Upplýsingar
Veldu lífið
Auður Eir Vilhjálmsdóttir
Seltjarnarneskirkja, 13. september 2015
Í Gamla testamentinu sagði Guð við fólkið sitt: Ég legg fyrir þig lífið og dauðann. Veldu lífið. Og Jesús sagði: Ég er lífið. Í vináttunni við mig geturðu valið lífið. Gerðu það. 5. Mós. 30.19. Jóh. 14.6.
Ég ætla að segja ykkur frá því sem ég gerði á þriðjudaginn. Þá var ég úti um allar trissur allan daginn og kom loksins við í kjötbúðinni til að kaupa í kvöldmatinn. Ég kaupi alltaf lambalundir ef ég er svo sein að það er búið að loka fiskbúðinni. En það voru bara til kindalundir og ég keypti þær, kom heim, setti upp kartöflur og hitaði pönnuna og setti kindalundirnar á hana. En þegar kartöflurnar voru soðnar voru lundirnar enn seigar svo ég lét þær vera áfram og opnaði baunadósina. Þá hringdi síminn og ég ætlaði að setja baunirnar í pott enn setti þær óvart á pönnuna. En lundirnar voru jafn seigar þegar ég gáði næst og á kafi í baununum. Það var hlægilegt svo ég stappaði baunirnar og svo setti ég sinnep út í og svo skar ég lundirnr í bita og svo í næstu athugun setti ég fleira krydd út í og bjó til sallat og svo sá ég að ég varð bara að hætta þessu og bað fólk að setjast og setti matinn á borðið. Ég var orðin tætt á taugum og sagði að þetta væri uppskrift úr Tidens kvinder og steingleymdi að líklega er það blað ekki lengur til. En engin gerðu athugasemd – og viti konur og menn – þetta var orðinn flottur réttur. Aldeilis létti mér. Og ég hafði sett apríkósutertu í mót um morguninn og meðan ég barðist við lundirnar bakaðist tertan og ilmaði um húsið.
Hvers vegna skyldi ég vera að segja alla þessa vitleysu – og sérlga þegar fermingarbörnin mín af Suðureyri eru hérna og ég vil segja eitthvað bitastætt og helst stórfagurt við þau og okkur öll?
Ég skal segja ykkur hvers vegna ég segi þetta. Það er af því að ég ætla að tala um festu okkar og gleði í lífinu. Ég ætla að segja að dagarnir séu stundum einhvern veginn eins og eldamennskan hjá mér á þriðjudaginn. Við höfum fínt efni í höndunum og fínt fólk til að eiga dagana með. En svo gerist eitthvað sem setur okkur út af laginu og við gerum eitthvað til að mæta því og svo gerum við enn meira til þess og svo breytum við og tökum enn eitt ráðið og svo loksins er þetta búið – og það undarlega og yndislega kemur í ljós – það að þetta var bara stórfínt. Og á meðan lýsir Guð okkur og verndar okkur eins og apríkósutertan bakaðist og ilmaði.
Ég ætla að segja að kristin trú okkar er trúin í hversdeginum. Það er af því að hún er trúin í eilífðinni sem er langtum meiri en hversdagurinn. Hún er grundvöllur veraldarinnar. Guð sem skapaði allt og á allt kom og var Jesús sem frelsar alla veröldina er vinkona okkar og alltaf hjá okkur. Þetta er dýrmætasta gjöf lífs okkar
Við sem sitjum héra saman í kvöld höfum öll átt góða daga og erfiða. Við höfum unnið sigra sem gerðu lífið svo gott og við höpum tapað og gefist upp svo það var bæði okkur og öðrum ljóst. Við höfum marga fjöruna sopið. En við komumst í gegnum það. Við erum hérna öll í kvöld. Við erum hjá Guði og við erum saman.
Hugsaðu um það í kvöld að líf þitt hefur allt bjargast fram að þessu – og sumt hefur verið prýðilega gott og sumt hefur verið alveg frábært. Ekki velja það að sjá það ekki. Hugsaðu um það sem Jesús sagði og þú veist svo vel og hefur margoft reynt, að Jesús var alltaf hjá þér og gaf þér alltaf máttinn sem þú þurftir þegar allt kom til alls og þegar þú gafst upp gaf Guð þér nýjan kraft.
Ekki velja það að sjá það ekki. Ekki velja það að telja upp fyrir þér ósigrana. Ekki velja þér að vorkenna þér og væla með sjálfri þér, með sjálfum þér, yfir ódugnaði þínum og ósigrum.
Veldu að sjá að þú komst í gegnum þetta allt. Það sýnir þér að þú ert dugleg manneskja. Það sýnir þér að þú hefur alltaf valið að taka á móti mætti Guðs. Þú ert vinkona hennar og vinur hennar. Henni finnst þú frábær manneskja. Sjáðu það. Það ver þig gegn kvíðanum og gefur þér hugrekki. Það gefur þér festu og gleði í lífinu.
Veljum lífið. Veljum að lifa alla daga í kristinni trú okkar Amen