Náð Guðs er með okkur. Það er yndislegt að fá að hittast hérna í kvöld. Koma inn úr kuldanum inn í hlýja Dómkirkjuna og njóta jólaljósana í rökkrinu. Njóta nærveru hvert annars í nærveru Guðs, heyra jólaguðspjallið og tónlistina. Gleðileg jól. Ég ætla að segja ykkur þrjár jólasögur í kvöld.
Fyrsta jólasagan er svona: Fjóla og Finna voru litlar stelpur sem bjuggu hérna í grenndinni, uppi í Þingholtunum og gengu í Miðbæjarskólann. Þær voru alltaf saman, fóru í kellingaparís og kallaparís og stikk og sto og alla leikina sem krakkarnir fóru í. Svo leið tíminn og Finna fór til Ameríku en Fjóla bjó hér heima. Fjóla lenti í miklum erfiðleikum. Og Finna tók sér flugfar heim og kom til Fjólu til að bjóða henni alla þá hjálp og nærveru sem hún gat veitt henni. Og hún gat veitt henni mikið. Allar minningarnar og traustið og vináttuna frá góðu æskuárunum sem gátu huggað Fjólu og stappað í hana stálinu til að sýna henni hvað hún hafði verið dæmalaust flott stelpa og var það enn. Finna gat líka gefið henni ráð. Og hún gat gefið henni fjárráð, því Finna var rík og umsvifamikil og fræg í Ameríku. En Fjóla þáði ekkert af þessu. Hún tók Finnu kurteislega en afar fálega. Og þáði ekkert, hvorki fé né ráð né nærveru. Ég veit ekki meira um þessa sögu, veit ekki hvernig hún fór, hvernig það fór með Finnu og hvernig það fór með Fjólu. Finnst þér þetta furðuleg jólasaga? Gleðisnauð? Hversdagsleg og óhæfandi á jólunum? Ég myndi ekki hafa sagt þér hana í kvöld nema af því einu að hún stendur í jólaguðspjallinu. Samt ekki um Fjólu og Finnu heldur um Guð og allar manneskjur veraldarninnar. Þetta er ekki jólaguðspjallið […]
Jólamessa í Dómkirkjunni 2007
Prédikanir 2007
Dagur Orðsins í Gafarvogskirkju. Prédikun 11. nóvember 2007
Prédikanir 2007
Náð Guðs er með okkur og við finnum nálægð Guðs í nálægð hvert annars. Það er mikil vinátta sem þið góðu prestar og starfsfólk og safnaðarfólk Grafarvogskirkju sýnið mér í dag. Og þið sem tókuð til máls áðan. Og þið öll sem eruð komin. Ég þakka ykkur innilega og met það mikils. Við í Kvennakirkjunni höfum fundið vináttu safnaðarins hér í hvert skipti sem þið lánið okkur kirkjuna til að halda guðþjónustur og það vill svo fallega til að í haust, áður en við vissum af þessari guðþjónustu vorum við búnar að fá kirkjuna til að guðþjónustu í kvöld og við þökkum fyrir það eins og ævinlegar.
Við vitum öll af eigin hvað það er mikil uppörvun að eiga vináttu annarra. Hún gerir líf okkar svo traust og skemmtilegt. Við skulum öll láta vináttu hinna sem sitja hér í messunni með okkur umlykja okkur og ná inn í hjarta okkar. Það er þess vegna sem við erum komin og þess vegna sem kirkjan er til, til að kalla okkur saman til að hitta Guð og finna vináttu hennar og heiðurinn sem hún sýnir okkur. Og fara með þessar góðu tilfinningar heim með okkur og nota þær og njóta þeirra. Það er það sem Biblían segir okkur. Þegar ég fékk nýju rauðu flauelisklæddu Biblíuna í nýrri þýðingu ákvað ég að láta nú verða af því sem ég hef svo lengi hugsað mér. Það er að lesa hana eins og hún væri að gerast núna. Ég ætlaði að hugsa mér að Jesús byggi á Grettisgötu. En svo fannst mér betra að hugsa mér að hann byggi í Þingholtsstræti af því ég þekki Þingholtsstrætið meira. Og þegar ég var farin að lesa Markúsarguðspjall svona sá ég að ég gat […]
Hann er hún sem kom og frelsar okkur – líka frá streitunni. Prédikun 14. október 2007
Prédikanir 2007
Það er eitt það allra besta sem við eigum að fá að vera með fólki sem vitnar um trú sína. Segir frá henni. Segir hvernig það treystir Guði bæði í meðbyr og mótlæti. Eða það finnst mér. Af því að það gefur okkur hinum í kringum þau ró og styrk sem við þurfum að eiga í daglegu stússinu – hvað þá heldur í kvíðanum, sorginni og æsingnum. Og í gleðinni, fagnandi og yndislegri sem við skulum alltaf þakka Guði fyrir og njóta og njóta.
