Einu sinni enn hittumst við í jólaguðþjónustu til að segja hver annarri jólaguðspjallið. Við segjum af langri ferð þeirra Maríu og Jósefs og litla asnans þeirra yfir fjöllin alla leiðina suður til Betlehem. Og um mergðina í borginni sem fyllti öll herbergin og húsin svo að Jesús fæddist í fjárhúsi.
Við syngjum um englana á Betlehemsvöllum og hirðana sem heyrðu sönginn, allt í einu í næturkyrrðinni, þar sem þau voru búin að eiga nótt eftir nótt, kannski í fjölmörg ár, án þess að nokkuð gerðist. En þessa nótt heyrðu þau englasöng og fengu boð um að sjá Jesúm. Svo að þau fóru, og þau sáu Jesúm. Það voru bæði lífsreyndar konur og litlar stelpur í hópnum, og reyndir menn og litlir strákar. Og við heyrum um vitringana sem komu langar leiðir til að gefa Jesú gjafir. Þeir treystu stjörnunni og þeir hlustuðu á Guð sem sagði þeim að sniðganga refinn Heródes sem varð miður sín af ótta þegar hann heyrði um nýjan konung í landinu. Hann hlustaði ekkert á Guð. En ef hann hefði hlustað hefði hann heyrta hana sagja að Jesús væri allt öðru vísi konungur en hann og ætlaði aldrei að setjast í hans sæti. Og við syngjum enn meira um Jósef og Maríu, þau sem fyrst sáu Jesúm og fóru heim með hann og ólu hann upp. Við hlustum á flautuleikinn hjá Örnu og Hallfríði og sönginn hjá Aðalheiði og kórnum og hver annarri. Og við lyftum huga okkar upp úr fari hversdagsins.
Eins og alltaf þegar við hittumst. Við lyftum huganum alltaf upp úr farinu. Til að endurnýjast og gleðjast. Jólamessan er einstök með sérstökum hátíðleika sínum og frásögunni um fyrstu jólin. Sem við höfum heyrt um síðan við fæddumst. Og við getum […]