Upplýsingar

(Þetta er hvorki auglýsing fyrir Félag guðfræðinga né fyrir Fjölbraut í Garðabæ. Ég kem að þessum kassa rétt á eftir, en ég ætla að stilla honum upp hérna). Ég veit ekki hvernig ykkur leið þegar þið komuð hingað í kvöld. Sumum ykkur líður ef til vill bara nokkuð vel, lífið er bara ljúft á meðan að aðrar eru áhyggjufullar og eiga erfitt með að koma auga á dásemdir lífsins. Svona er þetta bara og svo getur þetta snúist við á morgun.
Við burðumst oft á tíðum með allt of margar birgðar í gegnum lífið. Við berum með okkur það sem við áttum einu sinni, það sem við eigum núna og það sem við komum til með að eiga. Ég las einu sinni skemmtilega sögu en hún var um þrjár konur sem allar þurftu að burðast með misþunga poka um hálsinn í gegnum lífið. Af hverju endilega um hálsinn fylgdi ekki sögunni enda er það alls ekki aðalatriði sögunnar, heldur er aðalatriðið hvernig þessar þrjár konur tókust á við byrgðar sínar. Allar höfðu þær tvo poka. Annan bundinn þannig að hann lá framan á magann og hinn þannig að hann lá niður eftir bakinu Fyrsta konan var algjörlega að bugast. Í pokanum sem hún bara á bakinu var allt það góða sem komið hafði fyrir hana í lífinu. Í pokanum sem hékk framan á henni voru allir slæmu hlutirnir sem höfðu komið fyrir hana. Stundum þá staldraði hún við og opnaði magapokann og tók upp úr honum þessa slæmu hluti og skoðaði þá og hugsaði um þá og setti þá svo aftur ofan í pokann og batt fyrir. Hjá annarri konunni voru allir góðu hlutirnir sem hún hafði gert um ævina í magapokanum. Henni fannst þeir svo skemmtilegir að stundum tók hún þá upp úr og sýndi fólki. En í bakpokanum voru mistökin sem hún hef gert og hún bar þau með sér hvert sem hún fór. Þau hægðu að vísu aðeins á henni en hún gat einhvern vegin ekki alveg sleppt af þeim hendinni. Þriðja konan hafði allt aðra sögu að segja. Í fremri pokanum hennar geymdi hún allar jákvæðu hugsanirnar sínar og ánægju stundirnar í lífinu, allt það góða sem fólk hafði gert fyrir hana. Það var svo sannarlega ekki erfitt né þungt að bera slíka hluti með sér í gegnum lífið, Pokinn virkaði eiginlega eins og segl á skipi, gaf henni byr undir báða vængi og flaug með hana í gegnum lífið. En bakpokinn hennar var tómur, það var ekkert í honum. Hún hafði fyrir löngu klippt stórt gat á hann. Í þennan poka setti hún allar erfiðar hugsanir og áhyggjur, þær fóru inn um opið en út um gatið. Við berum öll einhvers konar poka, birgðar, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Sumar okkar setja allar neikvæðu hugsanirnar í magapokann í staðinn fyrir hinar jákvæðu og stundum endar það bara með því að við dettum flatar beint á andlitið. Sumar okkar eru með fullt af jákvæðum hugsunum í magapokanum en burðumst þó áfram með hinar slæmu á bakinu sem þá hægja á okkur. En svo eru það þær sem bara bera jákvæðar hugsanir í fanginu og eru búnar að klippa gat á bakpokann og takast á við lífið á jákvæðan hátt. Þær losna ekki alfarið við áhyggjurnar en þær láta þær ekki heldur íþyngja sér. Hvenær sem áhyggjur, angist eða kvíði læðast að okkar þá skulum við reyna setja það allt saman í bakpokann með gatinu. Þetta er í raun það sama og að leggja lífið í hendi Guðs. En þó við leggjum lífið í hendi Guðs erum við ekki lausar allra mála, við þurfum að takast á við lífið og allt sem því fylgir. En við tökumst ekki á við það einar heldur með Guði og leysum málin með henni og þá upplifum við frið Guðs, frið Guðs sem er æðri öllum skilingi eins og sagði í versinu sem hún Anna Gyða las fyrir okkur áðan. Allar áhyggjur og erfiðleikar og ys og þys lífsins falla í skuggann fyrir þessum tveimur orðum, friður Guðs. Allt okkar líf verður í Guði eins og við sungum áðan. Og þess vegna er ég með þennan kassa hér. F.G. þetta þýðir hvorki Félag Guðfræðinga né Fjölbraut í Garðabæ eins og ég sagði áðan. Þetta þýðir Friður Guðs og það þýðir líka Fyrir Guð. Í þessum kassa getur verið eitthvað sem er fyrir Guð en um leið og það er fyrir Guð þá færir það þér frið Guðs, hinn innri frið. Því Guð sagði að við gætum alltaf treyst henni og að hún væri alltaf með okkur. Við gætum gert allt saman og að hún þarfnaðist okkar alveg jafn mikið og við þörfnumst hennar. Ef það er eitthvað sem við ráðum ekki við getum við lagt það í hendi Guðs og hún mun sjáum um það fyrir okkur og með okkur. Um leið og við höfum sett áhyggjur okkar eða vandamál í kassann þá erum við ekki lengur einar um þau. Treystum Guði og tökumst á við lífið með öllum sínum margbreytileika, gleði og sorgum og upplifum frið Guðs í lífinu. Amen.