Í fyrra á aðventunni hitti ég eina vinkonu mína á förnum vegi. Hún hafði ekki tíma til að tala við mig heldur hljóp áfram og sagði: ,,Ég hef ekki tíma til þess að tala við þið núna, ég á eftir að skreyta allar jóagjafirnar, kaupa allt húsið, baka jólakortin og skrifa smákökurnar.”
Þessi sama vinkona mín kom til mín núna í nóvember og sagði mér að hún gæti ekki hugsað sér að upplifa aðra eins aðventu og í fyrra. Svo ég ákvað að gefa henni nokkur einföld ráð og í kvöld ætla ég að gefa ykkur þessi ráð og ég vona að þið getið notað þau eins og vinkona mín. Sem sagt þá ætla ég að segja ykkur í kvöld hvernig ég og Guð njótum aðventunnar saman.
Við byrjum á því að fara í blómabúð eða einhverja aðra búð sem selur kerti. Mér finnst voða gott að fara í Blómaval vegna þess að ég bý hérna í hverfinu. Þegar við komum inn í búðina þá göngum ákveðnum skrefum að kertadeildinni og kaupum okkur kerti með piparkökulykt eða einhverri annarri kökulykt. Ég keypti t.d. þetta kerti núna í vikunni, það er með svona kryddlykt, ekkert ósvipaðri lykt og kemur af nýbökuðum piparkökum.
Það næsta sem við gerum er að fara út í búð þ.e. svona matvöruverslun, helst í Bónus eða Krónuna, því það er hagstæðast fyrir budduna okkar, en annars ráðið þið því alveg í hvaða búð þið farið. Þegar inn í búðina er komið þá gangið aftur þessu ákveðnum og öruggu skrefum að hillunum þar sem allar dásamlegu tilbúnu smákökurnar eru. Allar tegundirnar sem búið er að baka fyrir okkur. Þið kaupið nokkrar sortir, allt eftir því sem ykkur langar í og líst á. Það er mjög sniðugt […]