Upplýsingar

Loksins, loksins fæ ég að predika, ég er búin að bíða og bíða og mér liggur svo mikið á hjarta að ég ætla bara að byrja predikun mína á leiðinni upp í predikunarstólinn.

Ég veit ekki hvort þið vitið það en það er svo sárasjaldan sem guðfræðingar, og svo ég tali nú ekki um nýútskrifaðir guðfræðingar, fá tækifæri til þess að predika í kirkjum landsins að ég ætla svo sannarlega að nýta þetta tækifæri vel.

Mér finnst rétt að vara ykkur við, því að afleiðing þess að við erum beðin svo sjaldan að predika er sú að okkur hættir til að reyna að koma öllu fagnaðarerindinu fyrir í einni predikun og sé ég ekki ástæðu til að breyta út frá því og byrja því á byrjuninni: Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.

Nei að sjálfsögðu er ég að stríða ykkur pínulítið og byrja bara á Nýja testamentinu, það er svo miklu styttra. Nei nú skal ég hætta að hrekkja ykkur, þetta er ekki nema svona um það bil klukkustundar löng messa og ég má víst ekki tala allan tímann. Og samkvæmt rannsóknum þá heldur fólk yfirleitt ekki einbeitingu lengur í einu en í svona fimm til sjö mínútur þegar verið er að hlusta á talað orð. Fólk fer að láta hugann reika og orðið sem verið er að boða, ef um predikun er að ræða, fer fyrir ofan garð og neðan. Fólk fer að velta fyrir sér hvernig kirkjuvörðurinn skipti eiginlega um perur þegar þær springa eða hversu undarleg þessi altaristafla sé nú eða af hverju það sé ekki nein altaristafla.

En þegar ég fór að velta efni þessarar predikunar fyrir mér, en við höfum sjaldan í Kvennakirkjunni verið að eltast við fyrirfram ákveðnar textaraðir, þá kom textinn eiginlega til mín. Textinn sem hún Sigga okkar Magg las áðan úr Jóhannesarguðspjallinu þar sem Jesús er að undirbúa vinkonur sína og vini undir það að hann muni nú hverfa brátt úr þessum heimi og þess vegna er hann að brýna ýmislegt fyrir þeim. Hann talar m.a um gleðina og vináttuna. Í textanum úr Predikaranum, sem hún Steinunn las fyrir okkur, var talað um mikilvægi þess að styðja hvert annað, að ekkert okkar sé eitt og án vináttu. Þetta eru textarnir svona að mestu sem urðu kveikjan af þessari predikun, þó ég ætli nú ekki að leggja út af þeim, eins og okkur var kennt í Guðfræðideildinni, heldur eru þeir svona grunnur eða baksvið.

Gleðin og vináttan hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið, vináttan í gleðinni og gleðin í vináttunni. Vináttan á milli Guðs og fólksins hennar og vinátta þess hvert við annað. Ég er næsta viss um, að þó svo að ég hefði nú haldið áfram að útleggja fyrir ykkur alla Biblíuna, þá tel ég næsta víst að þið hefðu setið undir því smá stund, einmitt vegna þess að þið eruð vinkonur mínar (og ef ég er ekki alveg út að aka þá leynast hér líka nokkrir vinir) og það er stundum ótrúlegt hvað við leggjum á okkur fyrir vinahópinn okkar. Jesús lagði meira að segja líf sitt í sölurnar fyrir vinkonur sína og vini.

En það eru margar sögur í Biblíunni sem fjalla um vináttuna og um það hvað fólk var tilbúið að leggja á sig fyrir vinkonur sína og vini. Við getum t.d. tekið söguna um lama manninn, mér hefur alltaf fundist hún svo góð þrátt fyrir það að hún fjalli bara um karla. Vinir lama mannsins báru hann langar leiðir til þess að hitta Jesú. Þeir trúðu því að Jesús gæti læknað hann, en svo koma þeir að húsinu þar sem Jesú dvaldist og það var engin leið að komast að, það var allt fullt af fólki. Þið þekkið þessa sögu, þeir enduðu með vin sinn upp á þaki á börunum og þeir rufu gat á þakið og sandi, grjóti og leir rigndi yfir þau sem voru inni í húsinu og þar á meðal Jesú. Og Jesús tók ekki á móti þeim með skömmum eða fýlusvip vegna þess að hann var orðin grútskítugur heldur læknaði hann lama manninn og þeir gengu allir saman heim.

Það var ekki að ástæðulausu að Guð skapaði í upphafi tvær manneskjur svo þær hefðu félagsskap hvor af annarri. (Nú er ég búin að tala í u.þ.b. 6 eða 7 mínútur, nú skuluð þið allar/öll standa upp og rétta aðeins úr ykkur).

