Upplýsingar
Bæn Leiddu mig Guð – eftir þínu réttlæti, sestu niður með mér og rabbaðu við mig, gerðu beina brautina þína fyrir mér og gef mér ljós þitt svo ég sjái hvert ég á að stefna. Gefðu mér daglegt brauð og hjálpaðu mér við að fá að taka þátt í að baka það. Sendu mér áfram englana þína. Því að þú ert vinkona mín og vinur sem gengur með mér í gleði og sorg. Amen
Eins og fram kemur í fréttabréfi kvennakirkjunnar starfa ég sem aðstoðarskólastjóri í framhaldsskóla. Ég fæ því oft nemendur til mín í ýmsum erindagjörðum og oftar en ekki sem þurfa að fá hvatningu og ráð. Einn slíkur nemandi kom til mín nýlega og var frekar langt niðri, ég beitti samræðutækni og ýmsu uppbyggilegu til að veita henni sem besta þjónustu og hressa hana við, og smám saman sá ég að á henni lyftist brúnin. Ég hugsaði með mér að það sem ég hefði sagt hlyti að vera býsna snjallt. Spurði hana því, hvort að henni liði betur, en þá svaraði stúlkan og brosti einlæglega: „Ó, já, mér líður svo miklu, miklu betur AF ÞVÍ þú ert búin að brosa svo mikið framan í mig.“ …. Ég ætla nú samt sem áður ekki að láta duga að brosa bara framan í ykkur í kvöld.
Svona sendir Guð okkur engla sína til að kenna okkur. Nemandinn var þarna að kenna kennaranum. Englarnir birtast í nemendum okkar, samferðafólki okkar – fjölskyldu, samstarfsfólki, vinum, fólki sem við mætum á förnum vegi og göngum samferða á lífsleiðinni. Á lífsleiðinni sem er gangan frá fæðingu til dauða er svo mikilvægt að vera vel vakandi, eða hafa olíu á sínum lampa eins og hún Gunnbjörg Óladóttir ræddi um í síðustu messu Kvennakirkjunnar. Við berum sjálf ábyrgð á að fylla á lampana okkar. Guð hefur líka gefið okkur frelsi og ábyrgð til að velja ferðafélaga. Þá er ég ekki einungis að tala um fólk sem ferðafélaga, heldur ýmislegt sem við getum tekið með okkur á göngunni eins og og gleði, traust, hugrekki, elsku og fleira. Forðumst að velja hið illa eins og ótta, kvíða eða hatur. Við erum svo heppin að hvað sem á dynur eigum við Guð sem gengur með okkur og getur verið gott að fá að leiða þegar á brattann sækir eða veður og vindar herja á. Auðvitað er líka gaman að leiða Guð í lífsins gleði og hókí póki dansi.
Fundur í Kvennakirkjunni
Sl. miðvikudag gekk ég á fund Sr, Auðar Eir, en misskildi eitthvað fundartíma og mætti klukkan 4 en ekki 5, en „græddi“ helling á því þar sem ég fékk að vera með þeim Melkorku og Ara sem voru mætt stillt og prúð í fermingarfræðslu til Auðar. Fermingartíminn var skemmtilegur, ekki síst vegna þess að hann fólst aðallega í samverunni og brosunum – og sam- göngutúr niður Laugaveginn og í göngutúrnum mundi ég eftir ljóðinu hennar Auðar um vináttu Guðs sem er einmitt eins og blíður blærinn á Laugaveginum. Auður dreif sjálfa sig, mig og fermingarbörnin með sér í gönguferð niður í Kirkjuhús þar sem átti að hefjast útgáfuteiti vegna bókarinnar Sátt og Fyrirgefning, en Auður er ein af 85 höfundum hennar.
Umvafin vináttu Guðs af Laugaveginum gengum við inn í vináttuna í Kirkjuhúsinu. Í kirkjuhúsinu þáðum við kleinur og rjúkandi súkkulaði og þurfti ég að hafa mig alla við til að ruglast ekki og segja kakó sem var auðvitað móðgun við háverðugt súkkulaðið. Eftir súkkulaðidrykkju og notalegheit kvöddum við góða fólkið í kirkjuhúsinu og fórum aftur upp á skrifstofur Kvennakirkjunnar, að sjálfsögðu hjúpuð, næstum því súkkulaðihjúpuð, vináttu Guðs á Laugaveginum. Þar kvöddum við tilvonandi fermingarbörn, en kvennakirkjukonur mættu á staðinn; Aðalheiður söngstýra með meiru fór að dreifa sálmunum og við að syngja, en þegar ég fór að lesa textana sá ég að þar voru skilaboðin þau sömu og höfðu verið að berast mér áður.
Í sálminum sem við syngjum hér í kvöld eftir Hjálmar Jónsson stendur nefnilega: Á dimmri nóttu bárust boð um bjartan nýjan dag, Guð sendi engla sína til að syngja dýrðarlag. Hann framtíð jarðar börnum býr og boðar fögnuð þeim því kærleikur sem kuldinn flýr nú kom í þennan heim. Talandi um kulda og heitt súkkulaði ..
Vaffin fjögur
Hvernig talar þetta svo allt inn í yfirskrift messunar; Vaffin fjögur ? Eru ekki bara 3 Vaff í Von, væntingar og vináttá á aðventu. Nei, þau eru fjögur þar sem orðið aðventa má taka í sundur; að venta. At vænte på Dansk! At vænte þýðir auðvitað að bíða, eða vænta. Það er ekkert voðalega mikið í tísku að bíða, jafnvel þó að við vitum að þolinmæði sé dyggð. Það er svolítið inn að lifa í núinu og lifa hvern dag fyrir sig, enda alveg óþarfi að lifa daginn í dag á morgun og enn síðra að lifa daginn í dag í gær – því við þurfum heldur ekkert að bíða – fagnaðarerindið er að frelsarinn Jesús ER fæddur svo við getum notið nærveru hans á hverjum degi, líka á aðventunni.
