Ræða Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Seltjarnarneskirkju 18. febrúar 2024

,

Auður Eir Vilhjálmsdóttir
ræða í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Seltjarnarneskirkju
sunnudagskvöldið 18. febrúar 2024

Þetta er afmælismessa.  Við erum 31 árs.  Og ætlum að spyrja hver aðra hvað við gerðum í 31 ár.  Ég treysti því að þú haldir ræðuna með mér.  Eins og alltaf.  Allar ræður eru okkar ræður.

Í stuttu máli þá tókum við hver aðra að okkur og pössuðum að okkur liði öllum vel.  Það er ekki alltaf hægt, sögðum við, stundum getur okkur ekki liðið vel og við skulum taka því.  Við sögðum hver annarri að Guð huggar og hughreystir, gefur okkur hugrekki og gleði og fer aldrei og trúir alltaf á okkur.  Hún þarfnast okkar eins og við þörfnumst hennar.  

Við hittumst aftur og aftur og alltaf í öll þessi ár.  Til að vera saman hjá Guði og hver með annarri.  Við lásum Biblíuna og báðum og sungum sálmana með Öllu, buðum gestum til að segja okkur margt og mikið og fórum í ferðalög.  

Einu sinni kom frábær kona og talaði um sálfræði.  Hún sagði að við ættum grundvöll í sjálfum okkur þar sem tilfinningar okkar væru eins og fræ sem yxu upp í huga okkar.  Við værum eins og tveggja hæða hús.  Við töluðum um það, vissum að við erum alltaf tilbúnar til að taka á móti þekkingu um sjálfar okkur.   Það er einfaldlega af því að við viljum sjálfum okkur og hver annarri allt það besta. 

Það skiptir svo miklu máli að við skiljum sjálfar okkur.  Við töluðum um það á mánudaginn var hvaða orð við vildum hafa um það þegar okkur liði vel með okkur sjálfum.  Við vorum sammála um að við skyldum vera sáttar við okkur.  Við gætum sagt að við værum ánægðar með okkur, værum í jafnvægi eða hvíldum í […]

Messa í Dómkirkjunni 7. desember 2003

Friður Guðs sé með ykkur. Mig langar til að tala um þessi orð í Jóhannesarguðspjalli:
(Jóh. 1.9) Hið sanna ljós sem upplýsir hverja manneskju kom nú í heiminn.
Eftir þetta góða sumar og milda haust veit ég að ég er ekki ein um það að hafa hugsað fyrir ekki svo löngu: Misminnir mig? Er ekki óskaplega dimmt hérna á veturna? Á morgnana var bjart þegar við í fjölskyldunni vorum að fara í skóla og vinnu. En svo gerðist þetta, og það ótrúlega hratt, að það varð kolniðamyrkur. Alveg rétt! Hugsaði ég; svona er þetta, mig misminnti ekki. Óskaplega er myrkrið svart.

Þess vegna hefur Halla kerling verið mér ofarlega í huga undanfarið. Þessi úr Vísnabókinn, við gamla ljóðið:
Ljósið kemur langt og mjótt
logar á fífustöngum
Halla kerling fetar fljótt
framan eftir göngum.

Hún er lágvaxin, gömul, slitin og frekar alvarleg á svip. Jafnvel svolítið smeyk. Það er ábyggilega kalt í torfkofanum þar sem hún býr og kannski er hún þar hjú og hefur í sjálfu sér aldrei eignast neitt allan þann tíma sem hún hefur lagt hart að sér við vinnu sína. Langt og mjótt ljósið lýsir bara í lítinn hring i löngum ógnvekjandi en kunnuglegu göngunum. Bak við hana er langur skuggi sem umlykur hana. Hún fetar fljótt til að vera þar ekki of lengi.
Hún er formóðir okkar, þótt hún hafi kannski ekki átt neina afkomendur. Hún er hluti af forsögu okkar samt. Hefur unnið mikið, fengið lítið hrós kannski, enga upphefð, lítur ekki stórt á sig og býst ekki við miklu.

