Upplýsingar

Nú hittumst við aftur eftir sumarið og söfnumst saman til að gleðjast. Alltaf þegar við hittumst er það í voninni og vissunni um að við förum allar ögn glaðari heim. Af því að við vitum af reynslunni fyrr og síðar að það er svo miklu betra að vera glaðar en að vera ekki glaðar. Ég er búin að hlakka til í marga, marga daga, hlakka til að hitta ykkur og sjá ykkur og heyra. Og svo tökum við upp nestið og grillum. Og förum héðan með stóra sneið af gleðinni sem við finnum hérna hver meða annarri og hvert með öðru. Og notum hana í kvöld og á morgun og í öllum hinum dögunum sem bíða okkar.
Ég ætla að tala um þrennt í dag. Af því að lúterskir guðfræðingar hafa óskaplega tilhneigingu til að tala alltaf um eitthvað þrennt, eins og trúarjátningin um þrenninguna talar í þremur greinum. Og við erum allar lúterskir guðfræðingar og tökum á móti þrennum skilaboðum þegar þau bjóðast. Í fyrsta lagi ætla ég að tala um markmiðið. Við Sigrún Gunnarsdóttir erum nefnilega af gefnu tilefni að lesa saman ýmsar bækur. Við lesum bækur hvor annarrar og í hennar bókum les ég að öll meiri háttar fyrirtæki verði alltaf að hafa markmið. Þá fer ég að hugsa um okkur sem meiri háttar fyrirtæki, ég hugsa nefnilega alltaf um okkur þegar eitthvað gott ber á góma. Og ég fór að hugsa hvaða markmiði ég gæti stungið upp á í dag þegar við hittumst hérna í yndislegri Heiðmörkinni eins og við gerðum í fyrrasumar. Það hefur ýmislegt gerst síðan þá og við höfum notið sameiginlegrar gleði sem er svo gott að hugsa um. Svo datt mér markmiðið í hug. Mér datt þetta í hug til að segja við þig um markmiðið sem mér finnst við ekki bara ættum að hafa heldur markmiðið sem við höfum. Og höfum alltaf haft. Og söfnuðumst saman í upphafi til að hafa. Þú ert markmið Kvennakirkjunnar. Hvernig líst þér á? Má ég bjóða þér að taka það inn í hjarta þitt og loka augunum og láta tilfinninguna faðma þig. Og streyma um þig. Svo að þú segir við þig: Ég er markmið Kvennakirkjunnar. Segir það mörgum sinnum. Af því að það er svoleiðis. Þú ert markmið Kvennakirkjunnar. Svo fer ég að hugsa hvort það geti hugsast að þér þyki þetta einum of og yfirborðslegt og svoleiðis. Hvort það geti verið að þér finnist Kvennakirkjan ekkert sinna þér og alls ekki segja neitt af því sem þú þarft að heyra. Ég vona ekki. Af því að það er í alvöru markmið okkar að sinna hver annarri og segja hver annarri það sem við þurfum allra helst að heyra til að lifa lífinu í blíðu og stíðu. Það er markmið okkar. Og við viljum segja það við þig og faðma þig með því. Og við viljum heyra það frá þér og finna að nærvera þín faðmar okkur. Og takk fyrir að vera hérna í dag og koma alltaf þegar þú kemur. Og hugsa til okkar hinna. Og biðja fyrir okkur. Við hefðum getað haft það markmið að verða þúsund konur í Kvennakirkjunni. Líka að verða frægar bæði hérlendis og erlendis. Og það er gott að verða fleiri og gott að láta til okkar heyra. En það er ekkert hjá því að hafa þig sem markmið okkar. Og vita þá að þú hefur okkur sem markmiðið. Mér finnst það undursamlegt, algjört dúndur og æði. Finnst þér það ekki bara líka? Ég er að vona það. Og þá er komið að grein tvö í þessu þrenna sem ég ætla að segja í dag. Grein tvö er það sem ég las líka í þessum stórmerkilegu bókum hennar Sigrúnar okkar að öll stórfyrirtæki og allar manneskjur bara ættu að hafa kjörorð. Það verður að vera svo stutt að það komist fyrir í fáum orðum og hvert tólf ára barn skilji það og það sé