Upplýsingar

Auður Eir Vilhjálmsdóttir í guðþjónustu Kvennakirkjunnar í Neskirkju

sunnudaginn 16. október 2016

 

Við erum að tala um kvíðann á námskeiðinu okkar og tölum líka um hann í kvöld.

Við höfum sagt margt um kvíðann.  Við höfum sagt að okkur finnst hann vera búnt af ýmsum tilfinningum og helst sektarkenndinni en líka einsemdinni og reiðinni og streitunni og ýmsu fleiru.

Kvíðinn er hluti af öllu hinu sem er öðru vísi en það á að vera.  Það tilheyrir böli heimsins.  Og hvað er  eiginlega böl heimsins?

Rétt um 500 árum fyrir Krist voru miklar hugmyndir í gangi á mörgum stöðum í heiminum.  Alveg eins og fyrr og síðar hafa miklar  hugmyndir orðið til á sama tíma á ýmsum stöðum.  Eins og kvennaguðfræðin.  500 árum fyrir Krist var Sókrates í Grikklandi og Búdda í Indlandi og í Kína voru Lao Tse og Konfúsíus.

Sókrates sagði að bölið væri fáfræðin og björgunin væri að hugsa skýrar.    Búdda sagði að það væri löngunin eftir einu og öðru og læknaðist með því að forðast langanir  og hugsa og tala fallega og hegða sér rétt.   Laó Tse sagði að það væri skortur okkar á sambandi við náttúruna og læknaðist með meira sambandi og dulúðugri íhugun.  En Konfúsíus sagði að við ættum bara að  vera raunsæ og sjá að svona væri nú lífið og við skyldum skella okkur í að taka þátt í því og bæta það.   Hann sagði að þegar liði á lífið yrði alltaf fleira sem við vildum að hefði verið öðru vísi og við skyldum horfast í augu við það og drífa okkur svo út úr þeim hugsunum.

Svo kom Jesús 500 árum seinna.  Hvað sagði hann?  Hann sagði að bölið væri syndin og björgunin væri hann sjálfur.   Vertu í mér eins og greinin er á tréinu, sagði hann.  Þá verð ég í þér.

Hvað er syndin?  Biblían segir að hún sé raunveruleiki.  Hún segir samt ekkert hvernig hún kom til.  En það er saga um það í  upphafi Gamla testamentisins.  Hún er um Guð og Evu og Adam og bráðskrýtna slöngu sem kunni að tala.

Slangan sagði þeim hjónum að Guð væri endemis lygatófa og þau drógust loksins á að trúa henni.  Þá tók Guð í taumana og sagði að nú yrði það alltaf um allar aldir að eilíft stríð yrði milli slöngunnar og afkomenda Evu og Adams.  Þau myndu alltaf reyna að drepa  hana og hún myndi aldrei gefast upp við að ljúga í þau og ásækja þau.

Ég les biblíuskýringar eftir danska presta sem komu út um miðja síðustu öld.  Þar skrifar séra Bartholdi að þegar slöngur ráðast á okkur reynum við að trampa þær niður með hælnum og fletja þær út og þær reyna að bíta okkur í hælinn.  Það er eilíft stríð og dauði gegn dauða.  Það er ekki hægt að vinna.

Þess vegna kom Jesús.  Hann einn gat unnið slönguna sem er það sama og að sigra dauðann og  sigra kvíðann.

Þá spyrjum við hvers vegna kvíðinn sé samt ennþá á dagskrá.  Og svarið er að það sé vegna þess að fullur sigur upprisunnar verði ekki opinberaður fyrr en þegar Jesús kemur aftur og gerir allt nýtt.

Þá vitum við þetta allt.  Við vitum að kvíðinn er raunveruleiki allra og alls staðar og alltaf.  Við vitum að Jesús sigraði hann.  Við vitum að ráð okkar er að lifa í kristinni trú okkar.

Hvenig eigum við að gera það?

Með því að treysta Guði.  Hún er vinkona okkar sem hjálpar okkur eins og vinkonur hjálpa alltaf.  Hún gefur okkur trúna sem við þurfum til að horfast í augu við kvíða daganna og  takast á við hann með öllu því góða sem við eigum í daglegu lífi.

Það er nú allur galdurinn, Ólöf mín.  Við getum ekki frekar lifað í traustinu á eigin spýtur  en við getum sigrað kvíðann í eigin mætti.  Og ekki einu sinni með gullgóðu ráðunum sem standa til boða og við berum okkur eftir og notum.  Þau eru svo góð en ekki nóg.  Það sem er nóg er að taka á móti því þegar Guð hjálpar okkur í þessu öllu, gefur okkur trúna, gefur okkur traustið og gefur okkur þá miklu gjöf að læra að búa með kvíðanum.  Guð blessar okkur alltaf, hún endurnýjar okkur dag eftir dag og gefur okkur sínar hugsanir svo sterkar og góðar,  Í þeim notum við gæskuna í daglegu lífi til að sigrast á kvíðanum.   Amen