Upplýsingar

Það er ein spurning sem við spyrjum sjálfar okkur núna.  Finnst þér þú berjast?
Þetta er nefnilega baráttudagur sjálfra okkar og hluti af baráttudögum allra kvenna heimsins.
Frelsi okkar kostaði mikla baráttu.  Við ætlum bara að minnast á einn þáttinn núna.  Við stöndum á Bríetartorgi sem heitir eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.  Hún bjó um tíma hérna í gula húsinu hinu megin við götuna.  Þá bjó Hannes Hafstein líka þar og hann hvatti hana til að láta til sín taka í kvenréttindum.
 Og seinna bjó hún með manni sínum Valdimar Ásmundssyni ritstjóra innar í götunni í Þingholtsstræti 18, beint á mólti húsi okkar en það er búið að rífa númer 18.  Þar  stofnaði Bríet Kvenréttindafélagið árið 1907 með 14 öðrum konum.   Ein af þeim var amma mín, Þórunn K. P, í okkar húsi númer 17.  Hún bjó uppi og niðri erum við í sama anda hinna góðu baráttiu.
Þær börðust.  Þær börðust fyrir kosningarétti og fyrir stöðu giftra kvenna, fyrir menntun kvenna og fyrir verkakonum.  Styrkur þeirra var að þær komu allar frá heimilum þar sem sífellt var rætt um stjórnmál, þær voru í Reykjavíkurfjölskyldum sem þekktust og mátu hver aðra og þær áttu vináttu sín á milli, kunnu að skipuleggja og tala saman og vinna saman og treystu hver annarri.   Þær voru hugrakkar og einstakar. 
Og þá kemur spurningin aftur:  Finnst þér þú berjast?  Þegar við byrjuðum lýstum við starfinu með ýmsum orðum sem sýna góða baráttu okkar, messur, námskeið, bænastundir , söngæfingar, örþing, hugmyndatorg, sálgæsla, bókasafn, bókaútgáfa, ferðalög, erlent samstarf.
Við gerðum þetta allt og gerum það enn.  Við berjumst.  Tímar breytast og við berjumst öðru vísi en áður.  Færri koma og við breytum göngulaginu eftir því og kunnum eins og ekkert sé að breyta um takt.  Það er dásamlegt og ver okkur fyrir óþarfa tilfinningum.  Við erum glaðar í því sem við gerum og gerum það allar saman.
Við berjumst fyrir útbreiðslu kristinnar trúar.  Við berjumst í daglegu lífi okkar, biðjum Guð að gera okkur að blessun með nærveru okkar og gefa okkur náð til að tala þegar tækifærin gefast.  Við berjumst fyrir útbreiðslu trúarinnar.  
En við berjumst ekki í trú okkar.  Við hvílum í trú okkar.  Það er það sem við skulum hugsa um í kvöld.  
Við hittumst og gleðjumst, biðjum og syngjum og lesum Biblíuna og segjum hver annarri það sem við viljum segja,   Við erum hópur sem er gott að eiga og koma til og vita að öllum finnst gott að við komum.  Það er alltaf opið fyrir þeim sem vilja koma.  Það er að berjast fyrir trú okkar með því að hvíla í henni.
Sagði Jesús okkur að berjast í trú okkar?   Nei, hann bauð okkur að hvíla í trú okkar.
Það er fagnaðarerindi 19. júní.  Jesús kom og frelsaði okkur frá því að berjast við sjálfar okkur.
Jesús kom og frelsaði konur frá kvenfyrirlitningu og undirokun og kúgun aldanna sem er lýst í Gamla testamentinu.  En það var ekki skipun Guðs.  Það var þvert á móti algjörlega og fullkomlega á móti vilja Guðs.  Hún stóð alltaf með konunum sem voru kúgaðar og uppörvaði þær með orði sínu.  Svo komu hún sjálf og varð frelsari okkar.  
Þess vegna berjast konur fyrir fagnaðarerindið úti um allan heiminn.  Margar í litlum hópum eins og okkar hópi í Kvennakirkjunni.  Þegar allir þessir hópar eru skoðaðir saman eru þeir einn stór og máttugur hópur.  Bráðum heyrist fagnaðareerindið frá þeim öllum í miklum sigursöng.  Það kemur vakning.  Það kemur alltaf vakning í kirkjuna.  Hlökkum til.  Amen