Séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Predikun í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Þingholtsstræti 17
sunnudagskvöldið 19. október 2019
Kristín las fyrir okkur úr 25. kafla Matteusar um meyjarniar tíu. Nú skulum hlusta á útskýringarnar sem Elizabeth Cady Stanton skrifaði í Kvennabiblíuna sem kom út 1895 og 1898. Kvennabiblían er útskýringar á köflum um konur í Biblíunni og hún er undristaða kvennaguðfræðinnar sem við höfum lesið saman öll okkar ár.
Elizabeth var konan sem stofnaði fyrstu kvenréttindasamtök Bandaríkjanna. Hún og vinkona hennar Lucretia Mott stofnuðu samtökin árið 1848. Lucretia var prestur kvekara og frábær kona. Elizabeth var alla ævi forystukona. Pabbi hennar var lögfræðingur og Elizabeth vann á lögfræðistofu hans en fékk ekki frekar en aðrar konur að læra lögfræði í skólum þótt konur væru komnar til mennta á mörgum sviðum. En hún lærði lögfræði á skrifstofunni og hét að helga líf sitt því að berjast fyrir réttlæti kvenna sem voru fótum troðnar og bjuggu við hörmulegt óréttlæti laganna. Hópur lærðra kvenna vann með henni að Kvennabiblíunni og ein, Júlía Smith þýddi Biblíuna úr hebresku og grísku. Starfshópurinn er vitni um að konur voru komnar til mennta. Öðrum menntakonum var boðið að taka þátt í þýðingunni en þær höfnuðu boðinu og töldu að frami þeirra myndi skaðast af samvinnunni. Sem var ugglaust laukrétt. Elizabeth sagði að það væri búið að segja svo mikið um ofbeldi Biblíunnar gagnvart konum að nú yrðu þær sjálfar að gá hvað væri satt í því.
Sagan um stúlkurnar tíu er um mikla skrúðgöngu brúðhjóna og þeirra sem var boðið í brúðkaupið. Þeim var boðið öllum stúlkunum tíu sem sagan segir frá.. Fimm voru tilbúnar til að fara í brúðkaupið en fimm voru það ekki. Það dróst fram að miðnætti að brúðhjónin kæmu og stúlkurnar voru allar orðnar þreyttar og sofnuðu þegar það dróst að boðið byrjaði. Þegar þær vöknuðu var slokknað á […]