Upplýsingar

Það byrjar allt í sömu stöðunni
Predikun í Laugarneskirkju 19. janúar 2014
Auður Eir Vilhjálmsdóttir

Við heyrum í kvöld úr fyrstu köflum Markúsarguðspalls þar sem Jesús segir að hann sé kominn til að gera allt nýtt.  Ég er kominn til að stofna Guðsríkið, sagði hann, og til að bjóða ykkur til að vinna þar með mér:Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd.  Breytið hugsunum ykkar  og trúið fagnaðarerindinu.  En Guðsríkið er eins og sinnepskorn.  Þegar því er sáð í moldina er það smærra öllum öðrum sáðkornum.  Ef þegar því hefur verið sáð tekur það að spretta og verður öllum jurtum meira.  Það fær svo stórar greinar að fuglar himinsins geta hreiðrað um sig í skugga þess.Þessu sáðkorni er sáð í hjörtu ykkar.  Gætið nú að því.  Gætið þess að varðveita það.  Og næra það.  Og láta ekki áhyggjur og daglegt amstur bera það ofurliði.  Gætið þess, svo að það beri undursamlegan ávöxt í lífi ykkar.  Amen

Gleðilegt ár.  Nú byrjar allt upp á nýtt.  Eins og við flettum blaðsíðu eftir jólin og í upphafi meiri birtu.  Við erum samt svipaðar og það sem við segjum núna er svipað því sem við sögðum í desember.  Stundum þegar ég hlusta á mínar eigin predikanir finnst mér ég  alltaf segja það sama og ég verði að fara að finna eitthvað nýtt til að segja við okkur.  En samt þurfum við alltaf að segja það sama, aftur og aftur.  Við hittumst til að segja hver annarri að Guð elskar okkur og allt líf okkar byggist á því.
Arndís lét spegil ganga á milli okkar í síðustu messu og bað okkur að gá hvað við sæjum.  Við sjáum að við erum vinkonur Guðs, sagði hún.  Við sjáum í speglinum ást Guðs sem er með okkur í blíðu og stríðu.  Ég man eftir tveimur konum á skilnaðarnámskeiðunum okkar.  Önnur sagðist hafa sagt þegar hún leit í spegilinn:  Mikið er þetta nú lélegt eintak.  Hin sagði:  Ég get allt.  Ég held að þær hafi sagt þetta af því að þær voru hvor á sínum staðnum, önnur mitt í erfiðleikunum, hin komin langleiðina út úr þeim.  Við segjum það hver við aðra í messunum okkar og á námskeiðunum að við erum allar staddar á ýmsum stöðum í lífinu.  Við göngum gegnum dali og upp á tindi þótt við séum sem oftast á jafnsléttu.  Við segjum þetta aftur og aftur og viljum aftur og aftur hjálpast að við að sjá að svona er lífið, það er betra að sjá það.  Og við getum hjálpað hver annarri gegnum dalina og út í birtuna og upp á tindana þar sem við megum njóta góðu tímanna þegar við getum allt.  Við ætlum að hjálpa hver annarri til að komast út úr erfiðu hugsunum og inn í bjartar og góðar hugsanir.  Af því að Guð elskar okkur og við erum vinkonur hennar.
Það skiptir mestu hvað við hugsum.  Og mestu hvað við hugsum um sjálfar okkur.  Við höfum sagt hver annarri það aftur og aftur.  Ég heyrði það haft eftir einhverjum í útvarpinu að við hugsuðum eftir því hvernig við værum númeruð.  Það væru einhverjir punktar í höfðinu á okkur, og það færi til dæmis eftir þeim hvort við værum trúaðar eða ekki.  Mér líst ekki á þetta og kæri mig ekki um að trúa því.  Ég gæti hins vegar vel hugsað mér að trúa því sem var sagt í mánudagsþætti í sjónvarpinu, að við gætum breytt heilanum í okkar.  Við gætum með iðni og ástundun vanið heilann í okkur af því að hugsa daprar og svartsýnar hugsanir svo að hann fari af sjálfum sér að hugsa bjartar og yndislegar.
Mér finnst þetta stórkostlegt.  Það var sagt á hinni öldinni að þessi öld yrði öld kvíðans.  Og það varð.  Kvíði og depurð og ótti þrúgar fólk veraldarinnar.  En ætli það sé nokkuð meira núna en á hinni öldinni eða á nítjándu öld eða átjándu?  Ætli kvíðinn sé ekki hluti af öllum öldum og einfaldlega af því að það gerast alltaf atburðir sem vekja kvíða?  Fólk deyr og hús brenna og hamfarir ganga yfir náttúruna.  Við hljótum sjálfar að finna þungann sem getur lagst yfir okkur af því sem við sjáum og heyrum, við værum annars ónæmar fyrir því sem gerist í kringum okkur.    Það er miklu betra að sjá að lífið er alla vega, gott og vont, eins og við segjum hver annarri aftur og aftur, af því að það er best að vita það.
En við höfum miklu meira að segja hver annarri.  Það sem við heyrðum í guðspjallinu.  Jesús sagði að nú væri hann kominn til að gera allt nýtt.  Við skyldum koma og vinna með honum í Guðsríkinu og breyta heiminum.  Og breyta okkur.  Hann skyldi hjálpa okkur til að breyta hugsunum okkar.  Segjum það aftur:  Jesús hjálpar okkur til að breyta hugsunum okkar.
Við þurfum að heyra það aftur og aftur, segja það aftur og aftur.  Og það verður aldrei leiðinleg endurtekning.  Það verður alltaf upphaf að nýjum hugsunum og nýjum framkvæmdum.  Ein af okkur er ballettdansari.  Hún sagði að dansinn byrjaði alltaf með sömu stellingunni.  Alltaf með einu og sömu stellingunni.  Og út frá henni kæmu ný skref, og svo önnur og svo önnur.
Svona er það líka í trú okkar.  Hún byrjar alltaf á því sama, því að heyra að Guð elskar okkur.  Og út frá því verður eitthvað nýtt, aftur og aftur.  Af því að Guð er vinkona okkar og við erum vinkonur hennar.  Við sjáum ást hennar skína til úr speglinum.   Hún blessar okkur. Amen.