Upplýsingar

Það var seinnipart vetrar árið 1993, fyrir 13 árum, að Guðný vinkona mín sagði mér að búið væri að stofna Kvennakirkju og hún hefði fengið það hlutverk að finna konur til að leiða safnaðarsöng í messum.„Heldurðu að þú getir kannski sungið eitthvað?“ spurði hún. Mér fannst auðvitað bráðfyndið að Guðný væri söngmálastjóri Kvennakirkjunnar og féllst umsvifalaust á að mæta á æfingu kvöldið eftir úti í Mýrarhúsaskóla – það skemmdi ekki fyrir að ég bjó þá og bý enn örstutt þar frá.
Ég man nú ekki sérlega mikið eftir þessum fyrstu söngæfingum og alls ekki hvaða sálma við æfðum en svo var allt í einu komið að messu. Ég mætti samviskusamlega í kirkjuna klukkutíma áður en messan átti að hefjast eins og okkur var uppálagt og þá fyrst fóru að renna á mig tvær grímur. „Í hvað er ég nú búin að koma mér? Hefði hreint ekki verið skynsamlegra að koma fyrst í eina messu og sjá hvernig mér líkaði? Ætli ég sé búin að koma mér í einhvern sértrúarsöfnuð?“ Þessar hugsanir flugu mér í hug þegar ég fylgdist með undirbúningi messunnar. Þarna voru ótal konur á ferð og flugi – það þurfti að leggja á borð í safnaðarheimilinu og koma kaffinu af stað, ein var beðin að bjóða kirkjugesti velkomna, önnur fékk það hlutverk að flytja kveðjuorð og það var einhvern veginn svo mikið um að vera að ég varð hálfringluð á þessu öllu. „Best að sjá hvað setur,“ hugsaði ég. „Ef mér líst ekki á þetta er ég ekkert að koma aftur.“ En svo hófst sjálf messan. Presturinn, séra Auður Eir, flutti predikun og ég tók að leggja við hlustir. Ég man ekki einu sinni hvert umfjöllunarefnið var í þetta skipti, en ég man að mér fannst það skipta mig máli og það sem meira var, predikunin var flutt á tungumáli sem ég skildi og mér var sagt að ég gæti gert eitthvað í þessu sjálf. Og presturinn stóð ekki uppi í predikunarstól og talaði niður til mín af innblásinni visku, hún stóð fyrir framan mig og talaði við mig eins og jafningja. Jú, þetta var vissulega félagsskapur sem ég vildi taka þátt í og er stolt af að hafa tekið þátt í allar götur síðan.

Og nokkru seinna kom að reiðitímabilinu hjá mér. Ég var svo reið. Mér fannst manneskja sem ég treysti hafa brugðist mér og ég reiddist. Og fólk sem ég hafði alltaf haldið að væri frekar hlýtt til okkar hjónanna, hafði víst haft horn í síðu okkar árum saman – og ég varð bæði sár og reið – aðallega reið. Til að bæta gráu ofan á svart urðu tveir ágætir menn sem ég þekki fyrir miklum rangindum og mér fannst þeir bara allt of umburðarlyndir í stöðunni svo ég tók að mér að vera reið fyrir þeirra hönd. Og var svo full af reiði. Hún erti mig og nagaði og ég sofnaði reið á kvöldin og gat ekki byrjað næsta dag fyrr en ég var búin að setja mig í reiðigírinn. En svo kom að messu í Kvennakirkjunni – og haldið þið ekki að umfjöllunarefnið hafi einmitt verið reiði. Mér fannst mjög merkilegt að Guð var beðin að gefa okkur góða reiði. Við þurfum sem sagt ekki að skammast okkur fyrir að reiðast, Jesús Kristur var til dæmis engin geðluðra, en það er ekki sama hvernig farið er með reiðina. Ég heyrði að ég gæti sjálf ráðið hvernig ég brygðist við aðstæðum sem kölluðu á þessi viðbrögð – ég hefði val. Og ég fann að reiðin mín var ekki góð reiði. Þegar heim var komið hófst ég handa við að taka til í sálarkistunni og allri þessari reiði sem ég hafði leyft að taka upp pláss þar, svo fátt annað komst fyrir, var fleygt í ruslið án nokkurrar eftirsjár. Ég skildi að ég gat valið hvort ég vildi heldur umgangast fólk sem sýndi mér hroka og lítilsvirðingu eða fólk sem auðgaði líf mitt af þrótti og lífsgleði. Ég gat valið hvort ég vildi láta reiðina eyðileggja fyrir mér heilu dagana eða hvort ég vildi nota þessa orku í eitthvað uppbyggjandi og varanlegt. Og valið var auðvelt. Ég er svo sem ekki alveg hætt að reiðast og ég er ekki laus við vandamál frekar en annað fólk En yfirleitt eru vandamálin einhvern veginn orðin svo miklu auðleystari, vegna þess að ég ræð hvernig ég bregst við þeim, annað fólk ræður ekki lengur lífi mínu og hugsunum. Og svona hefur samfylgd mín og Kvennakirkjunnar verið í þessi þrettán ár sem hún hefur starfað og ég vona að unglingurinn fái að halda áfram að þroskast og dafna. Hér hef ég fengið að þroskast og dafna þótt komin sé vel yfir unglingsárin, ég nýt leiðsagnar án þess að vera dæmd og umfjöllunarefnið í messunum er yfirleitt alltaf eitthvað sem snertir við mér. Og það besta er að hér erum við allar jafnar, hér er engin „aðal“ og engin annars flokks. Við erum bara. Hér hef ég kynnst urmul af góðum konum og við vinnum allar saman, ég þarf ekki að geta allt, ef ég get ekki eitthvað er einhver önnur sem getur einmitt það. Og svo er líka allt í lagi að vera stundum bara óttalega ræfilsleg, eiga gráa roludaga eins og Auður kallar þá. Roludagarnir líða hjá og aðrir skemmtilegri á litinn og ánægjulegri renna upp, bara eins og gengur og gerist í lífinu. Galdurinn er bara að láta ekki vansældina ná á sér tökum, að vita að erfiðleikarnir taka enda. Og þeir taka vissulega enda. Ég er þakklát og glöð fyrir að hafa fengið að kynnast Kvennakirkjunni og starfa innan hennar – ég hef fengið að láta ljós mitt skína, hef hlustað á hinar og séð þær láta ljós sitt skína og baðað mig í birtu þess. Það var einmitt umfjöllunarefni í einni predikun – að láta ljós sitt skína. Við skulum nefnilega allar leggja okkur fram um að vera ljósberar og hreint ekki vera að segja hver við aðra: „Vert þú nú ekkert að láta ljós þitt skína.“ Látum þess í stað ljósið okkar skína skært um ókomin ár. Þakka ykkur fyrir.