Upplýsingar
Hérna á Bríetartorgi er minningarstaður um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem flutti fyrst kvenna í samtíð sinni opinbert erindi um kvenréttindi. Það var árið 1887. Hún bjó hérna í gula húsinu á móti sem fékk Reykjavíkurverðlaun um daginn. Seinna bjó hún í húsi sem stóð beint á móti gula húsinu okkar númer 17, hennar hús var númer 18 þar sem speglahúsið er núna. Við minnumst hennar í dag í þakklæti. Og líka Þórunnr KP sem bjó í okkar húsi og var með Bríeti í að stofna Kvenréttindafélagið árið 1907. Og minnumst þess með hógværð að okkar hús fékk líka verðlaun og Þuríður á 13 tvisvar.
Svo förum við að hugsa til sjálfra okkar. Við erum komnar hingað til að uppörva hver aðra í lífsins löngu göngu, alltaf alltaf reiðubúnar til að taka hver aðra að okkur á gönguferðinni. Það er alltaf þess vegna sem við hittumst og það er hvorki meira né minna en yndislegt og takk fyrir að koma. Það er svo gott fyrir okkur hinar að þú komst.
Við Elísabet vorum hérna líka í gær og kannski fleiri af okkur. Við hlustuðum á djass á Laugaveginum og horfðum á biðraðir eftir beikoni á beikonhátíðinni á Skólavörðustígnum og keyptum svo á heimleiðinni túmata og hnetur hérna upp í Bónus og töluðum við vinkonu okkar á kassanum, hana sem er frá Hong Kong og er svo skemmtileg. Göturnar eru líka fullar af fólki í dag og við erum hluti af öllu þessu lifandi lífi og það er svo dæmalaust gott.
Og hvernig líður þér nú í dag? Það er alltaf spurningin, alltaf sama spurningin: Hvernig líður þér?
Af því að við höldum hópinn með Guði til að hjálpast að við að láta okkur líða vel.
Ég ætla að segja þrennt um það hérna á Bríetartorginu í dag.
Í fyrsta lagi þetta sem ég segi alltaf: Að við skiptumst allar á að finna margskonar tilfinningar og að við skulum alltaf vera til hjálpar þegar einhverjar okkar finna til. Og það eru alltaf einhverjar. Við vitum ekki alltaf þegar við hittumst hverjum okkar líður illa einmitt núna. En við vitum að einhverjum okkar líður illa.
Í öðru lagi að við skulum styrkja hver aðra til að njóta gleði lífsins þegar hún gefst. Það er engan veginn svoleiðis að okkur líði alltaf hálfilla og að það sé að minnsta kosti alltaf hætta á að eitthvað óskemmitlegt fari bráðum að gerast. Það er bara langt frá því sem betur fer. Lífið er sem oftast gott og skemmtilegt og við skulum styrkja hver aðra til að sjá það og njóta þess og þakka Guði fyrir það.
Það þarf hugrekki til að mæta erfiðleikum. En það þarf líka hugrekki til að njóta lífsins sem við eigum, sjá allt sem Guð gefur okkur og taka á móti því. Eins og því að gleðjast yfir gleðinni í bænum og því að vera með okkar eigin fólki og með sjálfum okkur í ró og spekt eða hverju góðu og skemmtilegu sem er.
Í þriðja lagi skulum við enn og aftur og alltaf aftur og aftur hvetja hver aðra til að biðja hver fyrir annarri. Alltaf á hverjum einansta degi. Svo að í mótlætinu megum við vita það að 200 kvennakirkjukonur biðja fyrir okkur. Og í gleðinni megum við finna að þessar yndislegu 200 kvennakirkjukonur standa með okkur og biðja Guð að blessa gleði okkar.
Það er dásamlegt að fá að njóta lífsins. Það safnar í okkur gleði sem við eigum í forðabúri þegar erfiðleikarnir mæta. Og þegar við göngum aftur út úr þeim umvefur gleðin okkur aftur.
Allt af því að við erum vinkonur Guðs. Og vinkonur hver annarrar.
Það var þetta sem ég ætlaði að segja í dag og sagði líka. Og takk fyrir að hlusta. Og nú förum við bráðum til að gleðjast saman yfir veitingunum sem við Guðrún B erum búnar að setja á borðið í stofunum okkar og tala saman og hlæja saman og segja hver annarri allt sem við viljum, b æði um sorg okkar og hamingju, alveg eins og við viljum.
Guð blessar okkur. Amen