í purpurakápu  og fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð hans.  Þeir tóku að hæða hann og segja:  Heill sér þér, konungur Gyðinga,  og slógu hann í höfuðið og hræktu á hann.   Þeir leiddu hann út til að krossfesta hann.Þeir fóru með hann til Golgata og krossfestu hann.  Tveir ræningjar voru krossfestir með honum.  Þau sem gengu fram hjá hæddu hann, eins gerðu æðstu prestarnir og fræðimennirnir gys að honum og þeir sem voru krossfestir með honum smánuðu hann líka.  Á hádegi varð myrkur um allt landið.  Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.  Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt.Þannig hljóðar hið heilaga orð Guðs sem blessar okkur.  Amen
Í dag ætlum við að tala um föstudaginn langa.  Þá hékk Jesús á krossinum í sólarbreyskjunni með glæpamönnum, sárþyrstur og einmana og öllu svo lokið að honum fannst meira að segja að Guð hefði yfirgefið sig.

Við höldum áfram frá síðustu predikun þar sem við skildum við Jesúm þegar dyrnar lokuðust á eftir honum þegar hann var leiddur inn í dómssalinn við Lækjartorg.  Það var sama kvöldið sem hann hélt síðustu veisluna með fólkinu sínu og fór svo út í Alþingisgarðinn til að tala við Guð.  Og þar var hann handtekinn.

Og nú tölum við um föstudaginn langa og hugsum okkur að við séum komin upp á Skólavörðuholt.   En Jesús er ekki krossfestur.  Hann er ekki dæmdur í fangelsi.  En það á að taka hann í sundur.  Það á að eyðileggja mannorð hans, svo að það verði talað hroðalega um hann í fjölmiðlum og yfir kaffibollum um allt landið .  Fólk á að  fyrirlíta hann svo að  hann […]

Prédikun í Seltjarnarneskirkju 16. mars 2014

Við lesum í dag um síðustu daga Jesú eins og er skrifað í Matteusarguðspjalli.  Það er sagt frá óvild yfirmannanna og fastmælum þeirra um að ráða Jesú af dögum.  Við lesum um ferð hans til Jerúsalem með vinkonum sínum og vinum, kvöldmáltíðinni og handtökunni og dómi Pontíusar Pílaltusar.  Meðan Pílatus sat á dómstólnum komu boð frá konu hans:  Láttu þennan réttláta mann vera.  En Pílatus dæmdi Jesú til dauða.
Í dag ætla ég að segja ykkur sögu eins og stundum.  Það er sagan sem við heyrðum í ritningarlestrinum, sagan um síðustu daga Jesú.  Ég er að hugsa um að staðfæra hana eins og mér finnst ég geta.  Jesús fæddist og starfaði norður í landi svo við hugsum okkur að hann hafi fæðst hérna fyrir norðan, á Dalvík, og flust svo til Húsavíkur og safnað að sér hópnum fyrir norðan, Öllu sem er frá Húsavík og Stefaníu úr Eyjafirði Aðalheiði, Þórlaugu og Margréti, Auði Jónasar, Huldu, Döllu, Solveigu Láru og Sigríði Mundu, Bryndísi og Svanfríði og Sólrúnu.  Þær og fleiri, konur og menn, fara með Jesú um allt, halda samkomur, tala við fólk hvar sem er og eru í sjálf í sífelldum boðum.  Það er svo gaman og svo margt fólk flykkist að þeim þótt þau verði líka fyrir meira og meira aðkasti og ógnunum frá Klúbbnum.  Ég held við getum bara kallað faríseana og aðra yfirmenn Klúbbinn,  því við getum ekki hermt hugsanir þeirra og verk þeirra upp á nokkrar manneskjur hér.

