Upplýsingar
Jesús frá Dalvík
Prédikun Auðar Eir í Seltjarnarneskirkju 16. mars 2014.
Við lesum í dag um síðustu daga Jesú eins og er skrifað í Matteusarguðspjalli. Það er sagt frá óvild yfirmannanna og fastmælum þeirra um að ráða Jesú af dögum. Við lesum um ferð hans til Jerúsalem með vinkonum sínum og vinum, kvöldmáltíðinni og handtökunni og dómi Pontíusar Pílaltusar. Meðan Pílatus sat á dómstólnum komu boð frá konu hans: Láttu þennan réttláta mann vera. En Pílatus dæmdi Jesú til dauða.
Í dag ætla ég að segja ykkur sögu eins og stundum. Það er sagan sem við heyrðum í ritningarlestrinum, sagan um síðustu daga Jesú. Ég er að hugsa um að staðfæra hana eins og mér finnst ég geta. Jesús fæddist og starfaði norður í landi svo við hugsum okkur að hann hafi fæðst hérna fyrir norðan, á Dalvík, og flust svo til Húsavíkur og safnað að sér hópnum fyrir norðan, Öllu sem er frá Húsavík og Stefaníu úr Eyjafirði Aðalheiði, Þórlaugu og Margréti, Auði Jónasar, Huldu, Döllu, Solveigu Láru og Sigríði Mundu, Bryndísi og Svanfríði og Sólrúnu. Þær og fleiri, konur og menn, fara með Jesú um allt, halda samkomur, tala við fólk hvar sem er og eru í sjálf í sífelldum boðum. Það er svo gaman og svo margt fólk flykkist að þeim þótt þau verði líka fyrir meira og meira aðkasti og ógnunum frá Klúbbnum. Ég held við getum bara kallað faríseana og aðra yfirmenn Klúbbinn, því við getum ekki hermt hugsanir þeirra og verk þeirra upp á nokkrar manneskjur hér.
Svo mitt í öllu þessu skemmtilega og undursamlega starfi fer Jesús að tala um að fara suður. Það verða mínir síðustu dagar, sagði hann. Hann sagði reyndar að hann yrði krossfestur, en það er ekki hægt að segja núna, nú eru engir krossfestir hér. En þau reyndu að fá hann ofan af þessu. En svo fóru þau, hann fór og tók þau öll með sér.
Þau komu hingað til Reykjavíkur og bjuggu hjá vinkonum okkar suður í Hafnarfirði. En þau komu hingað í miðbæinn á daginn og á fimmtudagskvöldið hélt Jesús veislu á efstu hæðinni í húsi við miðbæinn og sagði þeim svo margt og kvaddi þau. Það var orðið dimmt þegar þau komu út og Jesús settist á bekk í Alþingisgarðinum og talaði við Guð. Og þau, vinkonurnar og vinirnir, steinsofnuðu þarna hjá honum, yfirkomin af þreytu þessara daga og södd eftir góða lambakjötið í boðinu.
Þá gerðist það. Þeir komu frá Klúbbnum og tóku hann fastan. Það var seint um fimmtudagskvöld og þeir fóru með hann inn til sín. Og vinkonurnar og vinirnir sáu dyrnar lokast á eftir honum og stóðu alein eftir. Klúbburinn gerði samþykkt: Nú skyldi Jesús tekinn af lífi. Þeir handjárnuðu hann og sendu boð til Pílatusar strax á föstudagsmorguninn eldsnemma um að taka málið að sér eins og hann var skyldugur til.
Við skulum hugsa okkur að dómssalur Pílatusar sé í Héraðsdómi við Lækjartorg. Pílatus kemur á föstudagsmorgninum. Ég hugsa að hann hafi ekki vitað hvaðan á hann stóð veðrið, kannski hafði hann ekki haft tíma til að drekka morgunkaffið, kannski ætlaði hann í golf eða kannski ætlaði hann að hafa frí og lesa krimma. Honum var áreiðanlega hræðilega illa við að taka málið að sér. Og ég held að hann hafi verið snortinn af Jesú. Hann vildi ekki dæma hann. Og svo fékk hann skilaboð frá konunni sinni: Elsku Ponti minn, ekki dæma þennan mann. Hann er saklaus. Ekki dæma hann. En Klúbburinn hótar honum. Þú verður rekinn ef þú dæmir hann ekki. Og Pílatus varð ógurlega hræddur.
Svo datt honum snjallræðið í hug. Það var alltaf einhver náðaður á páskunum. Og það var glæpon í haldi hjá honum, ógurlegur ribbaldi sem hafði ætt um og stolið af fólki og lamið það til óbóta. Hann gat látið fólkið velja hvort hann yrði náðaður eða þessi Jesús, þessi undarlegi maður. Það myndi nú ekki velja óbótamanninn.
Hann fór með þá út á tröppur og sá allan mannfjöldann sem beið fyrir utan. Menn frá Klúbbnum höfðu safnað þessu fólkisaman og gengið á millil þeirra og sagt þeim að heimta að Jesús yrði krossfestur. Þessu fólki var flestu alveg hjartanlega sama, það var bara gaman að vera með í einhverjum hasa. Svo það gerði eins og hin og hrópaði: Krossfestu, krossfestu.
Og Pílatus dæmdi Jesú til krossfestingar.
Við segjum ekki meira af sögunni í þessar guðþjónustu. Við hugsum okkur að við stöndum í hópnum á Lækjartorgi. Þegar ég var lítil var klukkan þar kölluð Persilklukkan af því að þar var mynd af konu í hvítum kjól með hvítan hatt og í hvítum sokkum sem var allt þvegið úr Persilþvottaefni. Og til hægri voru fínar búðir, Árni B. Björnsson og Haraldarbúð og bak við okkur var Útvegsbankinn þar sem er Héraðsdómur núna. Og svo til vinstri var stóra timburhúsið með bæjarskrifstofunum og Stjórnarráðið fyrir framan okkur.
Við sem vorum lítil börn við Persilklukkuna vissum ekki að seinna myndu búðirnar hætta og Útvegsbandinn breyta um nafn og fara annað og lenda í ógurlegum hremmingum. Og að þetta skínandi fólk á bæjarskrifstofunum sem þurfti að ákveða að láta húsnæðislaust fólk flytja inn í braggana myndi sjá eftir því seinna. Og að duglega fólkið í Stjórnarráðinu sem við höfðum heldur aldrei nokkurn tíma séð myndi neita Gyðingum um landvistarleyfi svo að það dó í fangabúðum nasista.
Okkur grunaði heldur ekki að við myndum sjálf taka ákvarðanir sem við sæjum eftir. Að við vildum að við hefðum tekið aðrar ákvarðanir. Sagt annað en við sögðum, gert annað en við gerðum og hugsað annað en við hugsuðum.
Okkur, sem fórum svo mörg í sunnudagaskóla KFUM og K við Amtmannsstíginn og heyrðum að Jesús væri Frelasarinn, grunaði ekki að það yrði sagt út um allan bæ að hann væri alls ekki Frelsari, alls ekki, það væru margir frelsarar og mörg trúarbrögð sem væru öll jafn góð.
Okkur grunaði ekki að það gæti verið að það hefði verið alveg óþarfi fyrir Jesú að vera að flana þetta suður. Af því að það hafi bara verið bull hjá honum þetta sem hann var krossfestur fyrir að segja. Að það væri bara lygi að hann væri Guð.
Það var alveg óþarfi fyrir okkur að láta okkur gruna það. Því hann var nefnilega Frelsari, Hann var nefnilega Guð. Og hann er það. Sem betur fer. Amen