Þú veist hvernig það er, dagarnir eru alla vega eins og við segjum hver við aðra aftur og aftur. Og það er gott að segja það. Af því að við viljum alltaf láta hver aðra og hvert annað vita að við vitum það öll að lífið er alla vega og að við biðjum hvert fyrir öðru. Og að gleðin kemur alltaf aftur þótt stundum syrti svo verulega að það er eins og það verði ómögulegt að gleðjast aftur.
Á hverjum degi alla vikuna hef ég hitt fólk sem hefur sagt okkur í kringum sig frá nærveru Guðs í lífi þess. Það er ólýsanlega gott. Á mánudaginn hittumst við hjá sjálfum okkur á Laugaveginum á námskeiðinu um Galatabréfið og á mikvikudaginn hittumst við í bænastundinni í hádeginu. Og hina dagana hitti ég líka fólk sem sagði frá rótfastri og fagnandi kristinni trú sinni. Ég ætla að draga allar þessar frásögur saman í eina sem er um hana Guðrúnu í Guðrúnarsöfnuðinum.
Guðrún var þjóðkirkjukona sem stofnaði sinn eigin hóp í þjóðkirkjunni, alveg eins og við gerum í Kvennakirkjunni. Hún hafði samkomur í Hörgshlíðinni en þar áður í Hafnarfirði og bjó þar skammt frá með Salbjörgu vinkonu sinni í litlu timburhúsi. Þær buðu mér einu sinni í […]
Söfnumst saman til að gleðjast. Prédikun 9. september 2007
Prédikanir 2007
Nú hittumst við aftur eftir sumarið og söfnumst saman til að gleðjast. Alltaf þegar við hittumst er það í voninni og vissunni um að við förum allar ögn glaðari heim. Af því að við vitum af reynslunni fyrr og síðar að það er svo miklu betra að vera glaðar en að vera ekki glaðar. Ég er búin að hlakka til í marga, marga daga, hlakka til að hitta ykkur og sjá ykkur og heyra. Og svo tökum við upp nestið og grillum. Og förum héðan með stóra sneið af gleðinni sem við finnum hérna hver meða annarri og hvert með öðru. Og notum hana í kvöld og á morgun og í öllum hinum dögunum sem bíða okkar.
Ég ætla að tala um þrennt í dag. Af því að lúterskir guðfræðingar hafa óskaplega tilhneigingu til að tala alltaf um eitthvað þrennt, eins og trúarjátningin um þrenninguna talar í þremur greinum. Og við erum allar lúterskir guðfræðingar og tökum á móti þrennum skilaboðum þegar þau bjóðast. Í fyrsta lagi ætla ég að tala um markmiðið. Við Sigrún Gunnarsdóttir erum nefnilega af gefnu tilefni að lesa saman ýmsar bækur. Við lesum bækur hvor annarrar og í hennar bókum les ég að öll meiri háttar fyrirtæki verði alltaf að hafa markmið. Þá fer ég að hugsa um okkur sem meiri háttar fyrirtæki, ég hugsa nefnilega alltaf um okkur þegar eitthvað gott ber á góma. Og ég fór að hugsa hvaða markmiði ég gæti stungið upp á í dag þegar við hittumst hérna í yndislegri Heiðmörkinni eins og við gerðum í fyrrasumar. Það hefur ýmislegt gerst síðan þá og við höfum notið sameiginlegrar gleði sem er svo gott að hugsa um. Svo datt mér markmiðið í hug. Mér datt þetta í […]
Hamingjugarðurinn – prédikun við Þvottalaugarnar 19. júní 2007
Prédikanir 2007
Innra með okkur og í umhverfinu allt um kring eru stórkostlegar uppsprettur lífsgæða. Snemma í morgun, í dag og í kvöld hér í Laugardal eru uppsprettur lífsgæða, gamlar og nýjar, í sjálfum okkur, í samskiptum okkar og síðast en ekki síst í anda Guðs, sem býr með okkur öllum. Verkefni okkar er að tengjast uppsprettunum, taka eftir þeim, sjá þær, skynja þær og taka við þeim.