Svo mitt í öllu þessu skemmtilega og undursamlega starfi fer Jesús að tala um að fara suður.  Það verða mínir síðustu dagar, sagði hann.  Hann sagði reyndar að hann yrði krossfestur, en það er ekki hægt að segja núna, nú eru engir krossfestir hér.  En […]

Sífellt samstarf okkar og Guðs – Prédikun í Neskirkju í febrúar 2014

Guð gaf mér fótfestu á bjargi. Guð er bjarg mitt og björgun.  Hún gefur mér öryggi í göngulagi.
Guð er bjarg hjarta míns.   Þetta stendur allt í Davíðssálmum.  Og þegar Jesús kom sagði hann að hann væri sjálfur þetta bjarg.
Hann sagði:   Þau sem heyra orð mín og fara eftir þeim byggja líf sitt á bjargi.  Þótt steypiregn og stormar æði þá brestur líf þeirra ekki því það er grundvallað í mér.  Guð blessar okkur.  Amen
Hún á afmæli í dag – hún á afmæli í dag – hún á afmæli Kvennakirkjan – hún á afmæli í dag !
Gott að sjá ykkur hér í dag og Innilega til hamingju með afmælið.
Já hún er tuttugu og eins árs Kvennakirkjan. Hefur lifað tímana tvenna. Hún er eldri en internetið og  álíka gömul og gsm símar. En ólíkt þeim tækninýjungum sem hellast yfir heiminn byggir hún á gömlum, stöðugum grunni sem haggast ekki –– Guð er í dag sú sama og hún var í upphafi og sú sama og hún mun verða um alla framtíð. Traust og áreiðanleg. Guð er bjarg sem byggja má á eins og segir í barnasálminum.
Á þessu trausta bjargi, Guði sjálfri hefur Kvennakirkjan byggt. Strax í upphafi var stefnan skýr:  Í riti Kvennréttinda félags Íslands frá árinu 1993 segir Auður Eir í viðtali hjá Elísabetu ; ,,Kvennakirkjan á að vera vettvangur kvenna til að  móta eigin guðfræði, finna hana og lifa hana hversdags og spari.“ Auður segir jafnframt „Kvennaguðfræðin leggur fram hugmyndir sínar og spyr konur um líf þeirra, hugmyndir, lífssýn, vonir og vonbrigði. …… Allt er þetta sífellt samstarf okkar og Guðs.“ tilvitnun lýkur.
Í samstarfi við Guð hefur Kvennakirkjan síðastliðið 21 ári lagt boðskap kristinnar trúar fram á ferskan, einlægan og aðgengilegan hátt sem talar til […]

Það byrjar allt í sömu stöðunni – Prédikun Auðar Eir 19. janúar í Laugarneskirkju

Það byrjar allt í sömu stöðunni
Predikun í Laugarneskirkju 19. janúar 2014
Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Við heyrum í kvöld úr fyrstu köflum Markúsarguðspalls þar sem Jesús segir að hann sé kominn til að gera allt nýtt.  Ég er kominn til að stofna Guðsríkið, sagði hann, og til að bjóða ykkur til að vinna þar með mér:Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd.  Breytið hugsunum ykkar  og trúið fagnaðarerindinu.  En Guðsríkið er eins og sinnepskorn.  Þegar því er sáð í moldina er það smærra öllum öðrum sáðkornum.  Ef þegar því hefur verið sáð tekur það að spretta og verður öllum jurtum meira.  Það fær svo stórar greinar að fuglar himinsins geta hreiðrað um sig í skugga þess.Þessu sáðkorni er sáð í hjörtu ykkar.  Gætið nú að því.  Gætið þess að varðveita það.  Og næra það.  Og láta ekki áhyggjur og daglegt amstur bera það ofurliði.  Gætið þess, svo að það beri undursamlegan ávöxt í lífi ykkar.  Amen
Gleðilegt ár.  Nú byrjar allt upp á nýtt.  Eins og við flettum blaðsíðu eftir jólin og í upphafi meiri birtu.  Við erum samt svipaðar og það sem við segjum núna er svipað því sem við sögðum í desember.  Stundum þegar ég hlusta á mínar eigin predikanir finnst mér ég  alltaf segja það sama og ég verði að fara að finna eitthvað nýtt til að segja við okkur.  En samt þurfum við alltaf að segja það sama, aftur og aftur.  Við hittumst til að segja hver annarri að Guð elskar okkur og allt líf okkar byggist á því.
Arndís lét spegil ganga á milli okkar í síðustu messu og bað okkur að gá hvað við sæjum.  Við sjáum að við erum vinkonur Guðs, sagði hún.  Við sjáum í speglinum ást Guðs sem er með […]