hægt að læra það um leið og við heyrum það. Hvað segirðu um þetta? Jón Sigurðsson hafði kjörorðið aldrei að víkja og Bríet Bjarnhéðinsdóttir hafði kannski kjörorðið Konur eiga að hafa kosningarétt og Jesús hafði svo mörg flott kjörorð að það er hægt að velja eitt á dag allt árið. Eins og þetta: Ég frelsa þig. Sem þýðir: Þú ert mitt markmið. Ég segi að við höfum í sameiningu skrifað margar flottar yfirskriftir yfir starf okkar og oft eina á hverjum vetri. Svo ég tek eina fram og festi hana á bol: Við erum mildar og máttugar af því að Guð er vinkonar okkar. Ein af fermingarstelpunum okkar er búin að gefa okkur stef til að syngja við þetta og Alla kennir okkur það í næstu messu. Við erum mildar og máttugar af því að Guð er vinkona okkar. Nú getum við aftur lokað augunum og fundið gleðina af þessum orðum hríslast um okkur. Það er svo gott að vera mildar og máttugar. Við vitum það allar. Við höfum æft okkur í því. Að vera ÁN þess að ásaka og nöldra og NÁ því að vera mildar og finna hvað við erum máttugar. Finna hvað við erum máttugar og sjá að það gerir okkur mildar. Allt af því að við erum markmið Jesú. Við erum markmið Guðs sem er vinkona okkar, ein af okkur, eins og við, alltaf hjá okkur og klárust og flottust. Mild og máttug. Og vinkona okkar. Í grein þrjú tölum við meira um það að hún er alltaf hjá okkur. Ég las í einni bókinni hennar Sigrúnar að við ættum að hugsa fram í tímann og ímynda okkur hvernig við viljum vera í framtíðinni. Við getum hugsað okkur jólin og svo í vor. Ef þú lokar nú augunum í þriðja sinn, geturðu þá séð það fyrir þér hvernig þú vilt vera í vor? Það er nefnilega sagt í góðum og blíðum nornafræðum og líka í harðsvíruðum bókum um bissness að við verðum það sem við hugsum um okkur. Ég las í Mogganum um daginn um fimm atriði í því að slökkva kvíða okkar og það snérist um það að breyta hugsunum okkar. Alveg eins og við segjum í kvennaguðfræðinni. Og ég las í bissness bókunum að við þyrftum að hugsa nýjar hugsarnir um okkur í 21 dag. Á hverjum degi í þrjár vikur segjum við þá við okkur: Ég er mild og máttug. Af því að það þarf 21 dag til að búa til braut í heilanum á okkur sem við getum svo bara rennt okkur eftir þegar hún er komin. Mér þykir þetta yndislegt. En ég held ekki að við getum það. Af því að ég held ekki að við megnum það að ráða svona við hugsanir okkar. Ég veit ekki hvað þér finnst, en ég held þér finnist það sama og mér. Og þess vegna þori ég að segja það. Það er það að fíflalegar og leiðinlegar og alveg óþarfar hugsanir sópast alltaf að mér aftur, og meira að segja enn vitlausari en áður. Ég held það sé gott og gagnlegt, og við ættum að gera það, að segja við okkur í 21 dag að við séum mildar og máttugar. En það kemur samt trúlega að því eftir 30 daga eða 58 eða 165 að okkur finnst við frekar og úrvinda. Eða hvað heldur þú? Það er þess vegna sem seinni hlutinn af kjörorðinu er svoddan dúndur. Það er um það að Guð er vinkona okkar. Það er hún sem gefur okkur máttinn. Ég frelsa þig, sagði hún. Ég er stofninn þú ert greinin, sagði Jesús. Þú getur þetta ekki án mín. En þú getur það með mér. Og þegar þú missir máttinn og mildina er ég hjá þér. Og ég hjálpa þér til að fyrirgefa þér og ég gef þér aftur mildi þína og mátt. Svo ekki vera hrædd. Haltu áfram að hafa markmið og kjörorð og vera handviss um að ég ér með þér í þessu og einu og öllu. Svo takk fyrir. Og verum allar og öll velkomin til haustsins og vetrarins í Kvennakirkjunni.