Í uppsprettum lífsgæðanna eru tækifæri. – Við getum spurt: • Hversu vel sjáum við tækifærin í aðstæðum okkar? • Sjáum við tækifærin í samskiptum okkar við aðra? • Sjáum við tækifærin í því sem aðrir geta og gera? • Og í því sem við sjálf getum og gerum? • Njótum við þess að tengjast anda Guðs? Við erum stödd í einum af fallegustu görðum Íslands. Hvernig líst ykkar á að líta á líf okkar sem garð? Að horfa á líf okkar sem garð sem við ræktum? Líta á líðandi stund og verkefni hennar sem okkar eigin garð, og verkefnið er að rækta garðinn okkar. Líta svo á að í garðinum séu margir möguleikar til að rækta, margar jurtir, margs konar blóm og tré, og við sjáum ræktunarmöguleikana og tökum ákvarðanir. • Hvað getum við ræktað og hvað getum við ekki ræktað? • Hvað viljum við rækta og hvað ekki í okkar eigin garði? • Hvaða plöntur viljum við vernda og hlúa að? • Hverju viljum við sleppa og hafa alls ekki inni í garðinum okkar? • Þurfum við að færa til plöntur – nær eða fjær? • Ættum við að reita arfann í garði okkar eigin huga – og henda illgresinu? Séra Auður Eir hefur búið til vísu um svona tilfæringar og tiltektir. Hún mælir með því að taka öðru […]
Gleði vorsins. Prédikun 20. maí 2007
Prédikanir 2007
Um vor kemur mér í hug liljan í holtinu, sem ég mun koma betur að síðar, um leið og Rannveig Guðmundsdóttir nefnir frumbyggja í Kópavogi og ég hugsa til gróðurs í friðaða holtinu fyrir ofan hús foreldra minna. En mér er einnig ofarlega í huga vorið í Prag 1968, breyting, bylting, hreyfing. Gróður kemur auðvitað einnig í hugann, nyjabrum, eitthvað sem vex og umhverfist loksins, grasið grænkar, hlutir breytast, fjötrar leysast.
Núna eftir fall Berlínarmúrs og járntjalds er næstum ómögulegt að hugsa sér að allan þennan tíma höfum við látið það viðgangast að fólk væri svipt ferðafrelsi, skoðanafrelsi og öðrum mannréttindum svona rétt hjá okkur. Um daginn fannst mér stórskrítið að sjá gagnkvæma stigagjöf milli Serba og Króata í Evrópsku Söngvakeppninni. Þesar þjóðir áttu í blóðugu, hatrömmu stríði fyrir skemmstu. Við sem bjuggum rétt hjá gerðum ekki neitt. Konurnar sem stóðu við krossinn þegar hræddu karlarnir höfðu allir hlaupið í felur, urðu vitni að hatri gagnvart Jesú. Þær urðu vitni að undarlegri lagaframkvæmd hins dásamlega rómverska ríkis, og þær gátu ekkert gert. Eða hvað? Þær gerðu það sem þær gátu. Þær voru þarna. Þær fóru hvergi, heldur voru hjá Jesú og hann hjá þeim og þær héldu áfram sinni þjónustu, þessar þrautseigu konur frá Galíleu. Í þeirra huga varð ekki gjá sem þarfnaðist flókinnar guðfræðilegrar brúargerðar, heldur héldu þær einfaldlega áfram verki Jesú, að leita að hinu týnda, finna það og færa til Guðs. Slík störf sjást kannski varla fyrr en þau leggjast af. Ég segi þetta og hugsa t.d. um heimilisstörf sem eru endalaus, aldrei búin og enginn tekur eftir nema maður hætti að tína sokkana upp af gólfinu, setja þá í þvottavél, upp á snúru og svo í skúffu. Ég er samt aðallega að […]
Allt er orðið nýtt. 70 ára afmæli sr. Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Prédikun 21. apríl 2007
Prédikanir 2007
Við völdum okkur þessa yfirskrift yfir messuna: Allt er orðið nýtt. Samt kem ég ekki til með að segja neitt nýtt í þessari messu. Ég segi alveg það sama og við segjum í hverri einustu messu og hverju einasta námskeiði sem við höldum saman í Kvennakirkjunni. Við höldum margskonar námskeið og sum þeirra heita: Vertu flott. Mundu að þú ert yndisleg manneskja og vinkona Guðs.