En hið sanna ljós, sem upplýsir hverja manneskju, var að koma í heiminn. Orðið, sem var í upphafi hjá Guði, er að fara að verða manneskja eins og við, ætlar að fara að deila kjörum með okkur. Um það hugsum […]

Messa í Neskirkju 26. október 2003

Ávarp: Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Feministafélags Íslands

Predikun: Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Yndislegt að sjá ykkur í þessari sameiginlegu messu Kvennakirkjunnar og Femínistafélags Íslands. Látum nú fara vel um okkur því ég ætla að segja okkur sögur.

Fyrsta sagan er um Gunnu og Sunnu. Sunna er menntuð og reynd í skrifstofuvinnu og bankastörfum. Hún hefur góða vinnu og gleðst og fagnar, en hún man það enn þegar henni var sagt upp. Það eru tuttugu ár síðan og henni var sagt að það hefði ekkert með hana að gera, það væri bara verið að hagræða. Og þegar Sunna var ögn farin að ná sér fór hún að sækja um önnur störf, sem hún fékk aldrei. Og þótt hún reyndi að hugsa með sér að það hefði ekkert með hana að gera fór hana að gruna að það væri það nú samt. Það varð erfiðara og erfiðara að opna blöðin til að fara yfir auglýsingarnar, hringja í ráðningarstofuna og fara í þau örfáu viðtöl sem buðust. Og Sunna sá að bráðum myndi hún gefast upp. En þá fékk hún vinnu. Hún hefur tvisvar skipt um vinnu síðan og henni líður vel. En hún geymir inni í sér minninguna um þetta allt, og ætlar aldrei að gleyma henni.

Gunna er prestur í þjóðkirkjunni og hefur oft og tíðum sótt um ýmis embætti eins og er gert í kirkjunni. Því er hætt núna að láta þau sem sækja um prestembætti vinna í margar vikur við að heimsækja fólk fyrir kosningar í von um að persónulegur ljómi þeirra verði að atkvæðum á kjördegi. Nú ganga umsækjendur fyrir nefndir og bíða svo úrslita. Það er ekki lengur persónulegur ljómi sem veldur úrslitum heldur ríkja reglur til að vernda umsækjendur og kirkjuna fyrir áföllum. En Gunna naut […]

Messa í Fella- og Hólakirkju 28. september 2003

Biðjum:
Elsku Guð! Gef okkur hljóðan hug þegar þú talar í hjarta okkar, gef að við finnum boðskap þínum farveg í orði og verki. Amen.

Ég byrja þessa prédikun á tveimur líkingum. Líkingarnar eru sóttar í dæmisöguna sem Jesús sagði af sáðmanninum. Ég skoða þessa sögu hér frá öðru sjónarhorni. Mig langar að biðja ykkur að opna augum fyrir þessu líkingamáli og setja ykkur í spor þeirrar persónu sem talar í líkingunni.

Ég er akur:
Guð kemur til mín á hverjum morgni og sáir yfir mig heilögum anda sínum. Sama hvaða dag það er kemur hún alltaf til mín og reynir af öllum mætti sínum að rækta mig, sem er akur hennar. Guð bregst ekki, er alltaf eins og ætíð jafn örlát á anda sinn. Það er ég, akurinn, sem er breytileg. Suma daga er ég grýtt og hróstug og Guði gengur illa að plægja mig. Ég get ekki meðtekið andann, treysti mér ekki til þess. Sný mér undan og þó ég viti að ég er ekki ein, ég þykist ekki sjá sáðkonuna Guð. Ég neita að koma auga á tækifærin í fræinu. Ekkert af því sem mér er gefið þennan morgun ber sýnilegan ávöxt í dag. Ég ætla heldur ekkert að gera í því. Ég bara get ekki opnað mig, það er ekki hægt að rækta mig í dag. Guð er heldur ekkert að stressa sig yfir því, hún kemur aftur á morgun, fer eflaust blíðlegar að mér og gefur mér önnur tækifæri.
Aðra daga er ég frjósöm, ég tek Guði fagnandi, opna mig fyrir anda hennar og stíg brosandi fram úr rúminu. Verk plógsins er auðvelt í dag. Ég tekst með bros á vör við verkefni dagsins. Ég blómsta og til mín kemur fólk sem hefur orð á […]

