Gleðileg jól góða fólk. Guð blessar okkur. Ég vona að jólin hafi verið þér góð og þú hafir glaðst í trú þinni. Yfir jólaguðspjallinu sem barst okkur einu sinni enn með undursamlegan boðskap sinn. Einu sinni enn heyrum við jólaguðspjallið í kvöld og hugleiðum englasönginn á Betlehemsvöllum. Og ferð hirðanna inn í fjárhúsið þar sem þau sáu Jesúm. Guð var komin, frelsarinn var fæddur. Nú varð allt nýtt.
Ættum við að hugsa okkur að við stæðum hérna fyrir framan kirkjuna eða kannski úti á Klambratúni hérna rétt hjá eða uppi í Öskjuhlíð sem er líka svo nálægt? Allar saman í kvöldmyrkinu. Og þá heyrum við englana syngja. Fyrir okkur. Og bjóða okkur til að fara og sjá Jesúm. Og við förum niður í Þingholtsstræti þar sem við hittumst fyrr í Kvennakirkjunni. Það er svo einfalt að hugsa okkur að við göngum þar inn af götunni. Og þar eru þau, María og Jósef og þetta undursamlega litla barn. Eða gætirðu hugsað þér að það væri heima hjá þér? Að þú værir þar í grenndinni með öllu fólkinu þínu og allri stórfjölskyldunni og vinkonum og vinum. Og englarnir syngja og þið farið öll heim og þar er Jesús nýfæddur af því að þið gáfuð þeim Maríu og Jósef húsaskjól.
Það er svo gott að hafa leyfi til að flytja þennan mikla heimsviðburð inn í okkar eigið líf. Og njóta hans eins og allar aðrar manneskjur um alla veröldina fyrr og síðar mega gera og hafa gert, svo margar svo margar, og orðið öllum hinum til blessunar með trú sinni. Af því að viðburður jólaguðspjallsins hefur breytt allri veröldinni. Ekki höfðu hirðarnir hugmynd um það hvernig fagnaðarerindið sem þau heyrðu á völlunum og í fjárhúsinu átti eftir að fara um […]