Borgarleikhúsið.
Í Borgarleikhúsinu er verið að sýna leikritið um hann Jesú litla og ég hlustaði á viðtal við Halldóru Geirharðs leikkonu segja frá þessum litla Jesú. Hún minnti á barnið Jesú sem fyrirmynd vonar, fyrirmynd nýs upphafs og talaði um nýju börnin sem fæðast hvern dag og koma með nýja von á hverjum degi. En það hefur fleira verið að gerast í Borgarleikhúsinu undanfarið, t.d. fór ég þar á yndislega aðventutónleika með Ellen og KK og grét og fékk alveg gæsahúð því þau sungu svo fallega og tónlistin var svo ljúf. Tónlistin og söngurinn er enn ein birtingarmynd Guðs sköpunar og nálgunar vináttunnar. Systkinin Ellen og Kristján geislandi af kærleika sungu jólalög og sálma og þau sungu um ómissandi fólk sem kemur allsnakið í heiminn og fer allsnakið í burt, frá dauðu hlutunum, sem því finnst það hafa dregið á þurrt. Börn eru hrein og bein og áður en VIÐ spillum þeim, þurfa þau ekkert dót. Þau finna sér alltaf eitthvað til að gera að leik og það sem þau vantar frá okkur er alls ekki leikföng og dauðir hlutir, heldur samvera og tími fyrst og fremst, börn þurfa vináttu okkar á aðventu sem á öðrum tímum. Börn koma fram hrein og bein og eru góðir kennarar okkar sem eigum að teljast þroskaðri. Mikið værum við öll heiðarleg ef við kæmum fram sem börn – og Þjóðfundurinn ný-afstaðni undirstrikaði það að íslenska Þjóðin grætur eins og svangt ungabarn grætur eftir móðurmjólkinni, þjóðin hreinlega orgar eftir HEIÐARLEIKA.
Við heyrðum áðan lesið um ljós heimsins, mikilvægi þess að lýsa og dyljast ekki. Jafnframt var lesið um læki lifandi vatns, anda Guðs sem við tökum á móti og sem streymir frá hjarta okkar. Við verðum að huga að þessu ljósi okkar og huga að þessum lifandi lækjum hjartna okkar, Skína fyrir okkur sjálf, rækta vináttuna við okkur sjálf og fyrir annað fólk í kringum okkur. Það er alveg í samræmi við kjarna kristins siðferðisboðskaðar að elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf, elska EINS OG, ekkert meira en eða minna en. Elska EINS OG. Guð væntir þess af okkur að við elskum og virðum okkur sjálf til þess að við getum elskað náungann, væntir þess að við ræktum sambandið við okkur sjálf og að við höldum ljósinu okkar lifandi og lýsum sem aldrei fyrr. Aldrei er þetta gefandi ljós mikilvægara okkur Íslendingum heldur en einmitt núna í skammdeginu, nákvæmlega núna á aðventunni, nákvæmlega núna í kvöld. Það vantar ekki að við lýsum upp tilveruna með rafmagnsljósum og kertaljósum, en gleymum ekki, og alls ekki að leyfa okkar ljósi að skína skært og hylja það ekki því að þetta ljós er elska Guðs.
En hvað með væntingarnar okkar, ég er aðeins búin að minnst á vonina, vonina sem englarnir koma með á hverjum degi, en hvaða vesen er þetta með þessar væntingar alltaf. Enda ekki væntingar oft með því að þær bregðast okkur og verða því ekki að vonum heldur að von- brigðum? Nei, sem betur fer ekki og kannski getum við gert miklu meira af því að sjá sjálf um að uppfylla væntingarnar og gera ekki óraunhæfar og óhófsamar væntingar til annarra. Þá fækkar kannski vonbrigðunum. Aðfangadagur og gamlársdagur eru oft dagar mikilla væntinga. Stundum of mikilla væntinga eða kannski rangra væntinga. Alveg eins og hið lifandi jólatré er ekki fullkomið í sínum vexti verður aðfangadagur aldrei fullkominn í vexti. En mikið eru jólatrén alltaf yndisleg þegar búið er að setja á þau ljós og skraut. Þannig gerum við okkar aðfangadag, við setjum upp ljós og skraut. Búum til okkar dag. Sumu fólki kvíðir fyrir jólum vegna þess að þeim tengjast slæmar minningar. Stundum tengist það misnotkun áfengis. Sjálf hef ég átt erfið jól eftir skilnað, mörg hafa þurft að upplifa sín fyrstu jól eftir dauðsfall náins ættingja. Við finnum einhvern veginn mest fyrir breytingum á högum okkar á hátíðum sem eru yfirleitt hefðbundnar og tilhneygingin er að hafa þau alltaf eins..
En stundum er ekkert í boði að hafa það eins og þá þurfum við kjark til að taka breytingum fagnandi og gera öðruvísi. Það koma, sem betur fer, ný jól á hverju ári, við getum aldrei lifað jólin í fyrra aftur eða í hitteð fyrra. Silhouette filman verður þykkari eftir því sem fjær dregur. Jólin mín sem barn eru því orðin hoppandi hamingja böðuð í Sinalco. Það er reyndar yndislegt að eiga góðar og fallegar minningar. En það er líka dásamlegt að búa þær til.