Messa við þvottalaugarnar í Laugardal 19. júní 2003

Er Guð kona? Ég býð okkur til hugleiðinga um spurninguna í kvöld. Og þess vegna fór ég niður á Laugaveg til að spyrja nokkrar manneskjur sem gengu þar í gleði dagsins í dag.Svörin voru svona:
Útilokað. Jesús sagði að Guð væri faðir.
Óþarfi. Guð er andi og hvorki í kvenkyni né karlkyni.
Áreiðanlega. Og sem betur fer.
Og ég tek undir svar 3, áreiðanlega og sem betur fer.

Hvað segir þú? Hugsum um það hvað við eigum að segja við því að Jesús kenndi okkur að biðja Faðir vor og talaði um Guð sem föður. Við eigum að segja að Jesús talaði líka um Guð sem konu. Það er ekkert víst að hún hafi verið móðir, en hún var kona sem bakar brauð og sópar gólf.

Og hvað eigum við að segja um svar tvö, að það sé óþarfi að tala um Guð í kvenkyni af því að það sé ekki hægt að tala um Guð í kvenkyni eða karlkyn? Við eigum að spyrja þau sem gáfu svarið hvers vegna þau tali þá alltaf um Guð í karlkyni? Og ef það skiptir engu máli, hvers vegna er þá verið að mótmæla því að tala um Guð í kvenkyni?

Jesús talaði um Guð í kvenkyni, og þess vegna er það ókristilegt og á móti boðskap Jesú að tala ekki um Guð í kvenkyni. Þegar Guð skapaði heiminn sagði hún að hún skapaði bæði konur og menn í sinni mynd. Og talaði ekkert um mismunandi völd eða verkaskiptingu. Svo kom syndafallið og varð að feðraveldinu. En svo kom Jesús. Hann sagði það sem engin manneskja hafði sagt áður. Hann sagði að bæði konur og menn ættu að vera eins og Guð hafi skapað þau, jöfn hvert öðru, yndisleg og falleg. Hann sagði svo ótrúlega […]

Messa í Grensáskirkju 18. maí 2003

Við skulum biðja: Guð minn og Guð þinn: Kenndu okkur að leita til þín í sorgum okkar og í gleði okkar. Hjálpaðu okkur að taka ávallt skref í þá átt að verða betri manneskjur. Kristur; gefðu að við munum boðskapinn sem þú færðir okkur; að elska hvert annað, að dæma ekki, að óttast ekki. Amen.
Kæru vinkonur og vinir. Gamall maður sem átt hafði í langri og strangri veikindabaráttu, sagði við mig fyrir skömmu. Væna mín, mundu mig um það, er þú verður prestur, að tileinka þér ekki væmni í orðum og atferli. Eitthvað fannst þessum aldna heiðursmanni að væri um það, að prestar kæmu sér upp slíku viðmóti. Ég, sem vil vera töff, lofaði að passa upp á þetta. Þegar ég var að semja þessa prédikun, leituðu þessi orð á mig. Afhverju? Er eitthvað í okkur sem finnst það vera væmið sem er okkur mikils virði og sem okkur finnst gott og yndislegt. Ég held að það eigi stundum við mig. Mig langar að tala um trú í kvöld og ætla þá bara að vera svolítið væmin. En ég held samt að það sé þannig, að ef talað er í einlægni og frá hjartanu verði það ekki þannig. Og ég ætla að tala frá hjartanu. Trúin hefur breytt svo miklu í mínu lífi. Í sorgum og áföllum get ég í dag leitað í hana og fundið huggun. Huggun og þar af leiðandi styrk sem ég vissi ekki um áður. Þessi uppgötvun verður til þess að það kviknar löngun til að verða þess megnug að hjálpa öðrum til að finna þetta líka. Fyrir nokkrum árum átti ég ekki trú. Í dag á ég hana og það hefur verið æfintýri lífs míns að fá trú á Guð, […]

