Upplýsingar
Ég get ekkert án þín vinan mín
og veit þú skilur það
og veist að ekkert gerist nema allt sé sameinað.
Verkin þín og verkin mín
og viskan sem að nær í mark
og vináttan sem gefur okkur
frelsi, gleði og kjark.
Þannig talar Guð til okkar í sálminum sem Auður Eir orti á upphafsárum Kvennakirkjunnar og er í takti við þann anda sem ríkt hefur hjá okkur.
Sá andi byggist á persónulegu sambandi við Guð sem er vinkona okkar og stendur með okkur alltaf, í öllu sem við gerum. Við erum vinkonur hennar og hún þarfnast okkar til að vinna að því að gera heiminn betri. Vináttan við hana gefur okkur gleði og kjark, hverri og einni þar sem hún er stödd í lífi sínu og hún streymir á milli okkar í messum Kvennakirkjunnar. „Það ert þú, elskan mín, sem ert að halda þessa messu,” er setning sem Auður hefur sagt marg oft og smátt og smátt fórum við að trúa því að við værum ekki bara að þiggja heldur líka að gefa. Ég held að þessi afstaða prestsins okkar hafi skipt sköpum um það hvernig Kvennakirkjan hefur þróast og dafnað þau þrettán ár sem hún hefur nú starfað. Hún leysti úr læðingi einhvern galdur sem felst í jafnræðinu, því að deila trú okkar, vonum og væntingum í bænum, söng og nærveru og finna að við erum allar jafn mikilvægar, bæði í augum Guðs og hver annarrar. Og það er eimitt þetta atriði sem ég tel mikilvægast að við höldum í heiðri og hlúum að þegar við horfum fram á veginn á þrettán ára afmælinu okkar – að við séum allar jafnar, að hver rödd fái að njóta sín og að messan sé sameiginleg lofgjörð okkar allra. Við þurfum til dæmis að halda áfram að hvetja konur til að segja hvað þær vilja að tekið sé fyrir á námskeiðum, örþingum eða í messum. Þannig hefur það verið frá upphafi – einhver er að glíma við eitthvað og spyr hvort hægt sé að fjalla um það á vettvangi Kvennakirkjunnar og það er gert. Við þurfum líka að halda áfram að styrkja vináttuböndin með ferðalögum, eins og við höfum farið í vor og haust í mörg ár, og með bænastundum á miðvikudögum þar sem við snæðum saman hádegisverð á eftir. Og stundum hefur komið til tals að hafa líka bænastundir í kirkju í miðri viku síðdegis, til dæmis einu sinni í mánuði. En á tímamótum er gott að horfa fram á veginn og velta fyrir sér hvert stefnir. Við erum orðnar þrettán ára og því eðlilegt að spurt sé hvort þau tímamót ættu að verða okkur hvatning til að stíga ný skref, alveg eins og 13 ára stelpa er að byrja að gera í lífi sínu á þeim aldri. Eigum við að verða meira ögrandi, eins og unglingur í uppreisn? Eigum við að láta meira í okkur heyra á opinberum vettvangi til að fá fleiri til liðs við okkur? Ef við erum ánægðar með það sem við höfum fram að færa ættum við þá ekki að reyna að fá fleiri til að njóta þess? Við heyrum nefnilega oft að margar konur á Íslandi hafi aldrei heyrt um Kvennakirkjuna. En þá er spurningin: Hverjar heyra og hverjar vilja heyra? Við höfum notað flestar venjulegar leiðir til að auglýsa okkur en það eru aðeins þær sem eru tilbúnar sem meðtaka auglýsingarnar. Eins og við vitum fá auglýsingar okkur ekki til að fara í messu nema að til staðar sé innri þörf og henni stjórnum við ekki. Fólk er ekki alltaf móttækilegt fyrir trú og boðskap Jesú Krists, það er um svo margt annað að hugsa. Það eina sem við getum gert er að vera til staðar þegar sú þörf kviknar hjá fólki að kynna sér Kvennakirkjuna. Um þessar mundir hafa margir neikvæða afstöðu til Þjóðkirkjunnar í kjölfar orða biskups á nýársdag. Eins og áður hefur gerst tjáir fólk slíka reiði með því að segja sig úr Þjóðkirkjunni. Okkur finnst kannski skrýtið að trúin sé fólki ekki meira virði en svo að orð eins manns fái það til að ganga úr kikjunni sinni, en svona er það bara. Svar Kvennakirkjunnar hlýtur að vera að vera tilbúin að benda á sérstöðu sína þegar fólk vill hlusta, skýra út kvennaguðfræðina sem við byggjum starf okkar á og höfum séð svo margar konur eflast og styrkjast þegar þær ná að lifa eftir. Það er þetta með auglýsingarnar og samkeppnina um athygli fólks. Nýlega fékk Kvennakirkjan frábært tækifæri til að ná til þúsunda Íslendinga af báðum kynjum á einstakan hátt. Þar er ég að tala um viðtalsbók Eddu Andrésdóttur við séra Auði Eir sem var ein mest selda bókin fyrir síðustu jól. Ég er viss um að margt fólk þurfti að taka niður fordómagleraugun þegar það las þá góðu bók enda hafa margir lýst því yfir að nú skilji þeir loksins hvað við séum að meina með því að tala um Guð sem konu og starfrækja Kvennakirkju. Að sjálfsögðu eigum við að nýta okkur þennan meðbyr og taka vel á móti þeim sem í framhaldinu vilja kynna sér starfsemi okkar. Í bókinni spyr Edda Auði hvert sé markmið Kvennakirkjunnar og svarið er að sjálfsögðu einfalt: „Að vefa saman líf og trú, svo að trúin á Guð gefi okkur traust á okkur sjálfar, aðrar manneskjur og lífið.” Höldum áfram, kæru systur, að æfa okkur í þessum vefnaði og hjálpa hver annarri við hann. Og munum það sem segir í laginu sem við sungum áðan:
Ég kom til þín til að tengjast þér
og tala um okkar mál
um heiminn, þig og hinar
og um hjarta þitt og sál.
Berstu með mér fyrir friði,
gleði og frelsi nú og hér
en til þess þarftu að trúa á mig
og treysta sjálfri þér.