Upplýsingar
Prédikun sr. Auðar Eir Vilhjálmsdóttur í Laugarneskirkja 12. mars 2017
Guðþjónustan í kvöld er á tíma páskaföstunnar og kirkjan um víðfeðma veröldina sekkur sér niður í dagana sem leiddu til krossfestingarinnar. Við gerum það líka. Mitt í erlinum tökum við okkur tíma til að líta í kringum okkur og inn til sjálfra okkar. Í kringum okkur sjáum við ýmislegt sem við vildum að væri þar ekki. Það eru stríð og flóttafólk sem hrekst og þjáist. Sjúkdómar og sorgir eru á næsta leyti eins og alltaf og þessi öld er öld kvíðans. Við sjáum það sjálfar. Við sjáum fólk bugast af kvíða fyrir lífinu og finnum sjálfar að við komumst ekki frá þessum sama kvíða þótt hann leggi okkur ekki að velli.
Hvers vegna er þetta svona? Við heyrum sagt að heimurinn sé í rauninni bæði betri og viðráðanlegri. Það er hægt að ráða við hann með andlegum og líkamlegum æfingum sem hafa verið stundaðar frá fornu fari og okkur standa til boða. Við getum tekið okkur tíma til að líta inn í dýpstu fylgsni hugar okkar og ná jafnvægi sem læknar kvíða okkar.
Það er gott að heyra boðskap um möguleika. Við þurfum að læra að nota möguleikana til að njóta lífsins sem við eigum. Við þurfum það vegna sjálfra okkar og vegna hinna sem við lifum lífinu með. Þau þarfnast styrks okkar og hugrekkis. Við höfum öll djúp áhrif hvert á annað og gott eiga allar manneskjur sem fá að þekkja verulega gott fólk Og gott á hver sú manneskja sem er þessi verulega góða manneskja.
En kristin trú segir ekki að við finnum jafnvægið með því að kyrra huga okkar og finna þar uppsprettu styrks okkar. Hún segir að jafnvægið sé ekki þar.
Æ. Af hverju er kristin trú að draga svona úr okkur kjarkinn þegar aðrar hugmyndir bjóða okkur frið við sjálfar okkur, annað fólk og lífið?
Kristin trú er ekki að gera lítið úr okkur og fylla okkur vanmætti.
Kristin trú segir okkur að veröldin sem við sjáum sé eins og við sjáum hana. Hún er full af því sem við vildum að hún væri ekki. Við skulum ekki láta sem það sé öðru vísi, segir hún. Af því að þá erum við að plata sjálfar okkur. Við skulum ekki plata sjálfar okkur.
Hvað eigum við þá að gera mitt í veröldinni sem skelfir okkur og kallar fram vanmáttinn sem við viljum ekki finna til?
Trúin sem Guð gefur okkur segir okkur það. Við eigum að horfast í augu við raunveruleikann og við eigum að fela okkur í náð Guðs. Það hefur alltaf verið boðskapur kristinnar trúar.
Þess vegna tökum við okkur sérstakan tíma núna til að hittast og lesa saman um dagana sem leiddu til korssfestingar Krists fyrir tvö þúsund árum. Við lesum um tryllinginn sem var þá. Um hernaðinn og grimmdina og vitlausar hugmyndir sem höfðu skelfilegar afleiðingar. Og um það sem Jesús sagði um björgunina. Það sem hann sagði um frið heimsins og frið okkar eigin huga. Um hugmyndirnar sem standa okkur til boða.
Hverjar eru þær? Þær eru hugmyndir Jesú frelsara okkar. Og hverjar eru þær? Þær eru að leita að mættinum og friðinum sem kemur til okkar að utan. Frá Guði sjálfri sem þekkir heiminn og okkur miklu betur en við gerum. Þær eru ekki hugmyndir sem leynast djúpt í vitund okkar og við þurfum að læra að vekja. Þær eru hugmyndir um raunveruleikann sem stafa af því að veröldin sneri sér frá Guði. Og þegar hún kom og var Jesús krossfesti heimurinn hann. Af því að veröldin valdi sjálfa sig en ekki Guð.
Núna er tími okkar til að hugleiða dagana sem leiddu til krossfestingarinnar. Það er tími okkar til að horfast í augu við syndina. Þær eru ekki uppáhalds hugsun okkar. En við sökkvum okkur samt niður i þær. Við hugsum þær ekki einar. Við hugsum þær saman. Og með Guði. Og það verður blessun okkur. Guð blessar okkur, Amen