Og á þessum námskeiðum um það hvað við erum yndislegar og frábærar manneskjur förum við að draga það fram sem okkur finnst gera okkur óyndislegar og ófrábærar. Við sækjum dimmar hugsanir okkar inn í hjarta okkar og leggjum þær á borðið, stundum í vetrarmyrkrinu, stundum í vorbirtunni eða sumarsólinni. Við hellum öllu sem við viljum úr huga okkar og biðjum hinar að líta á það með okkur. Þú veist hvernig það er, þótt þú komir aldrei nokkurn tíma á námskeið Kvennakirkjunnar, því hvar sem við erum og hver sem við tölum við erum við öll að einhverju leyti alveg nákvæmlega eins. Ég var hérna í kirkjunni í síðustu viku með þeim sem fylgdu henni Guðbjörgu mömmu hennar Ingibjargar okkar Guðmundsdóttur síðasta spölinn. Við sungum um trú okkar og ég hugsa að við höfum öll fundið að það er svo ótal margt sem við eigum saman í lífinu og dauðanum og upprisunni. Svo gekk ég niður í bæ og fór í bankann. Og þar átti ég það líka sameiginlegt með þeim sem voru þar að standa og bíða eftir gjaldkeranum og fara svo aftur út í miðbæinn sem beið eftir okkur öllum. Ég gekk upp Amtmannsstíginn, fram hjá gamla KFUM og K húsinu og gegnum göturnar þar sem ég ólst upp. Og fann einu sinni enn, eins og á hverjum einasta degi, […]
Þegar Guð kom í fermingartíma. Prédikun 11. mars 2007
Prédikanir 2007
Þessi messa eins og allar aðrar messur eru hið gullna tækifæri til að endurnýja hugsanir okkar. Við komum með áhyggjur okkar og tölum um þær við Guð meðan við syngjum og biðjum og hlustum í nærveru hinna. Og við komum með gleði okkar og þökkum Guði fyrir hana. Þú veist það áreiðanlega af reynslunni hvað það er óendanlega gott að hugsa um það sem gengur vel hjá okkur, hugsa til þess sem við höfum bara gert svo ljómandi þokkalega, og til gleðinnar sem við höfum haft af því.
Og hugsa um fólkið sem hefur verið vænt við okkur og við höfum heldur glatt en hitt. Það er fátt eins gott og að fá að vera með verulega góðu fólki, þótt það sé ekki nema að fá að vera nálægt því, hvað þá að vinna með því eða búa með því, sagði hún Karen Horney sem var ein af þeim sem stofnuðu til nútíma sálgreiningar. Hvernig líður þér í kvöld? Naustu dagsins eða glímdirðu við eitthvað erfitt eða dauflegt? Það er sem oftast sitthvað af ýmsum sortum í dögunum. Eða hvað finnst þér? Ég held að það verði aldrei öðru vísi. Og ég held það sé betra að sjá það. Við glímum alltaf við eitthvað Ég segi enn og aftur eins og maðurinn frá Húsavík. Það er alltaf eitthvað. Og ef það er ekki eitthvað þá er það bara eitthvað annað. Ég held að það skipti mestu hvað við hugsum um þetta allt. Það skiptir alltaf mestu hvað við hugsum. Hvernig við tökum lífinu. Hvernig við mætum mótlætinu sem sneiðir ekki hjá einu einasta af okkur, og hvernig við njótum lífsins þegar það er svo gott að vakna og byrja daginn, og þakka fyrir hann þegar næsta […]
Virkjum innri kraft kvenna. Prédikun 21. janúar 2007
Prédikanir 2007
(Þetta er hvorki auglýsing fyrir Félag guðfræðinga né fyrir Fjölbraut í Garðabæ. Ég kem að þessum kassa rétt á eftir, en ég ætla að stilla honum upp hérna). Ég veit ekki hvernig ykkur leið þegar þið komuð hingað í kvöld. Sumum ykkur líður ef til vill bara nokkuð vel, lífið er bara ljúft á meðan að aðrar eru áhyggjufullar og eiga erfitt með að koma auga á dásemdir lífsins. Svona er þetta bara og svo getur þetta snúist við á morgun.
Við burðumst oft á tíðum með allt of margar birgðar í gegnum lífið. Við berum með okkur það sem við áttum einu sinni, það sem við eigum núna og það sem við komum til með að eiga. Ég las einu sinni skemmtilega sögu en hún var um þrjár konur sem allar þurftu að burðast með misþunga poka um hálsinn í gegnum lífið. Af hverju endilega um hálsinn fylgdi ekki sögunni enda er það alls ekki aðalatriði sögunnar, heldur er aðalatriðið hvernig þessar þrjár konur tókust á við byrgðar sínar. Allar höfðu þær tvo poka. Annan bundinn þannig að hann lá framan á magann og hinn þannig að hann lá niður eftir bakinu Fyrsta konan var algjörlega að bugast. Í pokanum sem hún bara á bakinu var allt það góða sem komið hafði fyrir hana í lífinu. Í pokanum sem hékk framan á henni voru allir slæmu hlutirnir sem höfðu komið fyrir hana. Stundum þá staldraði hún við og opnaði magapokann og tók upp úr honum þessa slæmu hluti og skoðaði þá og hugsaði um þá og setti þá svo aftur ofan í pokann og batt fyrir. Hjá annarri konunni voru allir góðu hlutirnir sem hún hafði gert um ævina í magapokanum. Henni fannst þeir svo […]