Upplýsingar

Fyrir nokkrum dögum sátum við í kringum furuborðið okkar í Kvennakirkjunni til að undirbúa þessa messu. Auðvitað töluðum við líka um kreppuna sem við þurfum að lifa í núna og þá kom mér í hug, hvað gerði mamma þegar seinni heimstyrjöldinni lauk. Það var oft erfitt í stríðinu, en árin á eftir voru verri.

Mamma fæddist 1898 svo hún upplifði tvær heimstyrjaldir og tvær kreppur með öllu tilheyrandi. Ég var tæplega 9 ára þegar seinni heimstyrjöldinni lauk og pabbi var einhvers staðar í stríðsfangabúðum, við vissum fleiri mánuði ekki hvar hann var og mamma fékk ekki lengur launin hans. Siemens verksmiðjan færði í stríðinu ýmsa starfsemi frá Berlín meðal annars líka í okkar borg og það vantaði húsnæði. Mamma bauð ungum manni að búa hjá okkur og vera kostgangari. Við fengum hans skömmtunarseðla, sem hjálpaði honum og okkur. Aðalmáltíðir voru helst úr kartöflum í allskonar formi. Seinna kom líka kona hans frá Berlín og við vorum vinir síðan.

Mamma leitaði alltaf leiða til að lifa af. Við gengum oft í nærliggjandi þorpin og hún saumaði föt fyrir bændakonurnar og dætur og við fengum egg, smjör og hveiti í staðinn. Eins tíðkuðust vöruskipti og þar fóru margar kristalskálar úr stofuskápnum í skiptum fyrir nauðsynlegar vörur. Grænmeti og nokkrar tegundir ávaxta ræktuðum við í garðinum. Ávaxtatrjám var í þá daga plantað meðfram sveitavegum og fólkið sótti sér afurðir þangað. Ég man líka að ég var dugleg að standa í biðröðum, þegar fréttist að eitthvað var að fá í búðunum. Mamma saumaði, prjónaði og heklaði endalaust og mitt hlutverk var að spretta í sundur gömlum fötum og rekja upp prjónavörur til að endurvinna . Hún lagði alltaf áherslu á að við værum hrein og vel klædd.

Flóttafólkið að austan frá Slesíu, núna Póllandi, kom í borgina okkar með ekkert eða lítið með sér, af því að þau misstu sitt á þeirri löngu erfiðu leið. Okkur íbúum var sagt að fara á járnbrautastöðina og taka á móti flóttafólkinu og taka að okkur fólk úr hópnum. Þar sem við vorum með stóra íbúð þurftum við að láta 2 herbergi. Í öðru herberginu bjuggu eldri hjón með dóttur sinni og í hinu herberginu bjó kona með 4 ára stelpu. Og seinna bjuggu hjón með 3 börn á háa loftinu sem var ekki beint innréttað sem íbúð. Öllu þessu fólki þurfti að útvega það nauðsynlegasta. Mamma var mjög hjálpsöm , bæði að láta hluti frá okkur og eins að fá hjálp frá borginni. Hún var mjög ákveðin að fá hjálp fyrir fólkið, það komu fleiri hundruð manns af flóttafólki í borgina okkar. Það var þröngt um okkur í íbúðinni en mér sem krakka fannst þetta mjög spennandi. Allt þetta fólk (nema konan með barnið, hún stal frá okkur) var mjög þakklátt og það mynduðust líka sterk æfilöng vinabönd.

Eftir að pabbi kom heim úr stríðsfangabúðum fékk hann ekki starfið sitt sem kennari aftur, af því hann þurfti eins og allir að fara í gegnum „prosess“ til að sanna að hann væri ekki nasisti. Þetta tók 1 ½ ár og á meðan bauð vinur hans -sem var tannlæknir- honum vinnu sem aðstoðarmaður að hreinsa tæki og tól og halda í höfuðið á sjúklingum. Þetta fannst honum hræðilegt en aðra vinna fékk hann ekki.

Við pabbi fórum oft með handvagninn í skóginn til að tína hríslur, kvisti og köngla til að kynda. Við skárum líka torf og þurrkuðum það til að kynda það herbergi sem við vorum í hverju sinni. Eins tíndum við sveppi, bláber, hindber, bromber og jurtir í te. Ég hef ekki séð eins hreina skóga síðan, núna liggja trén þvers og kruss. Ég lærði á þeim árum að lifa sparsamt, fara vel með hlutina og nota náttúruafurðir eins og t.d. hunang, kamillu og edik – gegn allskonar kvillum .

Mamma og pabbi fóru mjög sjaldan í kirkju og ég er ekki alin upp í kristilegri trú, en samt held ég að þau hafa trúað á eitthvað þeim æðra. Ég aftur á móti fór sem krakki alltaf í kirkju snemma á sunnudögum. Það var langt að ganga og engin kynding var í kirkjunni. Þau héldu mér aldrei til baka, heldur fór mamma snemma á fætur til að kynda í eldhúsinu , vekja mig og hjálpa mér að klæða mig vel, því veturnir voru snjóþungir og kaldir á þeim tíma.

Ég hef sagt í mjög stuttu máli hvernig það var þegar stríðinu lauk og gæti auðvitað sagt miklu meira. Borgin sem ég ólst upp í hafði fyrir stríð u.þ.b. 7000 og eftir stríðið u.þ.b. 10.000 íbúa. Hún varð ekki fyrir sprengjuárásum, þess vegna gátum við tekið á móti svo mörgu flóttafólki. En ég man vel þegar sprengjuflugvélar flugu yfir, sírenurnar fóru í gang og við þurftum að fela okkur í kjöllurum. Það var lítið um skólagöngu, við vorum varla mætt í skólann, þegar sírenur hringdu og við hlupum heim. Ég man líka hvað himinninn var eldrauður þegar Dresden ( ca. 200 km frá) var lögð í rúst. Svona gleymist aldrei.

Hvað hef ég lært á langri æfi? Ég lærði að gera það besta úr ástandinu hverju sinni, vera æðrulaus, þ.e.a.s. að vera ekki of svartsýn og ekki of bjartsýn, heldur raunsæ. Viðurkenna staðreyndir eins og þær eru. Vinátta, hjálpsemi, kærleikur, samstaða og kjarkur skipta miklu máli. Það má ekki gleymast. „Vertu ekki hugsjúk um neitt, en segðu Guði frá öllu“ segir Pál postuli í bréfi sínu til Filippímanna (4.6). „Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjarta þitt og hugsanir í Jesú Kristi .“ Vertu ekki hugsjúk um neitt, en segðu Guði frá öllu. Treystum Guði, hún treystir okkur. Amen