Í Hallgrímskirkju, Pálmasunnudag 13. apríl 2003

Við höfum heyrt sögu páskavikunnar. Um alla þessa miklu atburði sem gerðust. Um fólkið og frelsarann, það sem hann gerði og það sem það gerði. Hann ákvað að ganga á hólm við dauðann sem birtist í öllu lífinu. Og fólkið ákvað að gera ýmislegt. Þau sem elskuðu hann og vissu að hann var Guð sem var kominn til þeirra gátu ómögulega skilið hvað hann var að gera. Þau sem höfðu ekki hugmynd um það hver hann væri gerðu hitt og þetta eftir því hvaða dagur var og hvaða áróður lá í loftinu. Á pálmasunnudag vildu þau fá hann sem foringja en fjórum dögum seinna vildu þau krossfesta hann. Foringjar þjóðarinnar vildu losna við hann og Rómverjinn Pílatus sem átti að halda uppi rómversku réttlæti þorði það ekki en baðst persónulegri ábyrgð. Konan hans bað hann að standa með Jesú, en hann hlustaði ekki á hana.
Við sjáum sjálfar okkur í þessu öllu. Við tökum líka ýmsar ákvarðanir og hlustum á ýmsan áróður og þekkjum ekki sannleikann þótt við heyrum hann. Ekki alltaf en stundum. Stundum hlustum við rétt og hugsum rétt og segjum rétt og gerum það sem við sjáum líka seinna að var rétt. En stundum gerum við eitthvað sem okkur finnst vera rétt en finnst svo seinna að hafi verið rangt. Og stundum var það líklega rangt. En stundum var það næstum áreiðanlega rétt. Og við mættum sem best fagna og gleðjast yfir því. En við gerum það ekki allta, stundum höldum við áfram að hafa samviskubit og ásaka sjálfar okkur og aðrar manneskjur og gera lífið óþarflega þungbært.

Eða hvað finnst þér? Er þetta ekki bara einhvern veginn svona? Þetta merkilega líf sem við eigum sjálfar svo undursamlegan skerf af, og byrjar upp á […]

Messa í Laugarneskirkju 16. mars 2003

Komið þið sæl. Í Orðskviðum, sem er eitt af ritum Gamla testamentisins, er að finna mörg mögnuð vers. En orðskviðir merkir málsháttur eða spakmæli. Eitt þessara spakmæla í Orðskviðum á vel við í kvöld og hljóðar svona: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu“ (15.15). Sem sagt, þau sem eru sífellt að kvarta og kveina eiga erfitt með að sjá gleðina og birtuna sem eru allt í kringum okkur. En þau sem láta gleðina og birtuna sem hvílir í hjarta þeirra streyma fram, uppskera veisluhöld. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að lífið sé ekkert annað en veisluhöld.
Ég tel að stundum sé hægt að líkja lífsgöngu okkar við árstíðirnar, það skiptast á skyn og skúrir. Ágæt kona sagði einu sinni að erfiðu stundirnar geti líka verið nauðsynlegar til þess að minna okkur á þær góðu. Ef allar stundir væru góðar myndu þær fljóta framhjá án þess að við tækjum eftir þeim. Lífsganga okkar flestra er með þeim hætti að alvara lífsins bankar upp á hjá okkur fyrr eða síðar. Það er jafnvel hægt að tala um að það sé í eðli lífsins að mæta erfiðleikum. Það sé hluti af lífinu sjálfu. Við getum þá sagt að skýjabakkar byrgi okkur sólarsýn en vonandi bara um stundar sakir. Einhvern veginn finnst manni stundum að aldrei skíni sólin skærar en einmitt eftir hellidembu. Það er nefnilega þannig að það skiptir miklu máli hvernig við tökum erfiðleikum. Því miður getum við verið í aðstæðum sem við völdum ekki og því síður stjórnað. En við getum engu að síður ráðið miklu um líf okkar og einnig líðan. Mörg okkar eru gædd þeim hæfileika að geta séð hið spaugilega, […]

