Upplýsingar

Prédikun sr. Döllu Þórðardóttur prófasts í aðventuguðþjónustu Kvennakirkjunnar í Grensáskirkju.

Segja má að aðallega megi skipta fólki í tvo hópa.  Annars vegar eru þau, sem hafa kraft til að halda áfram veginn, þrátt fyrir áföll. Við segjum stundum að sumt fólk þurfi að þola meira en sinn skammt af missi og vonbrigðum, og við skiljum ekki hvernig það getur farið á fætur, stundað vinnu, hlegið og sýnt öðrum samúð. 

Svo er nefnilega önnur tegund af fólki, sem er síkvartandi; þessi tegund fólks er að kikna undan álaginu. Þessum persónum finnst að þær beri mesta ábyrgð í vinnunni og að þær séu alltaf beðnar um stærstu og þyngstu verkefnin. 

Hvað veldur því að fyrir þessu fólki er lífið byrði en fyrir hinu, sem fyrr var talað um, þá er lífið gott? 

Í jólaprédikun veltir presturinn Rudi Popp í Strassborg þessu fyrir sér, en ég hlusta oft á hann á netinu. 

Auðvitað er fólk misjafnlega saman sett og hefur erft ýmist veikleika eða styrk. 

Svo skipta tengsl og traust miklu máli. Börn sem eiga traust samband við foreldra eignast oft það sem kalla má sveigjanleika, en það er hæfni til að komast í gegnum sorgir og mótlæti. 

Þegar við lesum um vegferð Jesú í Jóhannesarguðspjalli, komumst við ekki hjá því að finna til með honum, hvað hann þurfti að líða, en jafnframt finnum við þennan sveigjanleika, hann ekki bara afbar lífið, hann naut þess.  Þarna er engin dramtík, engin sorg, hann fagnar lífi sínu. 

Skýringin?  Jú, í frásögn Jóhannesar er það kjarni lífs Jesú að hann er sendur af föðurnum. 

Jesús á traust samband við Guð.  Þeirra samband er okkur fyrirmynd. 

Jesús fékk það verkefni að koma hingað til jarðar sem eitt af okkur og að hverfa aftur til Guðs. 

Guð var viðstaddur á þennan hátt.  Þannig er opinberunin að kristnum skilningi. Við finnum Guð ekki fyrst og fremst í náttúrunni eða í framvindu sögunnar. Hann er ekki að finna í afkimum eða sérstökum stöðum, t.d. á helgum stöðum eða í helgum gripum. 

Ef einhver leitar Krists, þá er leiðin vörðuð. Hana er að finna í sögunni um þann sem kom frá Föðurnum þegar Ágústus var keisari og dó í keisaratíð Tíberíusar. 

Og þegar þetta verður ljóst, fá orð Jesú, þessi sem við þekkjum svo vel: ,,Ég er” aukið vægi. Það er kraftur í þeim, já, einhver ósvífni. Þegar Jesús segir: ,,Ég er brauðið, sem steig niður af himni” staðhæfir hann að hann sé þetta mikla besta brauð, sem tekur öllum öðrum fram. 

Sannleikurinn tók á sig mannsmynd. Ekki þarf frekar eða víðar að leita sannleikans. Þarf manneskjan að finna upp eða leita meira að kjarna eða grundvelli?  Hvar á enn að leita að speki, andlegheitum. Heimurinn allur með gildi sín er að sigla í strand. Hið háleita:,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” er svarið við öllum spurningum og allri leit að björgun fyrir mannkyn. 

Þannig er trúin. 

Það sem skiptir öllu er trúin, sem Guð hefur gefið hverju og einu, það er trú hans á manneskjunni, sem plantar frið í hjartað, og hann gefur hæfni til að sigla um stormana, sem við óneitanlega lendum í við og við á lífsleiðinni.