Við þráum öll að eiga vináttu, vináttu við aðrar manneskjur, við þráum að eiga samleið með einhverjum. Rétt eins og litli ljóti andarunginn í ævintýri H.C. Andersen, sem leitaði þar til hann fann þau sem hann átti samleið með.

En okkur bregður stundum í brún þegar við áttum okkur á því að það taka okkur ekki allir eins og við erum. Það er eitthvað í fari okkar sem veldur því að sumu fólki líkar bara alls ekki við okkur. Samt viljum við að fólki líki við okkur, við erum jú svo viðkunnaleg en það er allt í lagi þó öllum líki ekki við okkur, við brosum bara og segjum ,,skidt med det” Við eigum hvort eða er nóg af vinkonum og vinum sem taka okkur nákvæmlega eins og við erum og elska okkur þrátt fyrir allt.

Flest fólk þráir að eiga vináttu Guðs en sumt fólk það heldur að það þurfi að uppfylla ótalmörg erfið skilyrði svo þau verði verðug elsku Guðs, en það er alls ekki svo. Guð elskar okkur eins og við erum. Hún er vinkona okkar sem kýs að vera hjá okkur og gefa okkur af sínu valdi, svo við getum hjálpað henni að gæta að veröldinni. Það er þetta sem er svo stórkostlegt finnst mér, Guð þarfnast mín rétt eins og ég þarfnast hennar. Hún þráir jafn heitt að vera vinkona mín og ég hennar, er það ekki yndislegt !

Nú ætla ég að fara að tala um gleðina, og hláturinn sem oft fylgir gleðinni.

Í Orðskviðunum getum við lesið ,,að glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt hjarta skrælir beinin.”

Í framhaldi af þessu þá langar mig að segja ykkur sögu, sögu af þremur systrum sem voru farnar að eldast aðeins. Þegar hér er komið við sögu þá sátu þær yfir kaffibolla heima hjá elstu systurinni og ræddu hina ýmsu erfiðleika eða vandamál sem höfðu skotið upp kollinum eftir að aldurinn fór að færast yfir þær. Sú yngsta trúði systrum sínum fyrir því að stundum þegar hún stæði fyrir framan ísskápinn með smjörið í hendinni, þá væru hún ekki alveg viss hvort hún væri að fara að ganga frá því inn í ísskápinn eða hvort hún væri að fara að smyrja brauðið. Sú í miðið sagðist nú aldeilis kannast við þetta vandmál. Stundum þegar hún stæði efst í stiganum heima hjá sér þá gæti hún ómögulega munað hvort hún væri á leiðinni upp eða niður. Elsta systirin sem hafði haft sig lítt í frammi til þessa, sagðist nú sem betur fer ekkert kannast við slíka erfiðleika, 7,9,13 , og bíðið þið nú augnablik á meðan ég fer til dyra!

Þegar við hlæjum þá framkvæmir líkaminn á stundum ósjálfráðar en nokkuð taktfastar hreyfingar, hann gefur frá sér hin undarlegustu hljóð og öndunin fer úr skorðum. Við notum amk. fimmtán vöðva í andlitinu þegar við hlæjum. Við grípum andann á lofti og stundum þá fara tárakyrtlarnir af stað. Við reynum að anda að okkur súrefninu, roði færist í kinnarnar sem eru orðnar blautar af tárunum og stundum, ef við hlæjum lengi þá verður okkur illt í maganum.

Lítil börn, þau hlæja að meðaltali 400 sinnum á dag, já 400 sinnum en fullorðin manneskja hlær að meðaltali 15 sinnum, frekar dapurlegt. Við fullorðna fólkið þurfum að taka upp ný viðhorf og ég er tilbúin með slagorð sem ég sé fyrir mér út um allt á strætó eða á stórum auglýsinga skiltum. Besti tíminn til að birta þetta slagorð væri í lok desember og byrjun janúar þegar allar líkamsræktarstöðvarnar eru að birta sínar auglýsingar, en slagorðið er: Hlátur er andleg líkamsrækt. Þannig líkamsrækt hentar flestum og ég, sem held því fram að ég hafi ofnæmi fyrir leikfimi, gæti vel hugsað mér að stunda þannig líkahrækt nokkuð reglulega.

Hlátur gerir okkur andlega og líkamlega gott rétt eins og vináttan. Við þurfum á hlátrinum að halda rétt eins og vináttunni og rannsóknir hafa leitt í ljós að bæði hlátur og vinátta lengja lífið. Verum því vinkonur og vinir og hlæjum upphátt, saman og í hljóði og höfum stöðugt í huga okkar að: Sterk vinátta sterkra kvenna breytir heiminum!