Afmælismessa í Neskirkju 16. febrúar 2003

Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með afmælið. Og takk fyrir síðast, á föstudaginn, þegar við héldum afmælisveislu í nýju stofunum okkar á Laugavegi. Og þið sem komust ekki þá eruð komnar núna – og það er yndislegt að við skulum vera hér saman, allar og öll.
Og eins og stundum ætla ég að byrja með að segja okkur sögu. Hún er af flutningunum miklu frá Þingholtsstræti á Laugaveg fyrir hálfum mánuði. Þá komu vaskar sveitir og settu í kassa og báru furuborðið og stólana og aðrar eignir okkar. Og sumar tóku upp úr eldhúskössunum og mitt í ys og þys flutninganna bökuðu þær vöfflur og þeyttu rjóma og hituðu kaffi og slógu upp veislu.

Hinar konurnar í Kvennagarði voru líka að flytja í sínar vistarverur og komu sér strax fyrir. En það tók mig alla næstu viku að taka upp úr skrifstofukössunum, velja og flokka, færa og henda og velja bækur og raða þeim í skápana sína. Það var margs konar ys í Kvennagarði og fólkið vorkenndi mér hlýlega fyrir þessa óskaplegu ringulreið. En fyrir mér var þetta engin ringulreið. Fyrir mér var þetta lausn. Og svo kom að því að ég var búin eins og hinar. Og á afmælisdaginn voru brauð og rósir bornar í húsið – og svo komuð þið. Þið komuð með meiri rósir og kertaljós og nærveru ykkar. Við sungum úr nýja heftinu og veislan var yndisleg. Starfið var byrjað í nýju húsi.

Svona var þessi saga. Og svo kemur næsta saga. Hún er um það að það var einhvern veginn svona sem við fluttum í Kvennakirkjuna fyrir tíu árum. Þegar við fórum að vinna saman í nýrri Kvennakirkju pökkuðum við niður ýmsum gömlum hugmyndum um okkur og lífið og Guð og […]

Ár yndisleikans – Í Seltjarnarneskirkju 19. janúar 2003

Kæru systur og bræður
Ég óska okkur öllum friðar og farsældar á nýju ári og þakka fyrir gamla árið. Umfjöllunarefni hugleiðingarinnar sem ég ætla að flytja er um Ár yndisleikans. Árið sem nú er að hafið, árið 2003.
Hvað merkir yndisleiki? Nýja íslenska orðabókin segir yndisleika vera ljúfa fegurð. Það að vera ljúf felur í sér að vera mild, blíð eða fús til einhvers. Og að una sér, að eiga unaðsstundir með öðrum og að lifa í yndi er eftirsóknarvert. Til þess að geta lifað í yndi og ljúfri fegurð hlýtur markmið okkar að vera elska til hvers annars í gegnum samskipti. Vinátta Guðs í lífi okkar gefur okkur möguleika. Látum lífið tala, látum vermæt gildi og sannleika leiða okkur til einingar. Segjum við fjölskyldu okkar, vinkonur og vini: Láttu mig vita ef þér líður ekki vel, ert einmanna eða finnst þú vera misskilin. Það veitir mér styrk að vita að ég get hjálpað eða huggað þig, staðið við hliðina á þér. Ég get ekki alltaf lesið hugsanir.

Guð hefur gefið okkur yndislegar gjafir, hæfileika sem við notum til þess að gera líf okkar gott og innihaldsríkt. Við erum svo yndisleg sköpun Guðs. Við leitumst alltaf við að finna ljósið ef hugur og hjarta okkar er dapurt. Í svartasta skammdeginu á síðasta ári, rigndi oft og það var svo mikið myrkur, að við ákváðum að gera eitthvað í því. Við settum upp jólaljósin mun fyrr en tíðkast hefur og þegar við litum yfir borgina glöddumst við í hjarta okkar yfir fegurð ljósanna og birtunni sem þau gáfu okkur. Tilefnið var vissulega jólahátíðin, fæðing Jesú í þennan heim, sem ávallt markar nýtt upphaf, og dögun nýrrar vonar, eins og allar fæðingar barna í þennan heim eru. Yndislegar væntingar og […]