Við erum komin til Betlehem. Við berumst með straumnum á götunum sem eru yfirfullar af gestum frá öllum landinu og höfum ekki hugmynd um að í einu húsi í borginni er Guð komin sjálf til að taka þátt í lífi okkar. Hún er smábarnið yndislega sem var lagt í jötuna og ekki nokkur manneskja veit af nema María og Jósef og hirðarnir frá Betlehemsvöllum og vitringarnir frá Austurlöndum.
Hvers vegna komu hún? Hún sem átti alla veröldina og hefði getað gert við hana hvað sem henni sýndist. Hún hefði einfaldlega getað fleygt henni þegar hún sá hvað hún var orðin ómöguleg og langt frá því sem hún var sköpuð til að vera. Svo hefði hún geta skapað allt upp á nýtt. Af því að hún gat allt og átti allt og réði öllu. Veistu hvers vegna hún kom? Veistu af hverju Guð kom og varð Jesús? Já, þú veist það og hefur alltaf vitað það. Alveg síðan þér var sagt það þegar þú varst lítið barn sjálf og hirðar og vitringar í ýmsum myndum fólksins í kringum þig gáfu þér gjafir og sögðu þér þann einfalda og yndislega sannleika að þú værir yndisleg manneskja. Þau vissu að þú varst stundum óþekktarormur en þau elskuðu þig samt, elskuðu þig innilega. Það var þess vegna sem Guð kom. Af því að allt fólkið hennar sem gerði svo ýmislegtsem það átti ekki að gera var samt yndislegt. Og hún elskaði það innilega og það hvarflaði ekki að henni að gera það að engu og búa til allt upp á nýtt. Það verður seinna. Það að hún búi allt til upp á nýtt. En þá verðum við öll með í því. Og hún gerir það ekki af því að hún […]